Heimurinn geymir undur mörg, stór og smá. Að telja þau til væri ógerningur, og hvers konar gagnger flokkun eftir undursamlegheitum væri fráleitt framtak enda alltaf háð huglægu mati höfundar.
Eða það hefði maður altjent haldið, en hins vegar er til einn slíkur listi sem er hægt að rekja nokkru aftur fyrir Krists burð og lifir enn góðu lífi í almennu tali, jafnvel þó nútímamenn hafi ekki séð nema eitt þeirra atriða sem þar eru talin. Það er vitanlega listinn yfir hin sjö undur veraldar (eða fornaldar).
Hvernig kom sá listi til og hvernig stendur á því að hann lifir enn?
Hellenar komu, sigruðu, sáu og skrifuðu
Þegar Alexander mikli lagði upp í herför sína, þar sem hann lagði undir sig svæði sem teygði sig allt frá Tyrklandi nútímans suður til Egyptalands og austur til Indlands, hafði hann í för með sér menningu og siði Grikkja, eða Hellena. Áhrifin voru hins vegar ekki síður á hinn veginn þar sem hellenískir ferðalangar sem fylgdu í spor Alexanders komust í kynni við marga undursamlega staði sem höfðu áður verið þeim huldir.
Nokkrir þeirra færðu upplifun sína í rit, lesendum sínum til upplýsingar, og töldu upp það markverðasta sem þeir sáu á ferðum sínum. Þeir listar sem oftast er vísað í eru frá annarri öld f.kr. og eru annars vegar eftir Fílon frá Býsans og hins vegar eftir skáldið Antipatros (lat. Antipater) frá Sídon, en einnig hafa varðveist rit frá sagnfræðingunum Heródótusi og Díodórusi , landfræðingnum Strabó og fleirum.
Raunar er ekki alls kostar rétt að þessir grísku höfundar hafi talið upp „undur“, heldur tala þeir um „staði sem áhugavert væri að sjá. Segja mætti að þeir hafi verið eins konar TripAdvisor-ar síns tíma. Munurinn liggur í að fyrst var notað orðið theamata, sem síðar umbreyttist í thaumata, sem útleggst sannarlega sem undur.
Allt er breytingum háð. Líka listinn
Nú er ráð að telja upp undrin sjö sem eru almennt talin í þessum hópi.
Það eru:
Píramídarnir við Giza. Reistir um 2.500 f.kr. og standa enn, einir af undrunum sjö.
Hengigarðarnir í Babýlon. Stölluð stórbygging með glæsilegum gróðri. Taldir hafa verið byggðir á valdatíma Nebúkadesar II um 600 f.kr. en þrátt fyrir allt finnst ekkert um garðana í varðveittum ritum frá þessum tíma og engar merki um þá hafa fundist við fornleifauppgröft.
Seifsstyttan í Ólympíu. Um 13 metra há stytta af Seifi úr fílabeini, gulli og tré; skreytt alls konar eðalsteinum smíðuð um 435 f.kr. Eyðilagðist sennilega á 5. eða 6. öld e.kr.
Artemisarhofið í Efesos. Bygging hofsins hófst um 550 f.kr. og var það sjálfur Krösus konungur sem kostaði það til að byrja með, en það þótti einstaklega glæsilegt, 115m langt og 13m hátt og einstaklega fagurlega skreytt, enda mælti fyrrnefndur Antipatros sérstaklega með því í upptalningu sinni á sínum tíma.
Mausoleusarhofið í Halikarnassos. Byggt um 350 f.kr. 45m hátt. Eyðilagðist í jarðskjálfta 1496 e.kr.
Kólossus - Risinn á Ródos. Gríðarstór 32m há bronsstytta af sólguðinum Heíos sem gnæfði yfir innsiglingunni að Ródos. Var reist árin 294-282 f.kr. en féll í jarðskjálfta tæpum 60 árum síðar. Þar lágu leifar risans í 800 ár þar til hann var hlutaður í sundur og bronsið flutt burt á 900 úlföldum og selt.
Vitinn í Faros við Alexandríu í Egyptalandi. Ptolemaíos II. af Egyptalandi lauk byggingu hans, um 280 f.kr. en hann hrundi sennilega í jarðskjálfta á 14. öld. Vitinn var ekki á lista Antipatrosar (hann taldi veggi Babýlons í staðinn) og raunar ekki talinn í hópi hinna sjö undra veraldar fyrr en á 6. öld e.kr. og nú er hann þar ennþá.
Flestir draga þessir staðir dám af uppruna listans góða, þ.e. þeir eru grískir að uppruna, en það ber einnig vitni um heimssýn Hellena. Þeirra heimur var Miðjarðarhafið og löndin sem Alexander lagði undir sig.
Glöggir lesendur hafa líka vafalaust séð að undrin sjö voru aðeins til á sama tíma (ef þau voru sannarlega öll til - sjá Hengigarðarnir) í um 60 ár, á meðan Kólossus vaktaði Ródos.Aðrir merkilegir staðir/byggingar/listaverk sem voru einnig talin í þessum hópi voru t.d. Hringleikahúsið í Róm, Musteri Salómons konungs í Jerúsalem og sumir áttu sannarlega heima á þessum lista, en Hellenar/Evrópubúar þekktu hreinlega ekki til þeirra, eins og til dæmis Kínamúrinn.
Loks má geta þess að þeir Strabó og Heródótus minnast á Völundarhúsið í Egyptalandi, sem var að sögn gríðarstórt grafhýsi, staðsett á bökkum Nílar, um sjö dagleiðum sunnan við Píramídana og er, hið minnsta, frá 1.800 f.kr. Stærð þess og íburður, ef sögurnar eru sannar, voru jafnvel stórfenglegri en píramídarnir sjálfir í Giza. Nýlegur uppgröftur bendir til þess að leifar völundarhússins hafi fundist, en ekki hefur verið ráðist í meiriháttar rannsóknir á staðnum.
Fróðlegt væri að reyna að keyra í gegn einhverskonar alþjóðlegt framtak til að ná sátt um sjö nútímaundur heimsins, en það er næsta víst að það myndi valda um það bil sjö meiriháttar stríðsátökum og við vitum öll að Boaty McBoatface myndi vinna netkosninguna.
(Heimildir: Vísindavefurinn, Britannica, Wikipedia ofl.)