Þriðja árið í röð komst framlag Íslands ekki áfram í úrslitakeppni Eurovision. Svala Björgvinsdóttir er þess vegna komin heim og fær ekki að flytja lag sitt Paper aftur á úrslitakvöldinu í kvöld í Kænugarði.
Íslenska lagið var valið til þátttöku í undankeppni Eurovision fyrr á þessu ári. Svala naut í þeirri keppni mestrar hylli íslensku þjóðarinnar. Sama fyrirkomulag hefur verið haft á vali Eurovision-laga Íslands undanfarin ár. Síðustu þrjú árin hefur Ísland hins vegar ekki komist áfram úr undanriðli sínum og íslensku keppendurnir verið sendir snemma heim.
Samkvæmt úttekt Kjarnans á árangri Íslands í Eurovision árin 1986-2016 er ljóst að betri árangur fæst ef þjóðin kemur ekki nálægt valinu á framlagi Íslands.
RÚV hefur haft ýmsan hátt á því hvernig Eurovision-lögin hafa verið valin síðan 1986, þegar Ísland tók fyrst þátt. Útfærslurnar hafa verið margskonar, þjóðin hefur fengið að velja, dómnefndir hafa verið skipaðar um valið og fulltrúar RÚV hafa stundum ráðið öll um hvaða lag sent er í keppnina og hver flytur það.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, sagði í samtali við RÚV eftir að ljóst var að Svala fengi ekki þátttökurétt í lokakvöldinu í kvöld, að til greina kæmi að breyta undankeppninni hér heima.
Kjarninn ákvað að kanna hvaða aðferð er vænlegust til vinnings fyrir Ísland í Eurovision. Til þess að komast að niðurstöðu var ákveðið að bera saman þær aðferðir sem notaðar hafa verið við valið hér á landi og svo úrslit Íslands í lokakeppninni erlendis.
Ónákvæm vísindi
Ríkissjónvarpið hefur beitt fjórum aðferðum við val á Eurovision-lögum Íslands. Fyrsta lagið var valið árið 1986 þegar dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Gleðibankinn væri besta lagið til að senda út.
Dómnefndir ákváðu svo hvaða lög yrðu valin næstu árin á eftir. Dómnefndirnar voru ýmist skipaðar tónlistarfólki, sérfræðingum eða almenningi, og þeim jafnvel skipt eftir kjördæmum svo hvert landsvæði fengi sína fulltrúa.
Árið 1995 ákvað Sjónvarpið svo að velja framlagið án utanaðkomandi álits eða dómnefnda. Sá háttur var hafður á þar til árið 2000. Þá höfðu fulltrúar Sjónvarpsins valið bæði Minn hinsti dans með Páli Óskari (1997) og All out of luck með Selmu Björnsdóttur (1999). Árangurinn var misjafn. Páll Óskar endaði í 20 sæti en Selma í öðru sæti, sem varð besti árangur Íslands í Eurovision.
Á nýrri öld hefur Ríkissjónvarpið breytt nokkuð oft um stefnu. Dómnefndir hafa komið til sögunnar og fulltrúar Sjónvarpsins hafa valið sjálfir. Oftast hefur íslensku þjóðinni þó verið gefinn kostur á að velja lagið í símakosningu.
Síðustu sjö árin hefur verið blandað kerfi símakosningar og dómnefndar, þar sem dómnefnd hefur átt þátt í að velja lög til að taka þátt í einvígi tveggja efstu laganna í undankeppni Eurovision hér heima.
Jaðarsetning Íslands
Greiningin hér er aðeins til gamans gerð. Í keppninni úti hafa einnig verið gerðar breytingar í gegnum tíðina. Þeim löndum sem hafa viljað taka þátt hefur fjölgað mikið síðustu 15 ár eða svo, og nú er öllum löndum gert að taka þátt í undanúrslitum til þess að komast í úrslit. Aðeins upprunalegar þátttökuþjóðir í fyrstu keppninni árið 1956 eiga fast sæti í úrslitum.
Vert er að taka fram að síðan Eurvision-keppninni var breytt árið 2004 hefur Íslandi gengið ver að sækja stig. Áður en þátttökuþjóðum var fjölgað og sérstök undankvöld haldin til að ákvarða hvaða þjóðir fengju að taka þátt í lokakeppninni tókst Íslandi betur að sækja stig; fengu að jafnaði 2,16 stig frá hverju mótherja. Frá og með 2004 hefur Ísland aðeins fengið 1,58 stig að jafnaði frá hverjum mótherja.
