5. Um kurteisi
„„Aldrei hefur nokkur maður í nokkurru landi haft nokkurt gagn af nokkurri danskri bók," mun Þorleifur Repp hafa sagt, en hann mun hafa verið mestur Danahatari hérlendur á sínum tíma. Hann var sérsinna og þetta er ekki rifjað upp hér til að taka undir þessi orð heldur til að minna á hitt: Danir og Íslendingar eiga sameiginlegar minningar sem ná langt aftur og samband þjóðanna var ekki á jafnréttisgrundvelli. Herraþjóð sem oft var velmeinandi að reyna að hjálpa þessu guðsvolaða fólki þar sem allar framfaratilraunir fuku á haf út eða voru nagaðar upp til agna af kindum – og fátækt fólk sem vildi standa á eigin fótum og finna sínar leiðir við að lifa af í harðbýlu landi; og tókst það um síðir. Sumt er viðkvæmt í þessum minningum – á báða bóga – og þarf oft lítið til að ýfa upp sárindi, eins og ég skynjaði stundum í gamla daga þegar ég vann sem „rengøringsassistent“ á dönsku elliheimili og sumt gamla fólkið vildi gera upp sakir við mig vegna sambandsslitanna 1944. Ég brosti bara afsakandi og svo gáfu þau mér bolsíu og ég hélt áfram að skúra.
En það skiptir máli hvernig við högum samskiptum þessara gömlu sambandsþjóða. Undir brosum og blíðu bragði búa heitar tilfinningar. Íslensk vanmetakennd beinist jafnan að Dönum og stundum er eins og sumir Danir hafi litið á Ísland sem sjálft krúnudjásnið sem þeir misstu; barnið sem fór að heiman án þess að kveðja. Maður blygðaðist sín þegar útrásargosar fóru að kaupa upp allt á Strikinu - út á krít - og kenna Dönum hvernig þeir ættu að búa til pitsur og gefa út dagblöð – með fyrirsjáanlegum konunglegum gjaldþrotum. Og manni sárnaði þegar danskt afgreiðslufólk klippti íslensk greiðslukort í Hruninu.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
4. Nýtt hrun á teikniborðinu
„Það er deginum ljósara að í ormagryfju auðjöfranna er verið að undirbúa næstu ránsherferð á hendur almenningi á Íslandi. Tækifærið til að tappa vel af lífeyrissjóðum, bönkum og eignum almennings nálgast óðum. Allt klárt í næstu bylgju gjaldþrota, atvinnumissis, eymdar og örvilnunar. Með gjöf ríkisins á Arion banka til einhverra aðila, sem enginn stjórnmálamaður vill vita hvort heitir Ólafur eða Björgólfur, pétur eða páll, er verið að þungvopna ræningjana. Veislan er fyrir suma, aðrir borga.
Fyrirtæki í byggingariðnaði sem eru flest rekin með svörtu vinnuafli á launum undir lágmarkstöxtum, raka til sín lánsfé úr bönkunum, skuldir hrannast upp, eigendur og vildarvinir kaupa ódýran gjaldeyri sem komið er úr landi sem skjótast, og svo telja auðjöfrarnir niður að núllinu. Núllinu þegar gengið hrynur, bankarnir tómir, fyrirtækin skilin eftir allslaus og yfirskuldsett. Einhvern veginn kannast maður við aðferðirnar. Látið er líta út fyrir að allt sé í blóma. Þegar í raun er enginn jarðvegur eftir og frostkuldinn sleikir nakta jörð.
Framlegðin í íslensku atvinnulífi er ekki mikil. Peningar hlaðast aftur á móti upp í bönkum og fjármálafyrirtækjum til notkunar fyrir þá sem hafa skammtað sér forréttindi á kostnað almennings. Allur þessi bankaauður er í raun geldfé. Brask banka og fjármálafyrirtækja með eignir , lönd og lífeyrissjóði er án alls eftirlits og aðeins örfáir útvaldir hafa þar aðkomu. Gömlu útgerðarfurstarnir eru bara smáseiði miðað við hina nýju stétt auðjöfra sem síðasta hrun ól af sér.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
3. Grætur húsið þitt?
„Við venjulegt heimilishald fjögurra manna fjölskyldu getur rakainnihald og vatnsmagn í lofti aukist um að minnsta kosti 40 lítra á viku. Heitt loft getur haldið þessum raka í meira magni en kalt loft. Þessi raki í loftinu getur síðan orðið að vatni við það að komast í snertingu við kaldan flöt. Hver þekkir ekki að glerflaska sem er tekin út úr ísskáp ,,grætur“ á yfirborði þegar við tökum hana út og þá sérstaklega ef heitt og rakt er í kringum okkur. Gott dæmi er kaldur svaladrykkur erlendis.
