Fyrir nokkru las ég frétt á Vísi þar sem fram kom að konur borga meira fyrir klippingu en karlar. Þó svo að sumum kunni að finnast það óboðlegt að fólki sé mismunað á þennan hátt, þá leynast góðar útskýringar fyrir svona verðlagningu í bókum hagfræðinnar. Eftir að hafa eytt allt of miklum tíma í að safna saman gögnum og greina þau hef ég ákveðið að deila þessum hugmyndum með ykkur.
Kenning 1: Það kostar meira að klippa konur.
Þetta er einföld kenning. Ef markaðurinn fyrir klippingar er þokkalega samkeppnishæfur (sem hann ætti að vera) þá myndi maður halda að konur borguðu meira fyrir klippingu en karlar einfaldlega vegna þess að það kostar hárgreiðslufólk meiri tíma – og þar af leiðandi pening – að klippa konur en karla.
Í leit minni að gögnum á internetinu til að sannreyna þessa kenningu fann ég aðeins eina heimasíðu (slippurinn.is) sem útlistaði hversu langan tíma það tekur að klippa kynin. Samkvæmt upplýsingum Slippsins þá tekur það 45 mínútur að klippa karla en 60 mínútur að klippa konur. Hlutfallslega þýðir þetta að það tekur um það bil 33% lengri tíma að klippa konur en karla.
Ef verðskrá Slippsins er skoðuð má sjá að konuklipping kostar um það bil 22% til 27% meira en karlaklipping. Þar af leiðandi gefa þessi gögn það til kynna að ástæðan fyrir verðlagningunni sé einfaldlega sú að það taki meiri tíma (og kosti meira) að klippa konur.
Það sem kemur þessari kenningu enn frekar til hjálpar er þjónustan „herraklipping og skegg“ sem finna má í verðskrá Slippsins.
Samkvæmt upplýsingum Slippsins tekur það 15 mínútur að snyrta skegg og 45 mínútur að klippa karla, sem í heildina tekur jafn langan tíma og að klippa konur. Þar af leiðandi hefði maður haldið að „herraklipping og skegg“ væri jafn dýr þjónusta og konuklipping. En í staðinn er hún sú dýrasta (bæði þegar það kemur að „standard“ og „Senior“ þjónustu).
Heimild: www.slippurinn.is
Kenning 2: Eftirspurn er sterkari meðal kvenna
Þegar sölufólk getur augljóslega aðgreint hópa getur það heimtað hærra verð frá einum hópi fram yfir annan. Dæmi um þetta sér maður allstaðar: miðaldra fólk borgar 440 krónur í strætó á meðan gamalmenni og börn borga 210 krónur.
Þess vegna gæti það verið að hárgreiðslufólk átti sig á því að konur og karlar hafa mismunandi vilja til að borga fyrir klippingu og mismuna þeim á þeim grundvelli. Ef þetta er tilfellið, þá er ekkert illt við þessa hegðun, heldur er hárgreiðslufólk bara að reyna að fá eins mikið borgað fyrir vinnu sína og það getur.
Gögnin sem ég náði að safna hjálpa lítið við að styðja þessa kenningu, því miður. En þau gefa þó það til kynna að hárgreiðslufólk skipti viðskiptavinum sínum í þrjá hópa: konur, karlar og börn. Að meðaltali borga konur 8.503 krónur, karlar 6.770 krónur og börn 5.013.
Heimild: Verðskrár á vef hárgreiðslustofnanna
Kenning 3: Konur borga ekki meira en karlar:
Þessi kenning er eiginlega framlenging á fyrstu kenningunni. Tvennt er augljóst samkvæmt þeim gögnum sem ég hef undir höndum: (1) konur borga meira fyrir klippingu; og (2) að meðaltali tekur það lengri tíma að klippa konur en karla.
Ef það er satt sem Slippurinn segir, að það taki 60 mínútur að klippa konur og 45 að klippa karla, þá gæti það vel verið að karlar borgi jafn mikið – eða jafnvel meira – en konur fyrir hverja mínútu í stólnum. Til dæmis borga karlar 160 kr. fyrir hverja mínútu í standard klippingu í Slippnum. Það er 13 kr. meira en konur borga á mínútuna. Meira að segja börn sem fara í klippingu hjá Slippnum borga meira en konur fyrir „Standard“ klippingu.
Að sjálfsögðu getur vel verið að útskýringin á þessu hafi með annan fastan kostnað og meðferð hans í verðlagningu að gera. Og ef það er tilfellið þá kemur það ekki á óvart að fólk sem stoppar í styttri tíma í stólnum borgi meira fyrir mínútuna. En það er of flókin greining fyrir stutta grein sem þessa og breytir ekki þeirri staðreynd að karlar borga meira fyrir hverja mínútu í stólnum en konur – allavega á Slippnum.
Heimild: www.slippurinn.is
Eflaust eitthvað til í öllum kenningunum
Að sjálfsögðu koma allar þrjár kenningar til greina og meira að segja gætu allar þrjár kenningar haft rétt á sér á sama tíma. Það er erfitt, með aðeins fimm verðskrár til hliðsjónar, að segja til um hvað er hvað og hversvegna hvað er hvað. En, allavega, næst þegar þið farið í hárgreiðslu og skoðið verðskrána þá vitið þið að minnsta kosti hvernig hagfræðilúðar lesa þær.
Eiríkur Ragnarsson er hagfræðingur sem hefur fjallað um hagfræði með poppuðum hætti á bloggi sínu eikonomics.eu um nokkurra ára skeið. Pistlar Eiríks birtast nú á Kjarnanum á íslensku.