Töfrar leikhússins

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Dansandi ljóð þar sem Leikhúslistakonur 50+ voru í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Dansandi ljóð
Auglýsing

Leikhúslistakonur 50+ í samvinnu við Þjóðleikhúsið: Dansandi ljóð

Ljóð: Gerður Kristný

Leikstjórn: Edda Þórarinsdóttir

Tónlist: Margrét Kristín Sigurðardóttir

Leikmynd og búningar: Helga Björnsson

Höfundur sviðshreyfinga: Ingibjörg Björnsdóttir og Ásdís Magnúsdóttir.

Hárgreiðsla og förðun: Guðrún Þorvarðardóttir og Kristín Thors.

Lýsing og tæknistjórn: Magnús Thorlacius

Leikkonur: Bryndís Petra Brgadóttir, Helga E. Jónsdóttir, Júlía Hannam, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Sólveig Hauksdóttir, Vilborg Halldórsdóttir og Þórey Sigþórsdóttir.

Það er löngu orðin staðreynd, að Leikhúslistakonur 50+ hafa lyft grettistaki þegar kemur að því að miskunnarlaus leikhúsbransinn sendi ekki hæfileikafólk og reynslubolta í ótímabæra útlegð. Það er hreinlega eins og það séu álög á leikhúslistakonum að dæmast úr samfélagi leikhússins um leið og einhverjum aldri er náð og eiga þangað aldrei afturkvæmt. Þetta er mikil sóun á hæfileikum og þekkingu. Það þarf ekki nema horfa á andlit þeirra átta leikkvenna sem flytja Dansandi ljóð til að átta sig á að í þessum konum öllum er að finna kunnáttu, leikni og þjálfun sem er hreinlega skaði fyrir leikhúsið að missa. Sjáið andlitin, geislandi af þeirri fegurð sem lífið, meðlæti og mótlæti færir hverjum einstaklingi – hvaða sögur gætu ekki þessi andlit sagt, ef leikhússtofnanirnar bara leyfðu það!

 

Dansandi ljóð ber einmitt vott um þetta: hér tala raddir kvenna úr þeim heimi, sem ljóðskáldið Gerður Kristný hefur skapað og það er enginn smáheimur það, allt frá sköpun til hinstu kveðjustundar spannar hann og er haganlega lagaður af leikstjóranum, Eddu Þórarinsdóttur, sem hefur auk þess skapað stílhreina og heillandi fallega sýningu með aðstoð hreyfinga Ingibjargar Björnsdóttur og Ásdísar Magnúsdóttur, einfaldrar leikmyndar og búninga Helgu Björnsson og skemmtilegri hárgreiðslu Guðrúnar Þorvarðardóttur og förðun Kristínar Thors. Auk þess er á stundum notast við grímur sem styrkja blæ sýningarinnar: hér er ákveðið ritúal á ferðinni, við fáum innsýn í heim kvenna sem af örlæti, elsku og kærleika miðla okkur sinni sýn; hér er líkt og átta nornir spinni sinn vef og umvefji hann okkur og geri okkur að bandamönnum sínum, en rétt eins og þessar átta nornir birtast okkur hver með sinni rödd og fasi eru þær þó eins og ein, rödd Konunnar sem er frumkrafturinn í mannlegu lífi. Það er einfaldlega fallegt og hrífandi.

Auglýsing

Um ljóð Gerðar Kristnýjar þarf ekki að fara mörgum orðum. Þau hafa fyrir löngu unnið sér þann sess að fátækleg orð þess sem hér skrifar fá engu þar við bætt. Þau eru til þess að njóta þeirra, það er auðvelt og sjálfsagt að gangast á vald þeirra og láta þau í senn umlykja sig og fylla. Það er ekki lítill unaður fólginn í því að verða eitt með ljóðum Gerðar Kristnýjar og Edda leikstjóri hafði raðað þeim í rökrétta og eðlilega frásögn.

