Það er ekki ofsögum sagt að forsetatíð Donalds Trump hafi verið talsvert brokkgeng það sem af er. Þrátt fyrir fögur (og allnokkur verulega ófögur) fyrirheit hefur honum orðið fátt úr verki nema að undirbyggja þær efasemdir sem flestir höfðu um hæfi hans í embætti.
Fyrir utan að hafa verið gerður afturreka með bann við komum fólks frá sérvöldum löndum þar sem múslimar eru í meirihluta og áætlanir sínar um að byggja tröllvaxinn múr við suðurmæri landsins, hlaðast upp grunsemdir um hvort Trump og hans fólk hafi mögulega brotið lög í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra.
Nú þykir ljóst að nokkrir af hans helstu trúnaðarmönnum voru í sambandi við rússneska aðila, og er jafnvel talið að einhverjir þeirra hafi lagt á ráðin með Rússum til að koma höggi á Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps.
Andstæðingar Trumps hafa verið ósparir á yfirlýsingar um svik, lygar, valdníðslu og landráð og á þingi hafa sumir demókratar kallað eftir því að hann verði ákærður fyrir brot í embætti og settur af (impeachment) eins og stjórnarskráin leyfir.
Enn sem komið er þykir það harla ólíklegt að slíkt fari í gang á næstunni og forysta demókrata vill bíða og sjá hvað kemur út úr rannsóknunum á afskiptum Rússa af kosningunum, en kannanir sína að fleiri Bandaríkjamenn eru fylgjandi því að ákæra verði lögð fram á hendur honum en eru mótfallnir. Þá eru uppi fréttir um að lögfræðingar í Hvíta húsinu séu farnir að kynna sér hvernig ferlið virkar og hvernig sé best að verjast. Hverju sem fram vindur, má vitna í Keith E. Whittington, stjórnmálafræðiprófessor við Princeton:
Tvisvar reynt en hvorug tilraunin tókst – Nixon „slapp“
Í sögu bandarískra stjórnmála hefur tvisvar verið reynt að koma forseta frá með því að ákæra fyrir brot í embætti.
Síðast var það Bill Clinton sem mátti standa fyrir máli sínu frammi fyrir þinginu árið 1998 fyrir meinsæri og að hindra framgang réttvísinnar í Lewinski-málinu sem tröllreið bandarísku þjóðlífi um árabil, (og Trump var svo vænn að endurlífga í kosningabaráttunni).
Clinton sagðist, fyrir rétti, aldrei hafa átt í kynferðislegu sambandi við Lewinski, en sú fullyrðing reyndist síðar vera röng eins og allir vita. Repúblikanar á þingi þóttust þar hafa höndlað gullið tækifæri til að bola forsetanum í burtu, en þrátt fyrir ákafa og harða baráttu náðu þeir ekki að safna saman þeim 2/3 atkvæða sem til þarf til að setja forsetann af.
Fyrsti forsetinn sem mátti bera af sér sakir í ákæru til embættismissis var Andrew Johnson, árið 1868. Johnson var varaforseti Abrahams Lincoln en settist í forsetastól eftir að Lincoln var ráðinn af dögum.
Bakgrunnur Johnsons var sérstakur því að hann var eini öldungadeildarþingmaður uppreisnarríkjanna í suðri, sem sögðu sig úr ríkjasambandinu árið 1861, sem hélt tryggð við sambandið.
Eftir að Johnson tók við, gerði hann samning við Suðurríkin um endurreisn, sem þótti þeim afar hagstæður. Þau fengu með honum full ríkjaréttindi á meðan þau fengu að setja sér lög um réttindi svartra sem afmnámu þrælahald aðeins að nafni til.
Af þessum ástæðum, og öðrum, tróð Johnson illsakir við róttækari öfl, sem voru fylgjandi afnámi þrælahalds, bæði á þingi og í hans eigin ríkisstjórn. Til að tempra völd hans setti þingið lög sem áttu að koma í veg fyrir að forseti gæti rekið embættismenn sem öldungadeildin hafði staðfest, án samþykkis deildarinnar.
---- Hæ @Pallih! ----
Johnson fór þvert á þessi nýju lög með því að reka Edward Standon hermálaráðherra, sem var stækur andstæðingur þrælahalds. Stanton tók því ekki þegjandi og læsti sig inni á skrifstofu sinni á meðan þingheimur hóf málarekstur gegn Johnson. Forsetinn var ákærður í febrúar 1868, en, líkt og með Clinton síðar, fékkst ekki nægur meirihluti til að sakfella hann, þótt það hafi staðið ansi tæpt. Sumir lykilmenn kusu gegn sakfellingu, ekki til að verja Johnson, heldur til að standa vörð um skiptingu ríkisvaldsins og rétt forsetans til að vera ósammála þinginu.
Johnson lauk kjörtímabilinu, en hlaut ekki tilnefningu demókrata til að verða forsetaefni þeirra síðar sama ár.
Alræmdasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna, og sá eini sem hefur horfið úr stóli fyrir lok kjörtímabils lifandi lífs, er Richard Nixon. Eins og alkunna er, braut Nixon gróflega af sér í embætti þar sem hann reyndi að hylma yfir með glæp sem undirmenn hans frömdu.
Ákæruferlið var hafið og Nixon hugðist standa fyrir máli sínu, en eftir að upptökur af fundi hans með aðstoðarmanni, þar sem fram kom að hann hafði sannarlega lagt á ráðin um að stöðva rannsóknina, var ljóst að hann hafði ekki stuðning á þingi. Áður en til þess kom að hann væri settur af, sagði hann af sér og Gerald Ford varaforseti tók við.
Hvað gerist ef forseti er settur af?
Allt of snemmt er að spá fyrir um hvort Trump verði ákærður, enda er alls óvíst að nægur fjöldi repúblikana muni kjósa gegn sínum manni, jafnvel þó að yfirstandandi rannsókn muni koma illa út fyrir forsetann.
Ef svo færi, myndi Mike Pence varaforseti taka við völdum, en næstir í goggunarröðinni eru forseti fulltrúadeildarinnar, Paul Ryan, þar á eftir varaforseti öldungadeildarinnar (Varaforsetinn Pence er forseti öldungadeildarinnar), en Orrin Hatch gegnir því embætti. Rex Tillerson utanríkisráðherra kemur honum næst.