Á þessum degi fyrir réttum 23 árum síðan, hinn 7. maí 1994, endurheimti norska Þjóðlistasafnið Ópið, listaverkið víðfræga sem Edvard Munch málaði árið 1893, en því hafði verið stolið nokkrum vikum áður.
Bæði ránið, sem var afar bíræfið, og fundurinn vöktu mikla athygli jafnt innan Noregs sem og á alþjóðavettvangi, enda er Ópið, sem Much málaði að vísu í nokkrum útgáfum á árunum 1893 til 1910, jafnan talið til merkustu listaverka allra tíma og þess jafnvel getið í sömu andrá og Mónu Lísu sem Leonardo nokkur DaVinci málaði fjórum öldum fyrr.
Munch og Ópið
Edvard Munch fæddist árið 1863 í þorpinu Løten í Heiðmerkurfylki, en ólst upp í Osló frá blautu barnsbeini. Ógæfa reið yfir fjölskylduna þegar Laura móðir Edvards lést úr berklum þegar hann var aðeins fimm ára gamall. Enn syrti svo í álinn níu árum síðar þegar Johanne Sofie stóra systir hans fór sömu leið, aðeins fimmtán ára, en hún var honum afar hjartfólgin. Christian faðir hans var efnalítill læknir og var mikill aldursmunur á honum og móður Edvards auk þess sem hann var afar trúaður maður, svo lét nærri ofstæki. Þá veiktist Edvard litli sjálfur af berklum á unga aldri en næsta víst þykir að þessi áföll mótuðu líf hans og lífsviðhorf verulega þegar fram í sótti.
Á unglingsárunum ákvað hann að helga líf sitt málaralistinni og einungis tvítugur að aldri málaði hann sitt fyrsta fullþróaða verk, Morgunn, sem sýnir hálfklædda unga konu sem situr á rúmbrík og horfir út um glugga.
Munch prófaði sig áfram með ýmis konar stefnur og tækni og var óhræddur við að fara sínar eigin leiðir. Hann öðlaðist frægð fyrir verk sín, en átti lengi erfitt vegna drykkju og glímu við andlega vanlíðan. Hann var alla tíð einstæðingur og var mikið út af fyrir sig á heimili sínu í Osló síðustu tvo áratugi ævi sinnar, en hann lést árið 1944, rúmlega áttræður að aldri og skildi eftir sig þúsundir verka.
Hann skilur eftir sig mörg merkileg verk, til dæmis Veika barnið – sem er vísun í dauða Johanne Sofie – og fjölmargar sjálfsmyndir, sumar óvægnar, en hans verður alla tíð fyrst og fremst minnst fyrir Ópið.
Ópið sem bergmálar enn í dag
Ópið, meistaraverk Munchs, er til í fjórum útgáfum. Tvær þeirra er að finna á Munch-safninu í Osló, ein í Þjóðlistasafninu og ein er í einkaeign. Myndin sýnir mann sem stendur á brú og æpir stóreygur, en í baksýn eru tveir menn á brúnni, fjörður og blóðrauður himinn.
Ófáar lærðar greinar hafa verið skrifaðar um Ópið, hvað það sé sem maðurinn óttast svo mjög, hvers vegna himininn sé rauður og þar fram eftir götunum. Í dagbókarfærslu lýsti listamaðurinn sjálfur tilurð Ópsins hins vegar á þann veg að hann hafi verið á gangi með tveimur vinum sínum síðla kvölds. Þegar sólin hneig til viðar fann hann ákveðna depurð svífa á sig og himinn roðnaði á örskotsstund.
„Ég nam staðar, hallaði mér að handriðinu, dauðþreyttur, horfði yfir logandi himininn sem var sem blóð og sverð yfir blásvörtum firðinum og borginni. Vinir mínir gengu áfram. Ég stóð þar og skalf af ótta og fann stórt og endalaust óp berast í gegnum náttúruna.“
Á öðrum stað í dagbókum sínum segir Munch: „Mér fannst ég heyra óp. Ég málaði þá mynd – málaði skýin sem þau væru úr blóði. Litirnir æptu. Þetta varð að verkinu Ópið.“
„Takk fyrir lélega öryggisgæslu“
Ópið er, sem áður sagði, til í fjórum útgáfum, en Much var gjarn á að gera tilraunir með margs konar aðferðir á sömu verk. Ein útgáfan, sú eina sem er í einkaeigu, seldist á uppboði fyrir 120 milljónir dala árið 2012 og er eitt dýrasta listaverk sem selt hefur verið. Útgáfan sem liggur að baki þessari grein er frá 1893 og er máluð á pappa.