Ekki kann ég skil á því hvort fjallað hefur verið sérstaklega um hversu vel ljóð Gerðar Kristnýjar fara í munni, en sé svo má vel nefna það einu sinni enn. Ljóðin hennar eru ákaflega fýsisk, líkamleg, og ekki síst þar sem fæðist hljóðið sem ber þau áfram, frá einstaklingi til einstaklings, frá manneskju til manneskju.

Dansandi ljóð Mynd: Aðsend

Og hér er líka að finna einn meginstyrk sýningarinnar Dansandi ljóð: hver einasta leikkona á sviðinu hafði fullkomið vald á framsögn og talanda og það var hreinasta unun að heyra hvert orð, skilja hverja hugsun án þess að nokkur misbrestur væri þar á. Hér er komin sértæk ástæða af hverju íslensku leikhúsi ber að hafa leikhúslistakonur 50+ í vinnu: þær kunna að tala! Þær hafa vald á talfærunum, vita hvernig á að beita þeim til að koma á framfæri ekki bara orðunum sem slíkum og hljóðunum, heldur hugsuninni sem undir býr og tilfinningunni af þeim sprettur.

Það eru töfrar leikhússins sem eru að verki þegar áhorfandi og áheyrandi sér og heyrir persónu úr öðrum tíma og öðru rúmi tjá sig þannig að það hríslast um mann hrollur, sælu eða óhugnaðar eftir atvikum, bara af því hvernig röddin hljómar. Það eru nákvæmlega þessir töfrar sem gefa leikhúsinu tilvistarrétt. Og með því að hafna kröftum þessara reyndu kvenna er leikhúsið að fyrirgera tilvistarrétti sínum. Hver vill sitja undir útblæstri leikara sem geta ekki skammlaust komið frá sér texta eða skilningi?

Dansandi ljóð er öðrum þræði ritúal eins og nefnt var. Það hvílir helgur blær yfir sýningunni sem er hvergi ýktur eða ofgerður, ávallt hófsamur, fagur og mátulega hlaðinn hátíðleik eins og ritúali ber. Þess gætti ekki síst í leikmynd og búningum og uppsetningu hárs, sem hér gaf öllum flytjendum viðkunnanlegan heildarblæ.

En hér er eiginlega eina spurningin sem skylt er að velta fyrir sér, einfaldlega vegna þess að sýningin býr hugsanlega yfir möguleikum sem ekki hefur verið færi á að nýta, sennilega vegna skorts á fé og tíma: ljóð Gerðar Kristnýjar búa yfir frásögn, það er óvéfengjanlegt. En skyldi vera að hægt væri að búa þeim dramatískan búning, þar sem hver hinna sjö leikkvenna fengi hreint og beint persónu að skapa, sem ásamt öðrum persónum fleytti sögunni áfram fram borinni af vilja og átökum milli persónanna? Skýrt skal tekið fram að þessi spurning er ekki sett fram af því Dansandi ljóð séu ófullgerð sýning – það er öðru nær! – heldur einungis til að vekja athygli á því, að ljóð Gerðar Kristnýjar virðast búa yfir þeim krafti sem veitt persónu af holdi og blóði líf, og því nær talmáli sem þau eru fram sögð, þeim mun áhrifaríkari verða þau. Hér má því ætla að unnt sé að vinna enn frekar með ljóð hennar og í höndum Eddu og hennar hóps væri gaman að sjá hvort slík þróun sé yfir höfuð möguleg.

Ekki verður svo skilið við Dansandi ljóð en vikið sé að tónlistinni. Hún féll að öllu leyti vel að efni og formi sýningarinnar og ekki varð betur fundið en gætti áhrifa frá meðal annars ómstríðum tónum Kurt Weill og Hans Eisler – gaman að því. Tónlist, texti og túlkun myndaði í meðförum listrænna stjórnenda markvissa og meðvitaða heild og það er í raun ekkert eftir en óska Dansandi ljóðum margra og góðra lífdaga og vona að sem flestir rati í Þjóðleikhúskjallarann til að leyfa ljóðum Gerðar Kristnýjar og gjörningi Eddu og leikhúslistakvenna 50+ hríslast um sig og veita sér sýn inn í margræðan heim.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk