Bannárin í Bandaríkjunum voru skrítinn tími. Ekki þarf að leita lengra en að „Charleston-þema“ á árshátíð um það bil hvers einasta íslenska fyrirtækis og stofnunar síðustu ár, til að sjá að þessi tími er sveipaður ákveðnum gleðiljóma þrátt fyrir að raunveruleikinn hafi verið nokkuð harðari og óvægnari.
Fram eftir nítjándu öldinni óx bindindishreyfingunni fiskur um hrygg, enda var áfengisofneysla talin rót hinna ýmsu samfélagsmeina. Nokkur ríki tóku af skarið og bönnuðu áfengissölu innan sinna landamæra og varð Kansas fyrst til þess árið 1881.
Dreifbýlli ríki voru jafnan hlynntari áfengisbanni, en fylgið gekk þvert á flokkalínur þannig að það varð tiltölulega seint að pólitísku bitbeini á landsvísu. Í forsetakosningunum 1916 tóku Demókratinn Woodrow Wilson og Repúblikaninn Charles Evans Hughes hvorugur beina afstöðu til málsins, en á þingi hafði myndast sterkur meirihluti innan beggja flokka og í báðum deildum þingsins til þess að leggja þá vegferð að banna áfengissölu í Bandaríkjunum með stjórnarskrárviðauka.
Ályktun þess efnis var samþykkt í árslok 1917 og send ríkjunum til staðfestingar (lög kveða á um að 2/3 beggja deilda og 3/4 ríkisþinga, hið minnsta, þurfi til að staðfesta). Það var svo í janúar 1919 að átjándi stjórnarskrárviðaukinn slapp í gegn, þegar Nebraska varð 36. ríkið til að samþykkja tillöguna. Á endanum voru það bara tvö ríki af 48 sem lögðust gegn stjórnarskrárbundnu áfengissölubanni, Rhode Island og Connecticut.
Í október það sama ár samþykkti þingið í Washington DC frumvarp um lög til að framfylgja banninu, hin svokölluðu Volstead lög. Wilson forseti beitti neitunarvaldi gegn lögunum, en þingið ógilti neitunina og lögin gengu í gegn. Í þeim fólst meðal annars bann á sölu og flutningi á áfengum drykkjum (yfir 0,5% að styrkleika), en ekki á neyslu, og skilgreining á undantekningum, þ.e. til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi eða við rannsóknir, við trúarathafnir og ýmislegt fleira.
Við gildistöku laganna í janúar 1920 voru rúmlega 1.500 alríkislögreglumenn settir í að framfylgja þeim.
Glæpagengin stíga inn í myndina
Eins og svo oft áður þegar löggjöf gengur gegn lögmálinu um framboð og eftirspurn, voru til einstaklingar og hópar sem voru meira en til í að svala þorsta Bandaríkjamanna eftir að bannið gekk í gildi.
Einn af frumkvöðlunum var maður að nafni Johnny Torrio. Hann hafði unnið sig upp innan raða glæpagengis í New York en tók við rekstri ölstofa og vændishúsa í Chicago 1909. Þegar áfengissölubannið skall á árið 1920 var hann fljótur til að hasla sér völl í sprúttsölu og tryggði sér yfirráð yfir drjúgum hluta markaðarins í Borg Vindanna, eins og Chicago kallast jafnan.
Það var þó ekki hann sem varð holdgervingur mafíósa á bannárunum, heldur var það undirmaður hans, Al Capone.
Maðurinn með örið
Capone er eins konar samnefnari fyrir mafíósa á þessum tíma. Feitlaginn, vel klæddur maður af ítölskum ættum. Honum hefur enda verið gerð skil í fjölda kvikmynda og þátta, sem hafa fóðrað goðsögnina ríkulega.
Capone fæddist og ólst upp í Brooklyn og fór að vinna fyrir Torrio strax að loknum sjötta bekk. Í einum af mörgum áflogum sem hann lenti í við „skyldustörf“ sín var hann skorinn í kinnina með rakhníf. Hann fékk af því myndarlegt ör og hlaut fyrir vikið viðurnefnið „Scarface“.
