Í þá tíð… Anita Hill og árdagar þolendauppreisnarinnar

Anita Hill lét í sér heyra þegar fyrrverandi yfirmaður hennar var tilnefndur til embættis hæstaréttardómara í Bandaríkjunum árið 1991. Hún sakaði hann um kynferðislega áreitni og málið vakti mikla athygli. Hann var engu að síður skipaður í embætti.

Anita Hill steig fram þegar Clarence Thomas hafði verið tilnefndur til embættis hæstaréttardómara og sakaði hann um kynferðislegt áreiti. Mál þeirra endurómar enn í dag, aldarfjórðungi seinna.
Anita Hill steig fram þegar Clarence Thomas hafði verið tilnefndur til embættis hæstaréttardómara og sakaði hann um kynferðislegt áreiti. Mál þeirra endurómar enn í dag, aldarfjórðungi seinna.
Auglýsing

Síðustu misseri hafa orðið margs konar straumhvörf þegar kemur að því að opna umræðu um kynferðisofbeldi, og kerfisbundnu kynjamisrétti í stærra samhengi. Skemmst er að minnast #metoo vitundarvakningarinnar sem hófst í kjölfar opinberunar svívirðilegrar hegðunar kvikmyndamógúlsins  Harveys Weinstein. 

Sagan geymir hins vegar fjöldann allan af hugrökkum konum sem hafa boðið feðraveldinu birginn og neitað að láta þagga niður í sér. 

Anita Hill er ein af þeim. Hún er bandarískur lögmaður sem steig fram árið 1991 eftir að Clarence Thomas hafði verið tilnefndur til embættis hæstaréttardómara.

Auglýsing

Uppgangur Clarence Thomas

Hill réði sig til starfa hjá mannréttindaskrifstofu menntamálaráðuneytisins, 25 ára gömul, sem lögfræðiráðgjafi Clarence Thomas og færði sig með honum ári seinna þegar Thomas tók við starfi formanns nefndar um jafnrétti á vinnustöðum (Equal Employment Opportunity Commission). 

Eftir að hafa starfað sem aðstoðarmaður Thomas í um það bil ár, hætti hún og sneri sér að kennslu.

Thomas kleif hins vegar metorðastigann. Hann var framarlega í flokki þeldökkra íhaldsmanna og átti vísan stuðning helstu forvígismanna Repúblikanaflokksins. Árið 1990 tilnefndi George H W Bush Bandaríkjaforseti hann til stöðu dómara við áfrýjunardómstól en ári síðar vænkaðist hagur hans enn, þegar Thurgood Marshall ákvað að stíga til hliðar sem hæstaréttardómari.

Marshall var fyrsti blökkumaðurinn til að sitja í hæstarétti, en hann átti að baki langan feril sem baráttumaður fyrir mannréttindum og var með frjálslyndari dómurum við réttinn. Þannig hefði hlutfallið milli íhaldsmanna og frjálslyndra farið enn lengra til hægri með Thomas.Málið heltók Bandaríkin á sínum tíma og var sýnt beint frá vitnaleiðslum í öldungadeild þingsins.

Viðbrögðin við tilnefningu Thomas létu ekki á sér standa þar sem hin ýmsu samtök lýstu yfir óánægju sinni. Þar voru helst mannréttindasamtök eins og NCAAP auk samtaka sem börðust fyrir réttindum blökkumanna og kvenna. Þá voru lögmannasamtök Bandaríkjanna mótfallin tilnefningunni þar eð Thomas hafði aðeins verið alríkisdómari í tvö ár fyrir þetta.

Fátt virtist þó benda til annars en að skipunin myndi svífa í gegnum öldungadeild þingsins án mikilla vandkvæða. 

Ásakanirnar koma fram

Í staðfestingarviðtalinu við dómsmálanefnd öldungadeildarinnar kom fátt eitt fram, en nefndin var hins vegar klofin í afstöðu sinni. Sjö voru fylgjandi og sjö á móti. Áður en öldungadeildin greiddi atkvæði um staðfestingu Thomas í embætti bárust hins vegar fregnir um að undirmaður hans, Anita Hill, hafi sakað hann um kynferðislega áreitni.

Við það var málinu vísað aftur til dómsmálanefndarinnar og Anita Hill, sem þarna var orðin lagaprófessor við University of Oklahoma, fékk að bera vitni um ásakanir sínar.

Vitnaleiðslurnar vöktu gríðarmikla athygli um land allt og víðar, enda var sýnt beint frá þeim í sjónvarpi. Hill bar að Thomas hafi farið á fjörur við hana, en þegar hún hafi hafnað honum hafi hann engu að síður haldið áfram að áreita hana með því að ræða endurtekið opinskátt um kynlíf, klám og eigin kyngetu og kynfæri.

