Líka saga um okkur …

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fór að sjá Kæru Jelenu eftir Ljúdmílu Razúmovskaja í Borgarleikhúsinu.

Kæra Jelena Mynd: Grímur Bjarnason
Auglýsing

Borgarleikhúsið: Kæra Jelena

Höfundur: Ljúdmíla Razúmovskaja

Þýðing: Ingibjörg Haraldsdóttir/Kristín Eiríksdóttir

Leikstjórn: Unnur Ösp Stefánsdóttir

Leikmynd og búningar Filippía I. Elísdóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Tónlist: Valgeir Sigurðsson

Hljóð: Þórður Gunnar Þorvaldsson

Leikgervi: Elín Gísladóttir

Leikarar: Halldóra Geirharðsdóttir, Aron Már Ólafsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Sigurður Þór Óskarsson.

Menntaskólakennarinn Jelena undirbýr kósíkvöld, gengur hógværlega, snyrtilega og skipulega frá öllu, hitar sér te, setur plötu á fóninn og sest niður með bók. Kyrrðin ríkir, Jelena á afmæli, en það vitum við ekki – ekki enn. Allt í einu er kyrrðin rofin, dyrabjalla hringir og fjögur vingjarnleg ungmenni birtast allsendis óvænt, færa afmælisbarninu gjöf, syngja afmælissönginn og fagna sinni kæru kennslukonu. Þau eru að útskrifast og vilja gleðja bestu kennslukonuna sína áður en leiðir skilja og þau halda út í lífið.

Fljótlega kemur þó í ljós að sitthvað fleira býr undir hjá krökkunum. Þeim hefur gengið illa á stærðfræðiprófi og það mun hafa áhrif á framtíð þeirra og frama. Lausn á þeim vanda er þó í sjónmáli: ef kæra Jelena lánar þeim lykilinn að skápnum þar sem prófúrlausnir eru geymdar svo þau komist þar inn og geti skipt út röngum svörum fyrir rétt – sem þau eru þegar búin að afla sér – þá er málið dautt og enginn verður fyrir neinum skaða.

Jelena neitar. Hún er prinsípmanneskja. Svona lagað gerir maður ekki. Og hún verður eðlilega algerlega bit á nemendum sínum, að þeim skuli detta annað eins í hug, fyrir nú utan það að þau skuli trúa því upp á hana að taka þátt í svona svindli.

Auglýsing

En hvað sem Jelena heldur að nemendur hennar trúi upp á hana, þá er engum vafa undirorpið að þeir eru til ýmislegs vísir sem hún hefði aldrei trúað upp á þá. Þau Valdi, Lilja, Pétur og Viktor hefja líkt og forlagaknúinn leik sem gengur út á það eitt að brjóta andspyrnu Jelenu niður og fá hana til að afhenda lykilinn; Jelena sjálf er harðákveðin í að standast árásir ungmennana enda eru hennar prinsíp göfug og góð og skulu ekki brotin. Hennar prinsíp eru jafnrétti og heiðarleiki – sem gerir hana svo algerlega gamaldags að hún reynist auðveldur skotspónn fyrir þá kynslóð sem hræðist ekkert og verður einna skýrast í uppgjöri milli Jelenu og Lilju þar sem Jelena spyr hreint út: “Af hverju eruð þið ekki hrædd við neitt?” og svar Lilju er jafn harmrænt og það er grátbroslegt: „Ég veit það ekki!“ Í því atriði flettir svo Lilja ofan af Jelenu og það er í samræmi við það sem á eftir fer, þegar kemur að hápunkti sýningarinnar – en hér verður ekki uppljóstrað hvernig fer að leikslokum enda óhætt að segja að Kæra Jelena er að sumu leyti verk um siðferði, en að öðru leyti vissulega spennusaga sem heldur áhorfanda í helgreipum allt til loka.

Kæra Jelena Mynd: Grímur Bjarnason

Jelena er í öruggum og þrautþjálfuðum höndum Halldóru Geirharðsdóttur sem túlkar menntaskólakennslukonuna trúverðuglega. Í meðförum hennar verður Jelena enginn engill, þvert á móti – þegar Valdi, aðalhvatinn að árásinni á Jelenu, býður henni sjúkraheimilisvist fyrir aldraða og veika móður hennar verður ekki betur séð en Jelena sé hreinlega til í að ræða málin á þeim grundvelli. Prinsípmanneskjan gefur í skyn að samningur sé í boði. Þróun atburða verður þó til þess að þetta tilboð er ekki frekar rætt, en óneitanlega hefur nokkur skuggi fallið á Jelenu – sem gerir hana bæði mannlegri og skiljanlegri. Halldóra Geirharðsdóttir vinnur fullkominn leiksigur í hlutverki hinnar siðmenntuðu kennslukonu Jelenu.

