5. Þorsteinn Már með alla þræði í hendi sér
Engin hefðbundin framkvæmdastjórn var hjá Samherja heldur liggja allir þræðirnir við stjórnun þess, um stór og smá mál, til forstjórans og stórs eiganda, Þorsteins Más Baldvinssonar.
Þetta var meðal þess sem fram kom í gögnum sem Wikileaks birti í tengslum við umfjöllun um Samherja í nóvember 2019.
Þar er meðal annars að finna úttekt sem sérfræðingar á vegum KPMG í Hollandi unnu á starfsemi Samherja. Tilgangur skýrslu sérfræðingana frá Hollandi var að gefa yfirlit af starfsemi Samherja, og ekki síst „flókið innanhúss hagkerfi stórfyrirtækis sem starfar víða um heim,“ eins og orðrétt segir í bókinni.
Lestu fréttina í heild sinni hér.
4. Gunnar Bragi: Fór í algjört minnisleysi og týndi fötunum mínum
„Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá því að ég kem inn á barinn og einum og hálfum sólarhring eftir. Það er algjört „blackout“. Algjört minnisleysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upptökurnar, ég týndi fötunum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjandanum gengur á þarna.“
Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og varaformaður Miðflokksins, í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í janúar 2019. Hann sagðist hafa týnt frakkanum sínum og lyklunum þetta kvöld.
Lesið fréttina í heild sinni hér.
3. Kristján Vilhelmsson kvartaði yfir skrifum Jóns Steinssonar við Columbia
„Í krafti stöðu minnar sem formaður stjórnar Útvegsmannafélags Norðurlands beini ég þeirri spurningu til þín hvort slíkur pólitískur áróður samræmist siðareglum Columbia-háskóla.“ Þetta er meðal þess sem kom fram í bréfi sem Kristján Vilhelmsson, stærsti eigandi og útgerðarstjóri Samherja, sendi til bandaríska háskólans Columbia vegna skrifa Jóns Steinssonar, sem hagfræðings sem starfaði við skólann.
Skrif Jóns höfðu verið um íslenskan sjávarútveg og aðrar fjárfestingar eigenda sjávarútvegsfyrirtækja, höfðu birst á íslenskum miðlum einvörðungu og hann notaði ekki nafn Columbia-háskóla vegna þeirra. Bréfasendingin hafði engin áhrif á stöðu Jóns innan háskólans.
Lestu fréttina í heild sinni hér.
2. Samherji brást við yfirvofandi umfjöllun
Daginn áður en að umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera um útgerðarfyrirtækið Samherja hófst sendi það frá sér yfirlýsingu, þar sem sagði að félagið hafi orðið þess áskynja að fyrrverandi stjórnandi félagsins í Namibíu, Jóhannes Stefánsson, hefði farið til fjölmiðla og „lagt fram alvarlegar áskanir á hendur núverandi og fyrrverandi stjórnendum Samherja“. „Við tökum þessu mjög alvarlega og höfum ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfseminni í Afríku. Þar til niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir munum við ekki tjá okkur um einstakar ásakanir,“ sagði í yfirlýsingu Samherja.
Lesið fréttina í heild sinni hér.
1. Trúði ekki að hjólandi Dagur væri borgarstjóri
Yfirmaður öryggismála við Höfða þríspurði starfsmann sendiráðs Bandaríkjanna hvort að Dagur B. Eggertsson væri virkilega borgarstjórinn í Reykjavík þegar Dagur kom í Höfða í byrjun september til að vera viðstaddur fund með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.
Ástæðan fyrir því að yfirmaðurinn trúði ekki að Dagur gæti verið borgarstjóri var sú að Dagur var hjólandi. „Ég hef aldrei hitt borgarstjóra á hjóli áður,“ sagði yfirmaðurinn á ensku við borgarstjórann.
Frétt af þessu atviki var mest lesna frétt Kjarnans á árinu 2019.