Hvað gekk henni til?
Hvers vegna hljóp hin fertuga Emily Davison út á veðhlaupabrautina þar sem hún varð fyrir hestinum Anmer? Það veit enginn með vissu, en mikið hefur verið rætt um og rýnt í þennan atburð sem átti sér stað hinn 4. júní árið 1913.
Davison ólst upp í London og nam bókmenntafræði við háskóla í Oxford. Hún lauk námi en útskrifaðist ekki, þar sem Oxford meinaði konum að útskrifast á þessum tíma. Hún fékk þó starf við kennslu eftir að náminu lauk.
Á þessum tíma, um og eftir aldamótin 1900, voru réttindi kvenna í Bretlandi í brennidepli, en hægt hafði gengið að koma í gegn breytingum til að útvíkka kosningarétt kvenna og kjörgengi til jafns við karla. Réttur kvenna var takmarkaður við héraðskosningar og aðeins þær sem greiddu skatt fengu að kjósa.
Árið 1897 voru helstu baráttuhópar fyrir kosningarétti kvenna sameinaðir í samtökin National Union of Women's Suffrage Societies (NUWSS). Þau samtök unnu ötullega að því að vekja athygli á málstað sínum, meðal annars með kröfugöngum og slíku. Hvorki gekk þó né rak í þeim efnum og smám saman fjaraði undan umræðu og umfjöllun um kvenréttindi í bresku samfélagi.
Árið 1903 klauf hópur, undir forystu Emmeline Pankhurst, sig frá NUWSS og stofnaði Women's Social and Political Union (WSPU) sem skyldi nota meira afgerandi aðferðir. Þremur árum síðar gekk Emily Davison til liðs við hópinn og innan skamms sagði hún skilið við kennslu og helgaði baráttunni líf sitt upp frá því.
WSPU-konur skipulögðu fjölmennan baráttufund í Hyde park árið 1908, en fengu engin viðbrögð frá stjónvöldum. Upp frá því fóru þær að beita skemmdarverkum í mótmælaskyni.
Davison lét ekki sitt eftir liggja og var níu sinnum handtekin á næstu árum, fyrir grjótkast, ólæti og íkveikjur. Í fangelsi beittu súffragetturnar, eins og þær voru oft kallaðar, oft því vopni að fara í hungurverkfall. Yfirvöld brugðust við með því að koma mat ofan í þær með valdi.
Hún virðist svo hafa séð tækifæri til þess að vekja enn frekari athygli á málstaðnum með því að trufla Epsom kappreiðarnar sem voru mikið sóttur stórviðburður á þeim tíma.
Þegar hlaupið stóð sem hæst lét Davison til skarar skríða. Hún beygði sig undir grindverk og óð inn á brautina í veg fyrir hestana sem komu þjótandi að henni á fullri ferð. Líkleg kenning er að hún hafi ætlað að koma borða með slagorðinu „Votes for Women“ fyrir á einum hestanna. Ekki er hægt að gefa sér með vissu að hún hafi ákveðið hvaða hest hún hafi ætlað að grípa í, en það var Anmer sem varð fyrir valinu, hestur í eigu konungsins sjálfs.
Anmer keyrði á Davison á fullum krafti. Hesturinn flaug framfyrir sig og kastaði knapanum, sem hét Herbert Jones, af baki.
Svo merkilega vildi til að atburðurinn var festur á filmu og er eitt frægasta fréttamyndskeið þessa tíma.
Davison meiddist mikið við áreksturinn, en lifði í fjóra daga á sjúkrahúsi áður en hún lést hinn 8. júní 1913.
Jones fékk heilahristing við fallið, en þó hann hafi náð sér fljótt líkamlega, leitaði slysið á hann alla tíð og árið 1951 svipti hann sig lífi.
WSPU gerði mikið úr dauða Davisons og fylgdu tugþúsundir henni til hvílu.
Enn er deilt um hvað henni gekk til, en það þykir líklegt að hún hafi ekki ætlað sér að deyja þarna á brautinni þar sem hún keypti lestarmiða báðar leiðir og hafði skipulagt sumarfrí með systur sinni.
Eins er ómögulegt að segja hvort þessi skelfilegi atburður hafi haft mikil áhrif á réttindabaráttu breskra kvenna, en það liðu fimmtán ár þangað til að allar konur yfir 21 árs aldri fengu kosningarétt með lögum.
Hvað sem því líður, þá skráði Emily Davison sig rækilega í sögubækurnar.