Hinn 12. febrúar 1994 var stolt stund í sögu þjóðar þegar Noregur stökk fram í sviðsljósið á alþjóðavettvangi þegar Vetrarólympíuleikarnir voru settir í Lillehammer. Í tilefni af Ólympíuleikunum var sett upp sýning á helstu menningargersemum Noregs og Ópið var fært af annarri hæð niður á jarðhæð þar sem öryggisgæsla var mun slakari.
Það var svo klukkan hálf sjö um morguninn að tveir menn hlupu upp að safninu, reistu stiga upp að veg þess, brutu glugga til að komast inn, klipptu myndina niður af veggnum með vírklippum og ruku á dyr. Allt í allt tók verknaðurinn aðeins um 50 sekúndur, en ræningjarnir skildu meira að segja eftir orðsendingu á póstkorti þar sem stóð „Takk for dårlig sikring“, eða „Takk fyrir lélega öryggisgæslu“.
Allt kapp var lagt á að leysa málið sem var hin mesta hneysa, og gengu margar kenningar í fyrstu, meðal annars lýstu samtök sem börðust gegn fóstureyðingum ábyrgðinni á hendur sér, en það þótti ótrúlegt, en meðal annars var getum leitt að því að skipuleggjendur Ólympíuleikanna hefðu sviðsett ránið til að beina athygli heimsbyggðarinnar að leikunum, þar sem það þótti óhugsandi að nokkur gæti selt verkið.
Ræningjar gengu í gildru en sluppu vel
Safninu barst innan tíðar krafa um lausnargjald. Fyrir eina milljón Bandaríkjadala yrði myndinni skilað á sinn stað. Ekki var gengið að kröfunum, en norska lögreglan fór þegar að leggja á ráðin með bresku lögreglunni, Scotland Yard, að leggja gildru fyrir ræningjana. Breskir útsendarar komu sér í samband við þrjótana og sögðust vilja kaupa verkið á um þriðjung upphæðarinnar sem þeir kröfðust fyrst.
Áætlunin gekk upp og hinn 7. maí var meistaraverkið komið á sinn réttmæta stað, svo til óskemmt, og fjórir menn voru handteknir. Höfuðpaurinn í hópi ræningjanna var Pål Enger, sem hafði, merkilegt nok, hlotið dóm nokkrum árum áður fyrir að ræna öðru verki eftir Munch, Vampírunni.
Mennirnir hlutu þunga dóma. Enger fékk þyngsta dóminn, rúmlega sex ára fangelsi, en svo fór þó að dómar þriggja þeirra voru ógiltir vegna formgalla á rannsókn þar sem bresku lögreglumennirnir höfðu komið til landsins á fölsuðum skilríkjum.
Það er að segja af Enger að hann virtist hafa lent á fótunum eftir að hann losnaði út, þar sem hann haslaði sér völl sem málari og listaverkasali og keypti meðal annars verk eftir Munch, með löglegum hætti. Síðustu ár hefur hann hins vegar verið flæktur í annað þjófnaðarmál sem ekki hefur verið til lykta leitt að fullu. Hann var upphaflega dæmdur fyrir að stela fimmtán verkum eftir Hariton Pushwagner, Vebjørn Sand og Camilla Grythe, en hann sver og sárt við leggur að hafa bara stolið fimm þeirra.
Líka rænt áratug síðar
Öðru eintaki af Ópinu var rænt árið 2004, en það var úr Munch-safninu og er málað á pappa árið 1910. Tveir vopnaðir menn óðu inn í safnið um hábjartan dag og stungu af með Ópið og Madonna, annað af helstu verkum Munchs. Á næstu mánuðum voru allnokkrir menn handteknir, grunaðir um aðild að ráninu, en verkin fundust ekki strax þrátt fyrir að fimm menn fengju dóma vegna ránsins í upphafi ársins 2006. Óttast var að ræningjarnir hefðu eytt verkunum af ótta við að nást, en svo gerðist það í ágúst það sama ár að verkin fundust, nokkuð skemmd en þó í betra ástandi en margir óttuðust. Þau fóru aftur í sýningu eftir viðgerð.