Það sama gerist á veggjum, við glugga og rúður í húsunum okkar. Á veturna þegar það er kalt úti þá kólna veggfletir og rúður og rakinn sem er í heitu röku lofti hjá okkur innandyra nær þá að dagga, eða falla út á þessum flötum, líkt og á svaladrykknum. Í einhverjum tilfellum má hreinlega sjá vatn við glugga og oft telur húseigandi að gluggarnir hljóti að leka. En þegar betur er að gáð þá má merkja muninn á því að þessi raki kemur ekki eingöngu við slagveður eða í úrkomu, heldur einmitt á köldum vetrardögum.
Í okkar veðráttu er ansi freistandi að híma innandyra með lokaða glugga og njóta hlýjunnar. Húsin okkar eru ekki endilega á sama máli.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
2. Skipulag leikskóla og grunnskóla – Tímaskekkja, jafnaðar- og velferðarskekkja
„En viti menn. Þá er þróuninni snúið við, meðal annars með skekkju milli ábyrgðarkvaðar, álags, launa, mönnunar og aðbúnaðar faghópa uppeldisstétta. Fjölgun í stétt leiks-og grunnkólakennara svarar ekki þörfinni, meðal annars vegna þess að launin svara ekki kröfum um ábyrgð, sérfræðiþekkingu og álag í starfi. Kennarar hafa ekki rými eða bolmagn til að mæta væntingum um uppeldisrækt. Stoðkerfi er veikt. Skortur á auknu fagafli, m.a. skólahjúkrunarfræðinga og skólafélagsráðgjafa til stuðnings kennurum á öllum skólastigum stingur í augu. Ofurálag og vanmáttur sem rekja má til umgjarðar starfsins kemur fram í starfsþreytu og atgervisflótta úr starfi. Gagnrýni beinist óverðskuldað að kennurum. Þá er verið að hengja bakara fyrir smið því smíð og skipulag skólaumhverfisins er á ábyrgð opinberrar stefnu og framkvæmdaáætlunar en ekki einstakra kennara sem líða fyrir brestina.
Þær aðstæður leik- og grunnskóla sem ógna fjölskyldum, hjónaböndum, og síðast en ekki síst ungum skólabörnum vor, sumar og haust, eru óásættanlegar árið 2018. Foreldrar glíma við vanda og eiga oft í átökum sín á milli um skiptingu tímans til að geta brúað bil vinnu og barnauppeldis. Ömmur og afar eru oft í hlutastarfi við að sinna barnabörnum auk annarra starfa og verkefna sem þau sinna í samfélagi nútímans. Þær fjölskyldur sem ekki eiga traust bakland í foreldrum eða frændgarði eru á köldum klaka. Það eru oft einmitt láglaunafjölskyldur sem ekki geta ráðstafað vinnutíma sínum með sveigjanleika. Möguleikar þeirra eru takmarkaðir. Það eru þeirra börn sem þá líða fyrir reiðileysi og eru á vergangi þessa dagana. Stundum eru það einmitt þau sem eiga við kvíða og öryggisleysi að stríða fyrir og eru þá enn verr í stakk búin fyrir skólastarfið og þátttöku í félaga-og tómstundastarfi. Þessar aðstæður stinga í stúf við hugmyndir velferðarsamfélagsins. Þær eru líklegar til að auka ójöfnuð jafnt barna sem fullorðinna og breikka gjá félagslegrar mismunar og siðferðislegra mannréttinda eftir stétt og afkomu. Gæfa slíks samfélags sem heildar verður í skötulíki.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
1. Karlar sem hringja í konur
„Eftir meltun vil ég segja eftirfarandi: Að biðjast afsökunar en reyna samtímis að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað er ekki afsökunarbeiðni. Að líkja mér við dýr og uppnefna mig (og vegg) Freyju Eyju í kjölfar aðgengisbreytinga er augljóslega eins fötlunartengt og það getur orðið. Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að pólitískar skoðanir mínar, sem byggja á feminískum gildum, hugmyndafræði mannréttinda og upprætingu ableisma, fara í taugarnar á sumum körlum, ER fötlunarfyrirlitning og kvenfyrirlitning. Það er líka hlutgerving. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur. Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna. Ég vildi óska þess að ég hefði getað sagt allt ofangreint við umræddan mann en ég get varla lýst vanmætti mínum og vanlíðan meðan á símtalinu stóð.
Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér.“