Hryðjuverkamenn og aðrir illvirkjar sem helga krafta sína því að vinna öðrum – oftar en ekki saklausu fólki – mein, þykjast oftast vera að vinna í þágu einhverra trúarbragða. Gjörðir slíkra manna eru hins vegar yfirleitt afbökun eða afskræming á gamalgrónum kennisetningum, og eiga fátt sameiginlegt með grundvallarboðskap þeirra.
Svo eru einnig tilvik þar sem trúarhópar eru gagngert samansettir með tortímingu í huga og draga jafnval að sér fylgjendur á þeim grundvelli.
Einn af þeim hópum er japanski sértrúarsöfnuðurinn Aum Shinrikyo sem taldi á sínum tíma tugir þúsunda meðlima, en er í dag helst þekktur fyrir kaldrifjuð hryðjuverk sem framin voru í hans nafni á tíunda áratugnum.
Búddismi í bland við heimsendaboðskap
Upphaf Aum Shinrikyo (sem mætti þýða sem „Hinn mikli sannleikur Aum“) má rekja aftur til níunda áratugarins, sennilega um 1984, þegar Shoko Asahara (sem hét áður Chizuo Matsumoto) stofnaði hóp sem hugsaður var til iðkunar til hugleiðslu og jóga. Kenningar Asaharas, sem byggðu að mestu á búddisma, í bland við hindúsima og kristni, hlutu þó nokkurn hljómgrunn og fjölgaði skarpt í fylgjendahópi hans og í kjölfarið birtust viðtöl við hann í fjölmiðlum og hann var beðinn um að flytja fyrirlestra í háskólum og víðar.
Ákveðin þáttaskil urðu í Aum Shinrikyo árið 1992 þegar Asahara gaf út bók til grundvallar trúarbragðanna, en þar gaf hann verulega í hvað varðaði heimsendaspár sem hann sótti í Opinberunarbók Biblíunnar og rit Nostradamusar, og lýsti því yfir að hann væri eins konar „kristur“ sem væri þess umkominn að taka á sig syndir mannkyns.
Eins og oft vill vera þegar trúarleiðtogar boða yfirvofandi heimsenda, sem í þessu tilviki átti að bera til með kjarnorkustyrjöld sem Bandaríkin kæmu af stað, var svar Asaharas einfalt; áhangendur Aum Shinrikyo kæmust einir af, en aðeins ef þeir legðu traust sitt á Asahara og guðlega krafta hans. Þessi hildarleikur átti að eiga sér stað árið 1997 samkvæmt spá leiðtogans.
Skuggahliðar koma í ljós
Þegar þarna var komið hafði þegar staðið nokkur styr um starfsemi Aum Shinrikyo, þar sem grunur lék á um að margir meðlimir hefðu verið ginntir til aðildar og að þar væri margs konar kúgun í gangi.
Lögmaður einn, Tsutsumi Sakamoto að nafni, hafði meðal annars hafið undirbúning að hópmálsókn gegn hópnum í nafni meintra þolenda ofríkis. Árið 1989, áður en málið komst á flug voru Sakamoto, eiginkona hans og barn hins vegar myrt af útsendurum Asaharas og spurðist ekkert til þeirra fyrr en að lík þeirra fundust árið 1995, en þá hafði talsvert dregið til tíðinda.
Auk þess er talið að Asahara hafi látið ráða fjölda andstæðinga Aum Shinrikyo af dögum og margir aðrir særðust eða veiktust eftir tilraunir til slíks.
Á þessum árum gerðist Asahara mun herskárri og hóf að byggja upp vopnabúr til að búa sitt fólk undir yfirvofandi hildarleik. Hann lagði sérstaka áherslu á að fá til liðs við sig vísindamenn sem unnu að gerð eiturs og efnavopna, t.d. taugaeitursins saríns. Sarín var fyrst þróað sem skordýraeitur í Þýskalandi á fjórða áratugi síðustu aldar, en síðar nýtt til gerðar efnavopna fyrir her Þriðja ríkisins. Fleiri ríki tóku það svo upp eftir því sem á leið og notaði Saddam Hussein Íraksforseti það meðal annars gegn Kúrdum í eigin landi og í hernaði gegn Íran undir lok níunda áratugarins. Sarín er eitt virkasta taugaeitur sem til er, þar sem dropi á stærð við títuprjónshaus getur orðið fullorðum einstaklingi að aldurtila.
Það var svo í júní 1994 þegar Aum Shinrikyo lét fyrst til skarar skríða. Í borginni Matsumoto, rétt vestur af Tókýó, komu útsendarar fyrir vörubíl sem var útbúinn til að sprauta saríni yfir hús þar sem voru til húsa dómarar sem höfðu til meðferðar dómsmál gegn söfnuðinum vegna fasteignadeilna.
Það gekk eftir og eiturský lagðist yfir hverfið og kostaði sjö mannslíf auk þess sem 150 aðrir urðu fyrir áhrifum af gasinu.
