Hátt í Sierra-fjallgarðinum nyrst í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum er stór sandslétta. Úr fjarska er ekkert athugavert við þetta þurrlendi, bara sandbreiða og órækt.
Þegar nánar er að gáð koma heilu raðirnar af yfirgefnum skriðdrekum. Hver brynvarði drekinn á fætur öðrum hefur verið skilinn eftir til þess að hverfa sandinn, öllum lagt í beinar raðir eins og þeim hafi verið stillt upp í hersýningu í alræðisríki.
Sierra Army Depot er ein stærsta hergagnageymsla í heimi. Þar eru ekki aðeins skriðdrekar heldur má þar finna fjöldann allan af brynvörðum trukkum sem einhvern tíma hafa verið notaðir til flutninga í hernaði Bandaríkjahers erlendis.
Geymsla síðan í seinni heimsstyrjöld
Bandaríski herinn hóf að nota sléttuna fremst í Nevada-eyðimörkinni til hergagnageymslu í seinni heimsstyrjöldinni. Staðsetningin þótti hentug því hún var nógu langt inni í landi (og hátt yfir sjávarmáli) til þess að Japanir kæmust ekki nálægt með flugskeyti eða kamakaze-flugvélar.
Þrátt fyrir að vera langt inn í landi eru samgöngur þaðan nokkuð greiðar og hægt að flytja skriðdreka eða sprengjutrukka eftir lestarteinum til hafnar í San Francisco-flóa. Þarna er úrkoma einnig eins lítil og hugsast getur í Bandaríkjunum sem lágmarkar ryð og veðurskemmdir á tækjunum.
Herinn geymdi gríðarlegt magn af sprengjum og skotvopnum í eins konar sandhúsum – ekki ósvipuðum snjóhúsum eskimóa heldur úr sandi.
Eftir seinni heimsstyrjöldina hefur Sierra-hergagnageymslan orðið að geymslu fyrir tæki og tól þessa stærsta hers í heimi sem ekki er þörf á í bardaga. Þarna er til dæmis að finna meira en 2.000 M1 Abrams-skriðdreka sem annað hvort hafa þjónað sínum tilgangi í stríðum Bandaríkjanna eða hafa aldrei verið sendir í vopnaða baráttu.
Innbyggð og óviðráðanleg offramleiðsla
Hergagnageymslan er ekki aðeins tilkomumikið sjónarspil og ágætis áminning um hernaðarmátt Bandaríkjanna heldur þykir Sierra Army Depot vera ágætis dæmi um offramleiðslu Bandaríkjanna á hergögnum.
Bandaríski herinn óskar reglulega eftir því við bandaríska þingið að framleiðslu úreltrar hernaðartækni verði hætt eða hún minnkuð. Hernaður 21. aldarinnar byggir í sí auknum mæli á ómönnuðum hergögnum og árásum úr lofti, svo ekki sé minnst á nethernað. Herinn hefur þess vegna æ minna gagn af nærri því 40 ára gamalli skriðdrekahönnun.
Svo dæmi sé tekið af Abrams-skriðdrekanum sem fer nánast beint af færibandinu í eyðimörkina handan Sierra-fjallgarðsins. Skriðdrekinn hefur verið framleiddur síðan árið 1980 og hefur hlotið margskonar uppfærslur og endurbætur síðan. Hvert tæki vegur rúmlega 60 tonn og er talinn vera ágætur til síns brúks. En hann hentar ekki í nútímahernaði.
Yfirstjórn hersins hefur þess vegna margsinnis óskað eftir því að framleiðslu hans verði hætt. Þingið á hins vegar mjög erfitt með að stöðva framleiðsluna enda er hergagnaframleiðsla veigamikill þáttur í hagkerfi einstakra ríkja og kjördæma í Bandaríkjunum. Þingmenn sem greiða atkvæði með því að sérhæft vinnuafl missir vinnuna geta, með öðrum orðum, átt hættu á að ná ekki endurkjöri.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, náði að gera allt vitlaust í desember síðastliðnum með einu tvíti þar sem hann gagnrýndi kaup Obama-stjórnarinnar á nýjum Lockheed Martin-orystuflugvélum og ákvað að biðja Boeing um gagntilboð.
Afrakstur þessa tvíts var að markaðsvirði Lockheed Martin (sem Bandaríkin hafa reglulega keypt hergögn af) hrundi.
Í ljósi þessa þá er kannski ekkert skrítið að Bandaríkin hafa yfir stærsta her heims að ráða. Það er einfaldlega innbyggt í efnahagslega afkomu einstakra ríkja innan Bandaríkjanna að framleiða hergögn.
Þar til Bandaríkin há stríð á evrópskum sléttum á ný eins og þau gerðu í seinni heimsstyrjöldinni þá er útlit fyrir að sandurinn fái að gleypa Abrams-skriðdrekana og öll hin tækin með tíð og tíma.