Þegar Al var tvítugur, árið 1909, kallaði Torrio á hann til að aðstoða sig við vændishúsareksturinn í Chicago. Eftir að bannárin gengu í garð ákváðu helstu glæpahópar borgarinnar að skipta með sér hverfum til að koma í veg fyrir átök. Stærsta og öflugasta gengið, sem kennt var við forsprakkann Dion O'Banion, stjórnaði norðurborginni, þar sem flottustu hverfin voru og langflestir veitingastaðirnir. Torrio stjórnaði svo suðurborginni og aðrir minni aðilar fengu líka sinn skerf.
Þannig gekk sprúttbransinn fyrir sig fyrstu þrjú árin, en þá kom að því að O'Banion þótti Ítalirnir í suðrinu vera að gera fullgóða hluti. Samkomulag var gert til að friða O'Banion, meðal annars átti hann að fá sneið af ágóða Torrios, en það varð ekki til að stilla til friðar því að O'Banion hafði stundað það að ræna vínsendingum frá Kanada sem voru á leið til Genna-klíkunnar.
Genna-bræður og Torrio ákváðu að taka höndum saman og losa borgina við O'Banion. Því nýttu þeir sér tækifærið í tengslum við jarðarför eins félaga þeirra (sem O'Banion lét einmitt kála) og fóru inn í blómabúðina sem var skálkaskjól O'Banions og skutu hann til bana. Þetta var í nóvember 1924.
Upp úr því hófst mikið og blóðugt gengjastríð sem stóð yfir í mörg ár. Norðanmenn sóttust eftir að hefna síns fallna foringja og reyndu að stytta Torrio aldur í janúar 1925, þegar hann var að koma heim úr verslunarferð með konu sinni. Byssukúlum rigndi yfir bíl Torrios og stórsærði hann. Meðal annars fékk hann skot í kjálka, nýru, lungu, kvið og í fætur, og var laminn allhressilega í kjölfarið. Engu að síður lifði Torrio af, en fékk skömmu síðar árs fangelsisdóm fyrir sprúttsölu.
Sviðið var því í höndum sjálfs Als Capone, sem tók við tímabundið en eftir að Torrio slapp úr fangelsi ákvað hann að snúa baki við mafíulífinu og valdi Capone sem eftirmann sinn áður en hann hélt sjálfur til fæðingarlands síns, Ítalíu, með konu sinni og móður.
Nýi kóngurinn í Chicago
Al Capone var ekki lengi að festa sig í sessi sem grimmasti og ófyrirleitnasti glæpaforinginn í Chicago og breiddi stöðugt út yfirráðasvæði suðurborgarklíkunnar þar sem sprúttsala, veðmál og vændi voru í forgrunni.
Hann vílaði ekki fyrir sér að salla niður andstæðinga sína og sprengja upp veitingastaði sem neituðu að kaupa af honum vín. Þannig náði hann undir sig sífellt fleiri svæði og nýtti sér um leið mútur til að koma sér í mjúkinn hjá borgaryfirvöldum og lögreglu til að sleppa við óþarfa afskipti af lögbrotunum.
Þrátt fyrir það var Capone alls ekki að láta lítið fyrir sér fara. Þvert á móti. Hann barst mikið á, klæddist glæsilegum klæðskerasaumuðum jakkafötum og skartgripum og var jafnan umkringdur glæsimeyjum.
Hann gekkst upp í eins konar Hróa Hattar ímynd af sjálfum sér þar sem hann dreifði ölmusu af sínum gríðarmiklu, illa fengnu, auðæfum til fátækra víða um borg. Hann mætti á kappleiki og var oft fagnað eins og hetju. Hann hafði oft á orði að hann væri einfaldlega kaupsýslumaður. „Ég gef fólkinu bara það sem það vill!“ var algengt viðkvæði hjá honum.
Á meðan geysaði grimmilegt stríð milli klíku Capones og norðurborgarklíku O'Banions heitins. Hjaðningavíg gengu á víxl þar sem margir lykilmenn beggja vegna lutu í gras, meðal annars bílstjóri Capones sjálfs og einn daginn mættu fjöldi norðurborgarmanna fyrir utan höfuðstöðvar hans og létu kúlum rigna úr Thompson-vélbyssum, hinum frægu Tommy-guns sem eru eins og táknmynd þessa ára.
