Þjóðleikhúsið: Súper
Höfundur: Jón Gnarr
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Leikmynd: Grétar Reynisson
Búningar: Fillippía I. Elísdóttir
Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson
Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson
Leikendur: Arnmundur Ernst Backman, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Jón Gnarr, Edda Björgvinsdóttir, Eggert Þorleifsson.
Rétt eins og Shakespeare mun hafa sagt að öll veröldin væri leiksvið gæti Jón Gnarr hugsanlega staðhæft að allt Ísland sé kjörbúð. Súper heitir ekki aðeins í höfuðið á nýrri kjörbúð á höfuðborgarsvæðinu, verkið gerist í kjörbúð, sem í mynd Grétars Reynissonar er einna líkast fangelsi sem ekki verður úr komist fyrr en fundist hefur maður sjálfur, vitund manns, tilgangur lífsins og ekki síður allt það annað sem vantar til að fullkomna þetta jarðlíf – hvort sem þar um ræðir mánaðarskammtinn til heimilisins eins og sveitahjúin Bjössi og Gugga koma til að sækja eða pulsurnar í kósíkvöld barnanna með ömmunni eins og einstæða móðirin Elín. Nú eða þá bara drátt af því að kynhvötin reynist vera óseðjandi og það verður að taka á því. Enda eru einkunnarorð Súper: “þar sem kjöt snýst um fólk” – og mannlegra getur það varla orðið. Eða?
Upphaf verksins er undir sterkum áhrifum frá einum af meisturum absúrdismans, Ionesco og verki hans, Sköllóttu söngkonunni; persónur leiksins rjúfa fjórða vegginn milli sviðs og salar, tala við áhorfendur og gera grein fyrir sjálfum sér, hverjar þær eru, hvað þær vilja og við hverju þær búast af lífinu. Eins og vænta má af jafn satírískum höfundi og Jón Gnarr er sjálfsmynd hvers einasta karakters í tómu tjóni, en járnabindingin er hin sama hjá öllum og tengir persónurnar: þær leggja ofuráherslu á að þær eru íslenskar og trúa og treysta á allt það sem íslenskt er. Þetta er ósvikin háðsádeila á hin íslensku, íhaldssömu og borgaralegu gildi, þau hin sömu og ráku okkur til sjálfstæðis á veikum grunni verslunarfrelsis án þess að litið væri til hinna andlegu gilda og æðri verðmæta – sem gætu hugsanlega veitt svör við því hvað það er sem raunverulega tengir okkur saman sem þjóð.
Þarna er Jón Gnarr á heimavelli, hann sýnir í höfundarverki sínu að hann er absúrdisti – og satíríker! – fram í fingurgóma. Textinn er hittinn og hnyttinn og vekur oftar en ekki hlátur sem á endanum stendur í manni af því verandi Íslendingur verður manni fátt um svör – enda nú eru upp runnir tímar glóbalisma, gömul og íhaldsöm gildi eiga alls ekki lengur við, tíminn löngu hlaupinn framúr okkur hvað það varðar: slagorðið gamla, sem markaði upphaf lýðræðis: frelsi, jafnréttir og bræðralag hefur öðlast nýja merkingu þar sem einstaklingurinn einn og sjálfur en ekki samfélagsveran sem hluti af þjóð fær það verkefni að aðlaga sig að nýjum veruleika og nýjan veruleika að sér. Þessi dýnamík er kannski torskilin en Jón Gnarr er á heimavelli, hann hefur fattað djókið og gerir sér óspart mat úr því. Og séð frá hans sjónarhóli verður það eitthvað svo út í hött, svo ámátlegt að deila um það hver munurinn sé á pólskum pylsum og íslenskum. Hvað gerir pylsu pólska? Hvað gerir hana íslenska? Hvað gerir mann að karli eða konu? Er það í lagi – eða ekki – að kona sækist eftir óheftu kynlífi á hennar eigin forsendum. Jón Gnarr er ekki einasta á heimavelli, hann er í essinu sínu og leikur af öryggi á fyrirbæri eins og þjóðartilfinningu, samhug þjóðar, þjóðarsál og skilning þjóðar á sjálfri sér.
Jón Gnarr er að kalla þjóðina til samtals og íhugunar og hann gerir það bara býsna vel. Það er fátt sem vekur ekki til umhugsunar hér og átakaflöturinn er fjölbreytilegur og margslunginn og texti sýningarinnar situr í manni löngu eftir að sýningu lýkur. Kannski – vonandi! – er hér á ferðinni verk sem má kalla lykil að ástandinu í Lýðveldinu Íslandi og sem slíkt lykilverk á það erindi við unga sem aldna sem mega svo vel velta því fyrir sér hvort við höfum gengið til góðs hingað til og hvert við ætlum að ganga til framtíðar og í hvaða takti. Það er ekki á hverjum degi sem færi gefst á að gera það þar sem hárbeittur húmor og vel grundaður skilningur fer saman og gefur tóninn.
Leikstjóri og leikhópur nálgast viðfangsefnið á ákaflega realískan máta en um leið stílíseraðan. Realískan í þeim skilningi að hvert andartak á sér rætur í raunveruleika sem við þekkjum og hvað það varðar vottar hvergi fyrir málamiðlunum – hér á sér stað miskunnarlaus krufning á samfélagsástandi og hún er ýkt, gerð skýrari með því að fært er í stílinn, endurtekið, talað hraðar, meira að segja æðibunulega og öllum brögðum hins óvænta húmors beitt þannig að jafnvel það sem virðist í fyrstu vera aulahúmor og við hlæjum að og teljum okkur þekkja snýst við og hláturinn stendur í okkur af því aulahúmorinn hittir okkur fyrir þar sem verst svíður.
Leikstjórinn Benedikt Erlingsson er ekki síður á heimavelli staddur þegar um ádeilu af þessu tagi er að ræða, enda hafa þeir Jón Gnarr iðulega unnið saman á liðnum árum og þarf ekki að fjölyrða um það. Leikstjórnarlega og reyndar leiklega líka er sýningin í óaðfinnanlegu samræmi við hugmynd og handrit.
Leikararnir, allir með tölu, ná að samsama sig svo fullkomlega karakterum sínum að það er eins og verkið sé skrifað ofan í þá og skýrir og stílhreinir búningar Fillippíu I. Elísdóttur leyfir hverjum og einum að blómstra á sínum eigin forsendum. Hvað sem líður stílíseringu koma persónur Súper fyrir sem ekta af holdi og blóði, þær gætu verið kunningjar manns eða vinir, þær gætu verið nágranninn. Hver og ein þeirra gæti verið við sjálf!
Þessi gagnrýni birtist á síðustu stundu. Þjóðleikhúsið hefur auglýst síðustu sýningu og við því verður ekki brugðist nema fara þess á leit að leikhúsið endurskoði þá afstöðu – þetta er sýning, sem fleiri eiga eftir að sjá – sem þjóðin þarf að sjá!