Donald Trump Bandaríkjaforseti var staddur á fundi Asíu- og Kyrrahafsríkja í Víetnam á dögunum þar sem hann býsnaðist meðal annars yfir því hve Bandaríkin fara halloka í alþjóðaviðskiptakerfinu (já í alvöru). Allir vita að saga Bandaríkjanna og Víetnam fléttast saman í hildarleik stríðsins sem Bandaríkin háðu við Norður-Víetnam á árunum 1965 til 1975. Frá sjónarhóli Bandaríkjanna, og okkur hinna Vesturlandabúanna sem speglum okkur í þeirra menningu, markaði Víetnamsstríðið kaflaskil enda komu þúsundir ungra manna heim úr herþjónustu – þeir sem voru svo heppnir að koma heim yfir höfuð – skemmdir á líkama og sál.
Gráglettin staðreynd er að Trump sjálfur kom sér undan herþjónustu í Víetnam vegna beinnibbu í fæti, sem lagaðast svo til allrar hamingju skömmu síðar. Löngu seinna sagði Trump í gríni að hans „persónulega Víetnam“ hafi falist í því að stunda skemmtanalífið í New York á níunda áratugnum þar sem allt grasseraði í kynsjúkdómum.
En að því gamni slepptu, var Víetnamstríðið andstyggilegur hildarleikur. Einn skelfilegasti atburður stríðsins átti sér stað í mars árið 1968 þegar bandarískir hermenn stráfelldu óvopnaða borgara í hundraðatali í þorpinu My Lai. Í fyrstu var reynt að hylma yfir ódæðið, en eftir að það komst í hámæli árið eftir, kastaði það rýrð á herinn og stríðsreksturinn í heild sinni.
Enn einn vígvöllur Kalda stríðsins
Víetnam nútímans var lengi nýlenda Frakklands, kallað Franska Indókína. Í seinni heimsstyrjöldinni réðist Japan inn í landið og kommúnistaleiðtoginn Ho Chi Minh setti á laggirnar skæruliðasveitir til að berjast gegn Japönum, sem og franska nýlenduhernum. Eftir að Japanir yfirgáfu landið tóku Ho og hans menn völdin í norðurhluta landsins.
Á árunum eftir stríð rann upp sá veruleiki að heiminum var að miklu leyti skipt annars vegar í áhrifasvæði Bandaríkjanna og hins vegar Sovétríkjanna. Bandaríkjamenn unnu þá eftir Dominokenningunni svokölluðu, sem fól í sér að hvergi mætti láta kommúnista og útþenslu þeirra óáreitta. Annars væri boðið heim hættunni á að fleiri ríki fylgdu í kjölfarið og yrðu kommúnisma að bráð.
Bandaríkjamenn hófu því afskipti af málefnum Víetnam strax á sjötta áratugnum þar sem þeir studdu stjórnvöld í suðurhluta landsins með ráðum og dáð í þeirri viðleitni að sameina landið og reka kommúnista á brott.
Eins og oft vill vera, fóru átökin síst dvínandi með afskiptum utanaðkomandi velda og árið 1965 fékk Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti því framgengt að bandarískt herlið var flutt til Saigon til að aðstoða stjórn Ngo Dinh Diem við að berja á andspyrnuhreyfingu Viet Cong í Suður-Víetnam.
Skemmst frá að segja varð Bandaríkjamönnum lítt ágengt þrátt fyrir ofureflið og linnulausar sprengju- og eiturefnaárásir á Viet Cong og Norður-Víetnam, sem naut stuðnings hugmyndabræðra sinna í Kína og Sovétríkjunum.
Sagan heima við var þó á þá leið að Norðanmenn væru teknir að lýjast og brátt hyllti undir sigur. Það var þess vegna mikið áfall þegar hersveitir Hos gerðu stórsókn í janúar 1968, sem síðar var kölluð Tet-sóknin. Tugir þúsunda hermanna réðust suður í leiftursókn og náðu að valda miklum usla þó að þeir hafi ekki náð að halda landsvæðinu.
Þegar grimmdin tekur öll völd
Það er í þessu samhengi sem viðfangsefni þessarar greinar gerist.
Charlie Company, hópur ungra hermanna, hafði komið til Víetnams í árslok 1967 og þó að þeir hefðu ekki lent í beinum átökum þegar komið var fram í mars 1968 höfðu þeir misst 40 manns og þar af voru 28 látnir, vegna jarðsprengja og annars konar gildra sem Viet Cong hafði komið fyrir.
Mikill kurr var í hópnum sem nú taldi rúmlega 100 menn og marga þyrsti í að ná fram hefndum fyrir fallna félaga sína.
