Á þessum degi fyrir réttum 59 árum síðan, hinn 13. maí 1958, hrifsuðu forvígismenn franska heraflans í Alsír, sem þá laut stjórn Frakklands, til sín völd í Alsír. Þessar aðgerðir voru fyrst of fremst til þess fallnar að mótmæla getuleysi stjórnvalda í París í að styðja við herinn í baráttu gegn uppreisn sjálfstæðissinna í þessari gömlu nýlendu.
Frönsk yfirráð í rúma öld
Frakkar lögðu Alsír undir sig árið 1830. Landinu var skipt upp í þrjú héruð og íbúar þess voru skipaðir franskir þegnar, en höfðu engu að síður ekki franskan ríkisborgararétt. Á árunum sem fylgdu fluttu hundruð þúsunda Frakka og annarra Evrópubúa til Alsír til að freista gæfunnar, enda var þar auðvelt aðgengi að landi þar sem innflytjendum var hyglað á kostnað innfæddra.
Með árunum urðu afkomendur evrópskra innflytjenda, svokallaðir Pied-Noires – Svartfætlingar, rótgrónir og fjölmennir í Alsír. Þeir þóttu hins vegar njóta forréttinda miðað við þá sem voru af alsírskum ættum, og múslimar, og það olli kergju milli hópanna sem stigmagnaðist eftir því sem á leið 20. öldina.
Múslimar upplifðu sig afskipta og svo fór að krafa um sjálfsákvörðunarrétt, og síðar sjálfstæði, varð sífellt háværari og endaði með stríði. Þjóðfrelsishreyfingin (Front de Libération Nationale) hóf skærur gegn herraþjóðinni í árslok 1954 og stóðu átökin, sem ganga undir nafninu Alsírsstríðið, allt fram til ársins 1962 þegar Alsír fékk sjálfstæði.
Lýðveldi á heljarþröm
Á meðan sífellt hitnaði í hlóðunum undir suðupottinum handan Miðjarðarhafsins kraumaði ákaft í frönsku samfélagi þar sem pólitísk kreppa batt stjórn landsins í báða skó.
Eftir seinni heimsstyrjöld var franskt stjórnkerfi reist við að nýju undir merkjum „fjórða lýðveldisins“, þar sem völd þingsins voru tryggð. Forsetinn var valdalaus að mestu, en framkvæmdavaldið var í höndum forsætisráðherra sem var kjörinn af löggjafanum, sem hafði vald til að setja ríkisstjórnir af með einföldum meirihluta (þarf ekki hreinan meirihluta).
Þetta kerfi reyndist afar óstöðugt sem leiddi til tíðra stjórnarskipta sem hömluðu mjög stjórn landsins á árunum upp úr miðjum sjötta áratugnum, á meðan franskt herlið barðist við skæruliða í Alsír, í stríði sem almennir borgarar í Frakklandi voru alls ekki á einu máli um að væri réttlætanlegt.
Skellurinn og endurkoma frelsishetjunnar
Náðarhögg fjórða lýðveldisins var greitt í maí 1958 þegar hópur herforingja og annarra í Alsír greip til örþrifaráða til að koma í veg fyrir að slitnaði á milli Frakklands og Alsír. Jacques Soustelle, fyrrverandi landstjóri í Alsír, hafði snúið aftur til Parísar til að vinna að endurkomu Charles de Gaulle hershöfðingja fram á stjórnarsviðið, enda var hann af mörgum álitinn hæfasti einstaklingurinn til að halda ríkinu saman á rósturtímum. Hann og bandamenn hans í Alsír, hrundu svo af stað valdaráni, hinn 13. maí 1958 þar sem þess var krafist að de Gaulle yrði útnefndur forsætisráðherra og fengi sérstök völd til að koma í veg fyrir að Alsír verði „yfirgefið“. Þegar þar kom við sögu hafði de Gaulle, frelsishetjan sem stýrði landinu á fyrstu árunum eftir seinna stríð, haldið sig utan stjórnmála í tólf ár.