Eins og búast mátti við, þvertók Thomas algerlega fyrir að hafa gert nokkuð óviðeigandi. Hann sagði að þetta væri augljóslega skipulögð herferð vinstrimanna gegn sér; þeir gætu ekki sætt sig við að þeldökkur íhaldsmaður tæki sæti í hæstarétti. Ásakanirnar voru að hans mati eins konar sirkus. „Og frá mínum sjónarhóli, sem svartur Bandaríkjamaður, er þetta hátækniaftaka fyrir uppivöðslusama svarta menn.“ („high-tech lynching for uppity blacks.“) 

Hann veittist að Hill í vitnisburði sínum. Sagðist hafa ætlað að hjálpa henni á framabrautinni, en hún hafi hvort sem er ekki verið störfum sínum vaxin.

Málið var ýmiskonar hefðbundnum vandkvæðum bundið, enda stóð þarna orð á móti orði. Hill var gagnrýnd fyrir að hafa beðið með að opinbera ásakanir sínar í áraraðir, að hafa ekki hætt að vinna fyrir Thomas eftir að hann fór að áreita hana og einnig að hafa átt í samskiptum við Thomas eftir að hún hætti hjá honum.

Varðandi það, sagðist Hill hafa á þeim tíma vonast til að áreitið hætti og því haldið áfram að vinna hjá Thomas eins lengi og raun bar vitni. Hún hafi svo fundið sig knúna til þess að stíga fram á þessum tímapunkti, í ljósi þess að Thomas stefndi hraðbyri að sæti í æðsta lagi dómsvaldsins. 

Fjórar aðrar konur, einnig fyrrverandi undirmenn Thomas, voru reiðubúnar til að bera vitni um svipaða hegðun hans í þeirra garð, en þær voru ekki kallaðar til, meðal annars vegna þess að þær hafi hætt í ósætti við Thomas á sínum tíma og hafi því ekki verið hlutlaus vitni.

Að loknum vitnaleiðslum var skipan Thomas staðfest með 52 atkvæðum gegn 48, sem var tæpasti meirihluti í staðfestingu hæstaréttardómara frá því á 19. öld. 

Eftirleikurinn og #metoo

Þrátt fyrir að Clarence Thomas hafi fengið sitt í gegn má engu að síður sega að Anita Hill hafi valdið straumhvörfum. Í kjölfar málsins varð mikil vitundarvakning í bandarísku samfélagi um kynferðislega áreitni á vinnustöðum og tilkynningum um slíkt fjölgaði mikið á árunum sem fylgdu. Þá varð mikil aukning í þátttöku kvenna í stjórnmálum og kvenþingmönnum fjölgaði. 

Málið varði einnig til þess að vekja umræður um hvort mannréttindabaráttan hafi sannarlega skilað umbótum í raun og veru.Hill neitaði alfarið að hafa áreitt Hill. Ásakanirnar væru runnar undan rifjum vinstrimanna sem vildu ekki fá þeldökkan íhaldsmann í hæstarétt. 

Clarence Thomas situr annars enn í hæstarétti, og hefur allar götur frá skipan sinni raðað sér í hóp hinna íhaldssömustu í dómnum. Hann hefur stillt sér upp gegn málum sem snúa að t.d. takmörkun byssueignar, jákvæðri mismunun og fóstureyðingum og sem stuðningsmaður hefðbundinna íhaldsmála í líkingu við réttindi ríkjanna gagnvart alríkinu og stöðu kristni umfram önnur trúarbrögð.

Hann situr enn fastur við sinn keip að ásakanir Anitu Hill hafi verið runnar undan rifjum vinstrimanna.

Nú hefur málið enn og aftur komist í hámæli í tengslum við brot Harveys Weinstein og annarra í #metoo upprisunni, sem varpar enn og aftur ljósi á hvernig karlar í valdastöðum misnota afstöðu sína til að brjóta á fólki og treysta á að skáka í skjóli áhrifa sinna.

Hill sagði í viðtali í síðustu viku að uppljóstranirnar hafi vakið upp réttmætar spurningar um hvort samfélaginu hafi sannarlega fleytt fram í jafnréttismálum, þegar þetta sé veruleikinn sem konur búa við, bæði í starfi og einkalífi. Yfirvöld og framáfólk í atvinnulífinu þurfi nú að stíga fram og segja hvað standi til að gera til að ráða bót á þessu meini.

Hún segir þó að í dag megi greina ýmis batamerki í umræðunni. Meðal annars að konur séu síður gagnrýndar fyrir að stíga of seint fram. 

Enn sé þó nokkuð verk óunnið.

„Það hefur orðið vitundarvakning, en það hefur verið misbrestur á því að menn hafi verið kallaðir til ábyrgðar … Hvernig eigum við að sjá til þess að opinberir einstaklingar séu dregnir til ábyrgðar?“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÍ þá tíð...