Um það leyti bárust Bandaríkjamönnum njósnir af því að hópur óvina sem hafði tekið þátt í Tet-sókninni væri nú staðsettur í nágrenni við tvö lítil þorp sem heimamenn kölluðu saman Son My, en Bandaríkjamenn kölluðu My Lai og My Khe. Charlie Company, sem var undir stjórn Ernests Medina höfuðsmanns, var send á svæðið. Dagskipunin var að uppræta alla óvini sem gætu falist á svæðinu og alla stuðningsmenn þeirra. Kenningin var sú að um kl. 7 ættu allir almennir bæjarbúar að vera farnir á markaðinn og því væru allir í þorpinu skæruliðar eða stuðningsmenn; skotmörk.
Við sólarupprás hinn 16. mars árið 1968 lentu þyrlur í útjaðri þorpanna og Charlie Company, sótti í þremur hópum (platoon) að áfangastað. Tveir hópanna fóru inn í þorpið um klukkan 8 en á leiðinni hófu þeir umsvifalaust að skjóta og drepa alla þá sem þeir sáu á hrísgrjónaökrunum og skóginum í kring.
Samkvæmt frásögn vitna, aðallega viðstaddra hermanna, var ástandið fyrst yfirvegað, eins langt og það nær, en spennuþrungið. Þorpsbúum var safnað saman í hóp í miðju þorpsins en þá allt í einu brast stíflan.
Einn hermannanna stökk til og stakk einn fanganna með byssusting sínum og í kjölfarið hófust drápin. Annar flokksforingjanna, William Calley, skipaði þá sínum mönnum að hefja skothríð. Margir voru tregir til, en fyrr en varði var gegndarlaust dráp hafið.
Menn, konur, börn; enginn var óhultur.
Hermenn brenndu kofa og myrtu alla þá sem komu hlaupandi út. Calley og hans menn söfnuðu saman á milli 70 og 80 þorpsbúum og ráku ofan í skurð. Calley byrjaði að skjóta á hópinn og öskraði á undirmenn sína að gera það sama, sem og þeir og gerðu. Kúlunum rigndi yfir hópinn án afláts og einn hermannanna sagðist hafa notað fjölmörg magasín í M-16 byssu sína.
Á sama tíma fóru hermenn um allt og eirðu engu. Konum og stúlkum var nauðgað, búpeningur drepinn, matargeymslur brenndar og eitri hellt í drykkjarbrunna.
Einn hermannanna bar síðar að Calley hafi til dæmis, eftir að um hægðist við skurðinn þar sem líkin lágu í hrúgum, hafi skotið og drepið börnin sem höfðu sloppið úr fyrstu skothríðinni og reyndu nú að flýja.
Þriðji flokkurinn hafði beðið átekta utan við þorpið ásamt Medina höfuðsmanni. Þeir komu síðar á staðinn og tóku margir þátt í grimmdinni, jafnvel Medina sjálfur sem sást misþyrma konu og svo skjóta hana til bana.
Einn hermannanna sem kom að síðar, Michael Bernhardt að nafni, lýsti aðkomunni sem svo að vopnabræður hans hafi verið að gera einkennilega hluti. Þeir hafi meðal annars safnað fólki saman í hópa og hent í þau handsprengjum. „Þeir skutu líka konur og börn. Það var engin mótstaða og ég sá bara þrjú vopn sem fundust og enginn okkar særðist. Þetta var bara venjulegt víetnamskt þorp. Gamlir „papa-san“, konur og börn. Ég man satt að segja ekki eftir að hafa séð karlmann þarna á hernaðaraldri. Hvorki lífs né liðinn.“
Á meðan þetta stóð sem hæst lenti þyrlusveit við fyrrnefndan skurð og bauð flugmaðurinn Hugh Thompson Jr. fram aðstoð sína og sinna manna við að koma særðum undir læknishendur. Hann fékk þau svör að eina hjálpin sem fólkið ætti von á væri að þeir ætluðu að binda enda á þjáningar þeirra. Hann spurði Calley hvað væri þarna í gangi, enda voru lík á víð og dreif um allt þorpið. Calley sagðist einfaldlega vera að hlýða skipunum.
Thompson tók þar til sinna ráða og steig meðal annars inn á milli hermanna og þorpsbúa sem höfðu falið sig inni í kofa einum. Skipaði hann undirmönnum sínum að skjóta á hermenn ef þeir myndu gera árás á kofann á meðan hann væri þar inni. Alls björguðu Thompson og félagar hátt í tuttugu þorpsbúum sem þeir fluttu burt í tveimur þyrluferðum.
Þegar þyrlusveitin kom aftur á herstöðina tilkynnti Thompson um það sem hann hafði séð og um kl. 11 hafði yfirstjórn samband við Medina og fyrirskipaði að aðgerðinni yrði hætt.
Þegar yfir lauk lágu sennilega rúmlega fimmhundruð óbreyttir og óvopnaðir borgarar My Lai í valnum, þar á meðal 182 konur, 17 með barni, og 173 börn, þar af 56 hvítvoðungar. Ekki einu einasta skoti hafði verið hleypt af gegn Bandaríkjamönnunum og aðeins þrjár byssur fundust í þorpinu.