Herliðið frá Alsír gerði sig líklegt til að halda upp til Frakklands og taka völdin þar, en þingmenn ákváðu að kalla de Gaulle til starfa, sem hann og þáði.
Hann fékk sex mánuði til að setja saman nýja stjórnarskrá, en í henni fullbúinni var búið að venda um öxl frá fyrra skipulagi og forsetinn orðinn höfuð framkvæmdavaldsins. Kom fáum á óvart að de Gaulle skildi ná kjöri sem fyrsti forseti fimmta lýðveldisins.
Lausn á Alsírsdeilunni
Eitt af fyrstu embættisverkum de Gaulles var að heimsækja Alsír og kynna sér aðstæður þar og lét frá sér hin fleygu orð: „Je vous ai compris“ – „Ég skil ykkur.“
Vandamálið var að þeir sem komu að stríðinu kusu allir að líta svo á að forsetinn hafi verið að lýsa yfir stuðningi við sinn málstað.
De Gaulle tók svo af skarið og beitti þrýstingi til að láta forsvarsmenn uppreisnarinnar í maí stíga niður og markaði þá stefnu að nútímavæða alsírskan efnahag og binda enda á stríðið. Því náði hann fram með því að bjóða Alsíringum sjálfsákvörðunarrétt, ráðstöfun sem fór gríðarilla í svartfætlinga, eins og gefur að skilja, en almenningur í Frakklandi samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1961.
Gengið var frá friðarsamningum milli Frakklands og Þjóðfrelsishreyfingarinnar í framhaldinu, og árið eftir fékk Alsír fullt sjálfstæði. Það leiddi til fordæmalausra búferlaflutninga milli landanna þar sem um 900.000 svartfætlingar fluttu frá Alsír til Frakklands á einungis nokkrum mánuðum. Alsírsstríðið hafði verið afar blóðugt og kostað 300.000 mannslíf.
Aðferðir de Gaulles við að leysa deiluna voru síður en svo óumdeildar sem sýndi sig best í því að oft var reynt að ráða hann af dögum.
Sterkur, en umdeildur leiðtogi
Hann reyndist hins vegar ófeigur um sinn og óx í embætti, þar sem hann lagði mikið upp úr sterkri stöðu Frakklands á alþjóðavettvangi, meðal annars með því að standa fyrir því að Frakkland kom sér upp kjarnavopnum árið 1960 og standa gegn nánari samruna ríkjanna sem stóðu að hinu nýstofnaða Efnahagsbandalagi Evrópu, síðar ESB. Þá stóð hann gegn aðild Bretlands að EBE þar sem hann taldi Breta vera leppa Bandaríkjanna til frekari áhrifa í Evrópu og beitti meðal annars neitunarvaldi í tvígang til að koma í veg fyrir aðild Breta, árið 1963 og 1967. Þeir fengu loks aðild árið 1973, eftir að de Gaulle var farinn frá völdum og fallinn frá.
Þrátt fyrir að vera umdeildur utan landsteina var fall de Gaulles fyrst og fremst vegna umbrota innanlands. Ungt fólk í hinum vestræna heimi hafði verið að rísa upp gegn ríkjandi þjóðfélagsskipan og Frakkland var engin undantekning.
Í maí árið 1968, áratug eftir að hershöfðinginn hafði komið eins og stormsveipur aftur til valda var orðið vart við þunga undiröldu reiði ungs fólks sem hafði fengið nóg af óbreyttu ástandi. Mótmælagöngur og verkföll skóku samfélagið svo hrikti í stoðum þess. Bardagar geisuðu á götum Parísar á tímabili og allt virtist stefna í allsherjar upplausn.
Forsetinn brást við með því að leysa upp þingið og boða til kosninga, sem fóru friðsamlega fram og slökktu mótmælabálin, en de Gaulle náði þó aldrei fyrri stöðu og þegar tillögur hans að breyttri stjórnskipan voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir, sagði hann af sér og sagði skilið við stjórnmálin.
De Gaulle lést árið 1970, 79 ára að aldri, en skildi eftir sig djúp spor í frönskum stjórnmálum og samfélaginu almennt, sem og á alþjóðavettvangi.