Samkvæmt kortinu hér að ofan má sjá hvernig Ísland hefur orðið jaðarsettara í Eurovision, landfræðilega séð. Nær allar þær þjóðir sem hafið hafa þátttöku á þessari öld eru í því sem jafnan er kallað Austur-Evrópa.
Leyfum RÚV velja
Til þess að meta árangur mismunandi kerfa þurfti að beita nokkrum einföldunum. Það þarf að undanskilja samkeppnina sem Ísland fær í lokakeppni Eurovision og horfa blákalt á það hversu vel aðrar Evrópuþjóðir kunnu að meta framlag okkar.
Öll þátttökulönd hafa aðeins takmarkaðan fjölda stiga til að deila á milli mótherja sinna í Eurovision. Stigagjöfin hefur alltaf verið eins: mest er hægt að fá 12 stig, næst mest 10, og svo 8 stig og niður í 0.
Með því að reikna út meðalfjölda stiga sem Ísland hefur fengið frá hverjum mótherja í Eurovision, síðan Ísland tók fyrst þátt árið 1986, kemur í ljós að flest stig fást ef RÚV er leyft að velja hvaða atriði verður framlag Íslands.
Ef RÚV velur hefur Ísland fengið að jafnaði 2,5 stig frá hverjum mótherja. Næst besta leiðin er að velja atriðið í beinni símakosningu, þannig hefur Ísland fengið að jafnaði 2,0 stig frá hverjum mótherja. Dómnefndir skila okkur að jafnaði 1,9 stigi frá hverjum mótherja.
Versta aðferðin er að láta dómnefnd hafa vægi á móti símakosningu í undankeppninni. Það hefur beinlínis gefist hræðilega og skilað okkur að jafnaði 1,1 stigi frá hverjum mótherja.
Miðað við miðju
Aðrar leiðir til samanburðar á árangri Íslands voru kannaðar, þó að stigagjöfin sé sú sem lagt er traust á hér.
Árangur Íslands var einnig miðaður við miðju úrslitatöflunnar. Árið 1991 lenti Ísland í 15 sæti af 22 löndum sem tóku þátt. Við lentu þess vegna fjórum sætum fyrir neðan miðja stigatöfluna. Ísland hefur 14 sinnum lent fyrir miðri töflu eða ofan, miðað við 15 skipti fyrir neðan miðju. Að jafnaði hefur Ísland lent 0,9 sæti fyrir neðan miðju.
Í þessum samanburði gengur okkur að jafnaði verst þegar Ísland velur lagið sitt í einvígi þar sem dómarar fá að koma að ákvörðuninni um hvaða lög keppa í einvíginu. Okkur gengur hins vegar best að komast yfir miðju ef lagið er valið í hreinni símakosningu.
Hlutfallslegur árangur
Það má einnig taka mið af hlutfallslegum árangri Íslands í lokakeppninni. Þetta er gert með því að bera saman fjölda keppenda við það sæti sem Ísland lenti í að lokum í Eurovision.
Þegar við lentum í síðasta sæti árið 1989 var hlutfallslegur árangur okkar 0%. Þegar við lentum í 12 sæti af 24 keppendum árið 2000 var hlutfallslegur árangur okkar 50%. Og þegar við lentum í öðru sæti árið 2009 var hlutfallslegur árangur okkar 95,24%. Sigur mundi þýða 100% árangur.
Íslandi gengur að jafnaði hlutfallslega best ef valið er með hreinni símakosningu; aðeins betur en ef fulltrúum RÚV er leyft að velja. Það munar alls ekki miklu: 50,63% árangur gegn 49,71% árangri.
Dómnefndir ættu samkvæmt þessu ekki að fá að koma nálægt valinu. Það er að segja ef að markmiðið er að ná sem bestum hlutfallslegum árangri. Hreinn úrskurður dómnefnda skilar að jafnaði 40,15% árangri og blandað val símakosningar og dómnefnda skilar 43,36% árangri.
Gögnin sem stuðst er við í þessari greiningu má öll finna hér.