Ofbeldið stigmagnaðist og náði hámarki árið 1929 þegar Capone fyrirskipaði morð á Bugs Moran, sem þá var foringi norðanmanna. Hópur Capone-manna réðist inn í vöruskemmu Morans og yfirbugaði sjö manns sem þar voru að vinnu. Þegar mönnunum hafði verið stillt upp við vegg komu fleiri menn inn, vopnaðir vélbyssum og haglabyssum og hreinlega brytjuðu mennina niður.
Dagblöðin birtu sláandi myndir af vettvangi og kölluðu ódæðið „Saint Valentine's Day Massacre“, enda var fjöldamorðið framið á Valentínusardag. Þetta kastaði rýrð á orðspor Capones sem velgjörðarmanns, og í framhaldinu lögðu löggæslustofnanir miklu meiri áherslu á að klekkja á honum.
Endalokin nálgast
Yfirvöld reyndu allt til að fá Capone dæmdan þar sem hann var handtekinn og/eða kærður fyrir alls konar brot, allt frá vergangi upp í brot á Volstead-lögunum. Það sem varð honum hins vegar að falli voru skattamál.
Árið 1927 hafði Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfest að tekjur af ólöglegri starfsemi væru sannarlega skattskyldar. Þegar hinn frægi lögreglumaður Eliot Ness, ásamt sérsveit sinni, Hinum Vammlausu, hafði um árabil hamast í starfsemi Capones í Chicago var breytt um stefnu og ákveðið að hamra á skattamálunum. Capone var svo ákærður og síðar sakfelldur fyrir skattsvik og hlaut ellefu ára fangelsisdóm árið 1931.
Hann hóf afplánun árið 1932. Við komuna í fangelsið var hann greindur með sárasótt og lekanda sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á hann á næstu árum. Hann átti erfitt með að fóta sig aleinn í fangelsinu og varð fyrir talsverðu áreiti, þannig að hann var fluttur yfir í Alcatraz-fangelsið utan við San Fransisco.
Síðustu árin í afplánun var andlegri heilsu hans farið að hraka talsvert vegna taugahrörnunar sem var afleiðing sárasóttarinnar.
Honum var sleppt úr haldi árið 1939, en var sjúklingur allt til æviloka. Hann bjó í húsi sínu í Miami þar sem hann fékk heilablóðfall árið 1947 og nokkrum dögum síðar varð hjartaáfall glæpaforingjanum fyrrverandi að aldurtila, 48 ára að aldri.
Afnám áfengisbanns gróf undan glæpahópunum
Þegar Capone var sendur í fangelsi árið 1932 var orðið ljóst að áfengissölubannið hafði ekki borið tilætlaðan árangur. Glæpir höfðu aukist og glæpaforingjar eins og Capone höfðu efnast gríðarlega, án þess að dregið hefði sérstaklega úr drykkju meðal almennings.
Því lögðu þingmenn í Washington í að fella átjánda viðauka stjórnarskrárinnar úr gildi með öðrum viðauka, sem varð sá tuttugasti og fyrsti. Málið fékk hefðbundna afgreiðslu í báðum deildum þingsins, en í stað þess að leggja málið fyrir ríkisþingin eins og venja var, var ákveðið að nota aðra aðferð, þ.e. að stofna til sérstakra samkunda í hverju ríki þar sem málið var rætt. Það var gert vegna þess að talið var að ríkisþingmenn væru of háðir bindindishreyfingunni til að málið fengi nokkurn tíma eðlilegan framgang.
Það var svo í árslok 1933 að 21. stjórnarskrárviðaukinn, til afnáms áfengissölu, var staðfestur með samþykki Utah, sem varð 36. ríkið sem velti síðasta hlassinu.
Eftir það féll að sjálfsögðu botninn úr sprúttsölu glæpahópa, en eftirmönnum Capones lagðist ýmislegt til og þeir héldu yfirráðum yfir undirheimum Chicago í áraraðir eftir það.
Eftir stendur ímynd um tíma þar sem gleðin var vissulega við völd, en undir niðri geisaði fordæmalaus ofbeldisalda um allt land þar sem morð, limlestingar og dauði voru daglegt brauð. Hugsið endilega um það þegar þið setjið upp kúluhatt og axlabönd og stingið dótabyssu í buxnastrenginn á næstu árshátíð.