Tilraun til hvítþvottar
Sögur um það sem gekk á í My Lai þennan örlagaríka dag bárust til yfirstjórnar herliðsins í Víetnam og var skipuð rannsóknarnefnd til að ganga úr skugga um hvort eitthvað hafi gerst þar sem bryti gegn reglum hersins.
Skemmst frá að segja var ekkert óeðlilegt eða ólöglegt talið hafa átt sér stað þarna. Þvert á móti sögðu fréttir, meðal annars í Stars and Stripes, málgagni bandaríska hersins, frá hörðum bardögum þar sem 128 skæruliðar hafi verið drepnir og um 20 almennir borgarar hafi fallið. Aðgerðin hafi verið vel heppnuð.
Engin stemmning var meðal yfirmanna hersins að gera mál úr þessu, enda stóð stríðsreksturinn ekki vel, eins og áður sagði.
Það var svo ungur hermaður, Ronald L. Ridenhour, sem tók það upp hjá sjálfum sér að hvetja til þess að málið yrði rannsakað. Ridenhour var í Víetnam á þessum tíma en tók ekki þátt í aðgerðinni, heldur frétti af My Lai utan af sér. Þegar heim kom skrifaði hann bréf til fjölmargra þingmanna með nöfnum sjónarvotta sem voru tilbúnir að bera vitni og bað þá um að skoða málið frekar.
Ekkert varð af því, en um það leyti var blaðamaður að nafni Seymor Hersh líka að púsla saman upplýsingum um málið. Sá komst í samband við marga af piltunum sem höfði tekið þátt í fjöldamorðunum og voru komnir heim. Grein sem hann skrifaði og birtist í nóvember árið 1969, hálfu öðru árið varpaði ljósi á það sem gerðist í My Lai og þá varð ekki aftur snúið.
Önnur rannsókn var sett af stað og var í niðurstöðum hennar lagt til að 28 hermenn yrðu sóttir til saka fyrir fjöldamorðin. Svo fór þó að aðeins fjórtán menn voru ákærðir og af þeim var einungis einn einasti maður sakfelldur, en það var William Calley liðsforingi, sem gekk manna harðast fram í morðum og barði undirmenn sína áfram. Hann hélt því þó statt og stöðugt fram að hann hafi aðeins verið að fylgja skipunum og sannast sagna – þó ekkert afsaki morð og illvirki af þeirri sort sem um ræðir – hafði Medina höfuðsmaður gefið giska opnar og óljósar skipanir fyrir aðgerðina. Hann hafði sagt Calley og öðrum foringjum að líta á alla í þorpinu sem óvini, hvort sem þeir flýðu, feldu sig, karla eða konur. Skjóta ætti á allt sem „gengur, skríður eða vex.“
Hvað varð svo til þess að mennirnir hlýddu þessum skipunum og gengu einnig ennþá lengra, en þarna hefur innræting verið ansi djúpstæð, sem og einskær hræðsla að ógleymdri hefndinni, því að sumir þeirra sem tóku þátt í morðunum litu á þetta sem hefnd fyrir fallna félaga.
Calley var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir 109 morð, en fyrir einhverjar pólitískar sakir ákvað Richard Nixon forseti að breyta dómi hans í stofufangelsi og á næstu árum var dómur hans styttur og loks var honum sleppt á skilorði árið 1974, eftir aðeins rúm þrjú ár í haldi.
Þetta var allt réttlætið sem Bandaríkin deildu út fyrir þær 504 sálir sem létu lífið í My Lai.
Hetjur dagsins, Thompson og undirmenn hans tveir í þyrlusveitinni, voru hins vegar sæmdir heiðursmerkjum fyrir að skerast í leikinn á ögurstundu.
Thompson lýsti því síðar að hann hafi verið útskúfaður úr hópi hermanna fyrir að hafa tilkynnt um fjöldamorðin og borið vitni um það sem gekk þar á. Bárust honum meðal annars líflátshótanir.
Þeir þrír hlutu svo enn frekari viðurkenningu árið 1998 þegar þeir voru sæmdir æðstu orðu sem herinn gefur fyrir afrek sem fela ekki í sér bardaga við óvini á vígvelli, fyrir að vernda líf almennra borgara.
Uppljóstranirnar urðu til þess að veikja enn frekar baráttuanda hermanna og kyntu rækilega undir andstöðunni við stríðið heima við. Þannig fór svo að Bandaríkin hófu brottflutning hermanna árið 1973 og stríðinu lauk með því að Saigon féll í apríl 1975 og Viet Cong og herlið Ho Chi Min náðu undir sig öllu Víetnam.
Harmurinn lifir hins vegar enn meðal eftirlifenda og afkomenda illvirkja Charlie Company, en sannleikurinn er sá að My Lai fjöldamorðin voru ekki einangraður atburður heldur áttu álíka glæpir sér stað víðar á sama tíma þó það hafi ekki verið eins mörg fórnarlömb.