Borgarleikhúsið í samvinnu við Jón Gnarr: Kvöldvaka með Jóni Gnarr
Á sviðinu: Jón Gnarr
Kvöldvaka er séríslensk samkoma sem á rætur í bændasamfélaginu og leið undir lok þegar samfélagsskipan hér á landi breyttist, hið hefðbundna bændasamfélag leið undir lok, fólk fluttist á mölina og önnur tegund afþreyingar sem heyrði til hinu vaxandi borgarsamfélagi ruddi kvöldvökunni til hliðar – hljóðvarp, kvikmyndasýningar, leiksýningar og aðrir mannfagnaðir, og loks sjónvarpið – en bæði í upphafi og þróun hljóðvarps og eins í upphafi og þróunar sjónvarpsins má greina leifar af kvöldvökumenningunni. Þessi hinstu merki kvöldvökunnar eru þó óðum að hverfa.
Samkvæmt skilgreiningu Íslenskrar nútímamálsorðabókar, sem finna má á netinu, hefur hugtakið kvöldvaka tvær merkingar: annars vegar er það notað um samveru fólks um kvöld í baðstofu þar sem lesið var upphátt og unnin handavinna, hins vegar er það haft um skemmtun að kvöldlagi, oft í skóla eða félagi.
Þar með erum við farin að nálgast lýsingu á þeirri kvöldvöku sem Jón Gnarr býður upp á í Borgarleikhúsinu, nánar tiltekið á Litla Sviðinu, sem hefur verið smekklega aðlagað að viðburðinum: ljósbrúnt baktjald afmarkar sviðið en þar má finna dökkappelsínugulan hægindastól, sjálfsagt frá sjötta áratugnum og frá svipuðu tímaskeiði er mikill radíógrammófónn sem trónir fyrir baksviði miðju; lengst til hægri er svo hátt borð á einum fæti, ekkert ósvipað því sem stjórnendur málþinga styðjast við í ráðstefnusölum; það borð er með hvítum hekluðum dúki. Öll er þessi leikmynd í anda Jóns Gnarrs ef svo má að orði komast, og svo er hún heldur ekki notuð í sýningunni, nema á einfætta borðinu er vatnsglas sem Jón sýpur á af og til og svo glerkrús með nokkrum bréfmiðum sem koma að notum í seinni hluta sýningarinnar. Á gólfinu er motta sem gæti verið persnesk en hún hefur skilgreint hlutverk: að sjá til þess að Jón Gnarr haldi sig á mottunni! Í bókstaflegri merkingu!
Hlutverk leikmyndarinnar virðist að öðru leyti frekar vera að minna á þann tíma þegar kvöldvakan var endanlega að líða undir lok sem samfélagsfyrirbæri, rétt upp úr seinna stríði.
Jón Gnarr byrjar á að útskýra konsept sýningarinnar og veður þar úr einu í annað í viðstöðulausum orðaflaumi – það er ekki ofmælt að hann láti dæluna ganga, vaði á súðum, láti móðan mása, tali linnulaust og láti flest flakka. En þessi fyrri hluti sýningarinnar er í rauninni upphitun; uppistandarinn er að búa í haginn fyrir sögumanninn. Uppistandarinn færir sér fimlega í nyt að hann er faðir og fjölskyldumaður, fyrrverandi borgarstjóri og frægur skemmtikraftur sem hefur í kringum sig vænan vinahóp. Og uppistandarinn gerir að því er virðist allt sem í hans valdi stendur til að ófrægja sjálfan sig: hann játar blygðunarlaust að hann hafi hina mestu skemmtun af því að koma öðrum í vandræði, hann viðurkennir án þess að skammast sín að hann ljúgi markvisst og meðvitað að börnum sínum og kinnroðalaust kveðst hann ýta undir söguburð um vini sína.
Samtímis því sem Jón Gnarr heldur okkur hugföngnum með kostulegum og bráðfyndnum frásögnum af hrekkjum sínum dregur hann upp markvissa mynd af lítilmagnanum, þeim sem ekki lauk prófi (nema meiraprófi!) og mætir atburðum í umhverfi sínu af hrekkleysi og sakleysi sem oftar en ekki kemur honum sjálfum í alls konar óviðjafnanleg vandræði. Þessi sagnaaðferð er hvort tveggja í senn, sérstök og sympatísk – hann dregur upp mynd af sjálfum sér sem underdog, sjónarhorn hans er ávallt sjónarhorn lítilmagnans, ekki í líkamlegum skilningi, heldur félagslegum, hann er lítilmagninn sem kann ekki til fulls á umhverfi sitt og um leið og hann kemur fram af fullkomnum kvikindisskap við sína nánustu, leikur umhverfið hann viðlíka grátt.
Jón Gnarr spilar á sitt eigið óöryggi, sem óhjákvæmilega vekur hlátur og um leið og hann finnur fyrir þessum jákvæðu viðbrögðum áhorfenda færist hann í aukana og þá koma þau kostulegu augnablik þegar hann sjálfur flissar með – er það vegna þess að hann verður gripinn af sinni eigin frásögn eða er það vegna þess að hann verður raunverulega upptendraður af því að hafa tekist að koma okkur til að hlæja? Svarið við því er leyndarmál sagnameistarans Jóns Gnarrs – hann leyfir því að lifa fram yfir hlé og yfir í seinni hluta sýningarinnar.
Eftir hlé hefst hin eiginlega sögustund. Nú mega nokkrir áhorfendur draga miða úr glerkrús og vísar hver miði til sinnar sögu. Ég er ekki grunlaus um að Jón Gnarr stjórni því betur en sýnist hvaða sögur verða fyrir valinu, því tæplega trúi ég því að alger tilviljun hafi ráðið vali sagna, til þess var sýningin öll og einkum seinni hlutinn of markvisst byggður – þótt það verði að segjast svo alls réttlætis sé gætt, að sýningin öll ber á sér yfirbragð þess að vera leikin af fingrum fram, án annars drifkrafts en málgleði og frásagnargleði Jóns. En þótt hann geti vissulega tekið ýmsa útúrdúra og sýningin þar með orðið lengri eða styttri eftir atvikum, er ramminn býsna skýr og þannig skorinn að úr verður þokkalega heilsteypt sýning.
Þetta er óborganlegur stígandi og margvísleg þemu gægjast fram á ferðalaginu úr heimi hinnar félagslega öruggu kvöldvöku, þar sem hin félagslegu hlutverk voru niðurnjörvuð og eilíf, yfir í æðisgenginn heim kynuslaklúbbsins þar sem enginn er öruggur og enginn fær að vera sá sem hann vill vera. Þetta er ferðalag í frásögnum sem fellur vel að kvöldvökuheitinu og sem mætti jafnvel kalla hina nýju Íslendinga sögu. Það varð ekki annað fundið en áhorfendur gerðu sig vel heimakomna á þessu ferðalagi og höfðu af því óspart og ósvikið gaman.