Nemendurnir eru ekki síður vel leiknir af fjórum leikurum af yngri kynslóðinni, sem hafa sannað sig á síðustu árum: Aron Már Ólafsson leikur Valda, sem á frumkvæðið að því að falast eftir lyklinum dýrmæta, hann er siðblindan uppmáluð og skilar því með virktum og er einmitt svona ofurgeðfelldur, óhugnanlegur náungi sem maður vill hreint ekki hafa að óvini og jafnvel enn síður að vini.

Hlutverk Lilju er í höndum Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur og hún skilar Lilju á áhrifamikinn hátt. Það er enginn vandi að finna til samúðar með þessari stúlku sem hefur barist áfram þrátt fyrir að búa við verri kjör en félagar hennar, búandi með einstæðri móður sinni, borin áfram af draumum sem má efast um að verði nokkurn tímann að veruleika – og kannski einmitt þess vegna lætur hún leiða sig svo langt í þeim hættulega og viðurstyggilega leik sem Valdi leikstýrir.

Haraldur Ari Stefánsson leikur Pétur, þann sem er í mestri þörf fyrir leiðréttingu á einkunnum og það er fyrir hann sem öll atburðarásin er sett af stað. Hann er auk þess kærasti Lilju og um það má segja að hann bregst henni verst. Haraldur Ari fer vel með hlutverkið og tekur vel utanum umkomuleysi þessa ístöðulitla drengs .

Viktor er lúserinn í þessum hóp og er undursamlega fallega leikinn af Sigurði Þór Óskarssyni. Þessi drengur er ljúfur og blíðlyndur inn við beinið, en átakanlega aumkunarverður. Hann er heltekinn af alkóhólisma og svo veiklundaður og örgeðja að hann á sér enga framtíð nema hann taki sig taki. Samt er alveg auðséð að hann mun sennilega aldrei taka sig því taki, hans örlög eru líkt og endanlega ráðin. Og það er sárt, ákaflega sárt, vegna þess að undir lokin, þegar allt er um seinan, örlög ráðin, spilið búið, er það þó hann sem virðist eiga þann kærleika innanbrjósts sem hefði annars getað gefið einhverja von.

„ … sem hefði annars getað gefið …“ – svona verður ekki sagt nema um harmleik sé að ræða og víst er Kæra Jelena harmleikur fremur en spennuverk. Sú þraut, sem persónur verksins takast á um er í raun óleysanleg og texti Ljúdmílu Razúmovskaju nær vel utan um það, togstreitan er ósvikin, hann nær tökum á áhorfendum og heldur þeim í helgreipum allt til loka.

Það fer vel á að gefa þessum harmleik rými á Litla sviði Borgarleikhússins, og skapa þá miklu nánd við áhorfendur og gert er. Rýmið er líka vel notað, bæði til að sýna hinn lokaða heim Jelenu, en ekki síður í staðsetningum og hreyfingum og ber góðri leikstjórn vitni. Þá er ekki síður um að ræða góða persónuleikstjórn, Unnur Ösp treystir sínum leikurum, þeir fá að vinna hlutverk sín á eigin forsendum og það er óhætt að segja, að allur leikhópurinn vinni leiksigur, hvor fyrir sig og sameiginlega!

Kæra Jelena Mynd: Grímur Bjarnason

Tónlistin og hljóðmyndin fylgir leikstjórnarlögninni fast eftir, þótt megi kannski deila um lok sýningarinnar – það er útskýrt í viðtali í leikskrá hvers vegna það lokalag sem leikið er var valið, en hefði ekki verið einfaldlega sterkara að ljúka sýningunni í þögn?

Texti Ljúdmílu Razúmovskaju er það klassískur að hann þolir vel tilfærslu í tíma og rúmi. Þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur, sem hefur verið yfirfarin og löguð að nútíma af Kristínu Eiríksdóttur ýtir undir þann skilning, að þeir mannlegu breyskleikar sem fjallað er um í Kæru Jelenu blómstri ekki eingöngu í því samfélagi þar sem verkið var upphaflega skrifað og síðar bannað, þeir blómstri líka hjá þjóð eins og okkur Íslendingum.

Svo nefnd sé ekki nema spill­ingin af þeim mann­legu veik­leikum sem hér er einn af drif­kröftum sög­unn­ar, þá má auð­veld­lega taka per­sónur leiks­ins í Kæru Jel­enu og raða þeim á hið íslenska flokka­kerfi, og ef byrjað er á slíkum leik á annað borð – sem sjálf­sagt er að gera, því saga Jel­enu og nem­enda hennar er að sumu leyti tíma­laus – má upp­götva sér til nokk­urs óhugn­aðar að Kæra Jel­ena er líka saga um okkur Íslend­inga og er að ger­ast allt í kringum okk­ur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk