Þann 19. september 2013 tilkynnti samstarfskona mín mér það að Jarvis Cocker úr Pulp ætti 50 ára afmæli. Mín fyrstu viðbrögð voru að segja henni að hún gæti nú hætt að kaupa plöturnar hans, af því að þær kæmu bara til með að vera leiðinlegar.
Mín upplifun er sú að tónlistarfólk eldist illa. Tökum Michael Jackson sem dæmi. Off The Wall sem hann gaf út 21 árs er gull. Thriller sem hann gaf út 3 árum seinna er ekki síðri. Bad og Dangerous voru fínar en History ekkert spes og Invicable frekar slök.
Vissulega er þetta bara mín upplifun. En ég hef það á tilfinningunni að til sé fólk sem upplifir þetta líka. Er til dæmis til sá Metallica aðdáandi sem finnst þeir rokka feitt á St. Anger en frekar slakir á Master of Puppets? Ég efast um það.
Gamalt og miðaldra fólk kemst ekki á metsölulistana
En hvað segja gögnin? Þegar best seldu sóló plötur Bandaríkjanna á tímabilinu 1980 til 2000 er skoðaðar kemur í ljós að neytendur níunda og tíunda áratugarins vildu frekar kaupa tónlist sem flutt var af ungum tónlistarmönnum. Meðalaldur tónlistarmannanna við útgáfu var rétt rúmlega 28 ár. Meira en tveir þriðju þeirra voru undir þrítugt og eini tónlistarmaðurinn á listanum yfir fertugt var gítarsnillingurinn Santana (sem var 52 þegar hann sló aftur í gegn með plötuna Supernatural).
Mynd 1: Aldur söluhæstu sóló tónlistarmanna Bandaríkjanna, 1980 - 2000
Fólk selur minna þegar það eldist
Sú staðreynd að ungt fólk selji fleiri plötur segir okkur ekki endilega að gamalt fólk geti ekki gefið út vinsælar plötur. Kannski hafa tónlistarmennirnir á listanum gefið út næstum því eins vinsælar plötur fyrir og eftir. Og kannski er engin fylgni með velgengni þeirra og aldri.
Til að rannsaka þetta frekar tók ég saman gögn um útgáfu fjögurra einstaklinga á listanum og athugaði hvernig sölutölur þeirra þróast í gegnum tíðina. Eins og myndin að neðan sýnir þá er augljóst samband á milli aldurs listamannanna (lárétti ásinn) og hversu margar plötur þeir selja (lóðrétti ásinn). Að meðaltali minnkaði plötusala um 500 þúsund eintök fyrir hvert ár sem leið af ferli tónlistarmannanna.
Mynd 2: Þegar tónlistarmenn eldast kaupa færri plöturnar þeirra
Hvers vegna eldist tónlistarfólk illa?
Það eru augljóslega hundrað miljón mögulegar ástæður sem geta skýrt þetta. Til dæmis má það vel vera að markaðir þróist og smekkur neytenda breytist. Mögulega eiga tónlistarmenn sem mótuðust undir öðrum áhrifum einfaldlega erfitt með að aðlagast nýjum stefnum og straumum. Og ef þeir geta það þá má það líka vel vera að ungt fólk nenni ekki að hlusta á gamalt fólk og gamalt fólk vilji bara hlusta á gömlu lögin. En mér langar þó að bjóða upp á eina aðra kenningu.
Lögmál minnkandi afraksturs (e. law of diminishing returns) er hugtak sem hagfræðingar þekkja of vel. Ein leið til að útskýra þetta hugtak er með dæmi um konu með körfu og eplatré. Hún byrjar að tína stærstu og girnilegustu eplin af trénu. Þegar þeir klárast þarf hún að tína minni og aðeins lélegri epli. Þeim mun meiri tíma sem hún eyðir í að tína af trénu þeim mun verri verða eplin sem hún tínir (og þeim mun minna fær hún borgað fyrir þau og þeim mun minna afrakstrar hún).
Mín kenning gengur út á það að tónlistarmenn séu ekki svo ólíkir konunni í dæminu að ofan. Sköpunargáfa er þeirra auðlind og ég held, að eins og svo margar auðlindir, sé hún af skornum skammti. Tónlistarmenn byrja þess vegna feril sinn á því að semja og gefa út sín bestu lög. Þegar fram líða stundir ganga þeir á sköpunargáfuna og þurfa að gefa þess vegna út verri lög þegar líða fer á ferilinn þeirra.
Gögnin styðja við þessa kenningu, plötur tónlistarmanna verða óvinsælli með aldrinum. En að sjálfsögðu gætu minnkandi afrakstur aðeins útskýrt hluta af þessu sambandi. Og hver veit, kannski skýrir þetta hugtak ekkert af þessu sambandi. Kannski verða tónlistarmenn bara latir og nenna ekki að eyða eins miklum tíma í verkin sín. Og kannski verðum við bara löt og hættum að nenna að hlusta á ný lög.