Þótt grunur félli á Aum Shinrikyo var enginn liðsmaður handtekinn og Asahara gat haldið áfram skipulagningu næsta grimmdarverks.
Hryllingur á lestarstöðinni
Snemma árs 1995 tilkynnti Asahara fylgjendum sínum að Þriðja heimsstyrjöldin væri hafin, og með því aðdragandinn að tortímingu heimsins, eins og spáð hafði verið fyrir.
Næsta skref Aum Shinrikyo var árás á almenning í neðanjarðarlestarkerfi Tókýó, sem flutti daglega um fjórar milljónir farþega.
Það var svo að morgni mánudagsins 20. mars 1995, á háannatíma, að fimm meðlimir – Ikuo Hayashi, Kenichi Hirose, Toru Toyoda, Masato Yokoyama og Yasuo Hayashi – karlar á aldrinum 27 til 48 ára, stigu hver upp í sína lest sem allar stefndu í átt að miðborg Tókýó. Þeir höfðu meðferðis um lítra af fljótandi saríni hver, í plastpoka sem var vafinn inn í dagblað. Þegar dyr lestarinnar opnuðust á fyrirfram ákveðinni stöð, stungu þeir gat á pokana með regnhlífaroddum sem höfðu verið sérstaklega brýndir til þess arna, og ruku svo af vettvangi á meðan rokgjarnt eitrið leystist upp og dreifðist um lestarvagninn og ganga lestarstöðvarinnar. Lestirnar héldu svo áfram á næstu stöð og svo koll af kolli og alltaf komust fleiri í snertingu við eitrið Til að koma í veg fyrir að verða sjálfir saríni að bráð tóku þeir inn móteitur.
Hryllilegar afleiðingar sarínsins voru fljótar að koma fram þar sem farþegar stóðu fljótt á öndinni, blindaðir og ofsahræðsla greip um sig. Um síðir varð nærstöddum ljóst hver upptökin voru og lestirnar voru stöðvaðar, misfljótt þó. Í tveimur tilvikum stukku starfsmenn lestanna til og fjarlægðu pokana úr lestarvögnunum og guldu fyrir með lífi sínu. Í einni lestinni sparkaði farþegi eiturpokanum út um opnar dyrnar og út á lestarpallinn þar sem fjórir nærstaddir létust.
Þegar yfir lauk voru tólf látnir og sá þrettándi lést síðar af völdum eitursins. Um 5.500 manns þurftu á læknishjálp að halda og þó að flestir þeirra hafi náð sér að fullu voru margir sem urðu fyrir varanlegum skaða. Afleiðingarnar hefðu þó getað orðið ennþá verri ef Aum-liðar hefðu beitt þróaðri aðferðum til að dreifa eitrinu, en rannsóknir gefa til kynna að tugir þúsunda hefðu getað látist.
Böndin berast að Aum Shinrikyo
Rannsókn hófst strax, eins og gefur að skilja, og ekki leið á löngu fyrr en böndin tóku að berast að Aum Shinrikyo, sérstaklega í ljósi fyrri tilræða sem gat hér að ofan.
Tveimur dögum eftir hryðjuverkin gerði lögreglan áhlaup á skrifstofur safnaðarins og rannsóknarstofu þar sem fundust fjölmörg ílát undan efnum sem höfðu verið notuð til að framleiða sarínið. Í maí voru Asahara Shoko og á annan tug annarra forvígismanna Aum Shinrikyo um allt Japan, handteknir í tengslum við málið.
Eftir langvinn réttarhöld þar sem 189 manns voru ákærðir, voru síðustu dómarnir kveðnir upp árið 2004. Alls voru þrettán dæmdir til dauða, þar á meðal Asahara Shoko sjálfur (sem hélt því fram að undirmenn sínir hefðu skipulagt árásina án hans vitundar), fimm fengu lífstíðarfangelsi og 80 aðrir fengu mislanga fangelsisdóma. 87 fengu skilorðsbundna dóma, tveir voru dæmdir til greiðslu sekta og einn einasti var sýknaður.
Enginn dauðadómur hefur enn verið fullnustaður yfir Aum Shinrikyo-liðum eins og sakir standa, en Japan er eitt fárra í hópi helstu iðnríkja heims sem enn leggja stund á dauðarefsingar. Frá aldamótum hafa 74 fangar verið teknir af lífi með hengingu, eins og tíðkast þar í landi.
Á meðan Asahara Shoko situr í haldi, rúmlega sextugur að aldri, er söfnuður hans klofinn, en enn virkur. Félagsskapurinn, undir merkjum „Aleph“ og „Hikari No Wa“, telur nú á annað eða þriðja þúsund meðlimi að því talið er, og er ennþá undir ströngu eftirliti yfirvalda.
Þetta var mannskæðasta árás sem gerði hafði verið í Japan (eða á Japan) frá því að kjarnorkusprengjunum var varpað á Hírosíma og Nagasakí undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og skilur eftir sig djúp sár í þjóðarvitund Japana. Til að mynda var nú í vor, þegar 22 ár voru frá atburðunum, vígt minnismerki um þá sem féllu.