5. Tölum um þriðja orkupakkann
„Við eigum að takast á um orkumál. Hvort að reka eigi opinber orkufyrirtæki út frá því arðsemissjónarmiðum sem skili ríkissjóði arði eða hvort það eigi að líta til „samfélagslegrar nýtingar“ og selja til dæmis orku til áburðarverksmiðju eða álvers í Skagafirði á lágu verði til að tryggja að störf verði til í völdum kjördæmum.
Við eigum að takast á um hvort og hversu mikið eigi að virkja. Hvort sala til stórnotenda eigi að niðurgreiða raforku til heimila og fyrirtækja eða hvort afraksturinn eigi að renna til ríkissjóðs og þaðan til samfélagslegra verkefna. Hvort við eigum að leggja sæstreng, sé það yfir höfuð mögulegt, eða hvort við eigum að selja þorra þess sem við framleiðum áfram langt undir eðlilegu markaðsverði til álvera, kísilmálmverksmiðja og gagnvera sem eru aðallega notuð af þeim sem grafa eftir rafmyntum. Hvort að opinberir aðilar eigi að eiga öll orkufyrirtækin eða ekki.[...]Tökumst á málefnalega út frá ofangreindum forsendum og fyrirliggjandi staðreyndum, en festumst ekki bullumræðu um þriðja orkupakkann sem rekin er áfram af innihaldslausum hræðsluáróðri.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
4. Að opinbera Ólaf Ólafsson er ekki mannréttindabrot
„Það blasir við öllu skynsömu fólki að kæran er enn einn anginn í afar illa ígrunduðum og herfilega framkvæmdum spuna Ólafs Ólafssonar, almannatengla og lögmanna hans og síendurteknum tilraunum þeirra til að grafa undan trúverðugleika dómstóla og ríkja sem dæma menn eins og hann í fangelsi. Það sem hins vegar liggur fyrir er að þessir menn, sem telja aðrar reglur en hinar hefðbundnu gilda um sig, eru ekkert hættir að sparka í stoðirnar.
[...]
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
3. Fórnarlambið Miðflokkurinn öskrar pólitískt samsæri
„Sigmundur Davíð hefur líka lært mjög vel að nýta sér hræðsluáróður til að auka fylgi og að viðurkenna aldrei mistök heldur öskra samsæri annarra gegn sér, yfirburðamanninum, þegar hann þó augljóslega gerir slík. Hann, og framlína Miðflokksins.
Sigmundi Davíð er bersýnilega alveg sama hvort hann segi satt og leggur lítið upp úr því að undirbyggja það sem hann segir með vísun í staðreyndir, á sama tíma og hann segist iðka „róttæka skynsemishyggju“.
Leiðin upp úr holunni verður auðvitað erfiðari með hverju skiptinu sem Sigmundur Davíð, og fylgitungl hans, detta ofan í hana. Afleiðing þess er að pólitíkin verður á sama tíma ljótari og forhertari.
Þeir hafa engu að tapa. Nema auðvitað trúverðugleika íslenskra stjórnmála og Alþingis.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
2. Íslenska kerfið sem bjó til skipulagða glæpastarfsemi
„Ísland er í dag einna þekktast í útlöndum fyrir spillingu. Það er einfaldlega staðreynd. Fyrir að hafa leyft bankamannastóði að fyrst blása upp og svo tæma bankakerfi að innan með blekkingum og lögbrotum með gríðarlegum afleiðingum fyrir almenning í landinu. Fyrir að vera heimsmeistarar í aflandsfélagaeign í skattaskjólum – sem er einvörðungu til þess að fela peninga frá réttmætum eigendum þeirra – miðað við höfðatölu líkt og opinberað var í Panamaskjölunum. Við erum þekkt fyrir að vera eina ríkið á EES-svæðinu sem er á gráum lista vegna ónógra peningaþvættisvarna.
Og nú erum við þekkt fyrir að múta ráðherrum í Namibíu til að tryggja mjög ríkum frændum frá Akureyri tækifæri til að verða enn ríkari á kostnað samfélagslegrar uppbyggingar í landinu.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
1. Ofurstéttin sem er að eignast Ísland
„Snemma árs 2017 fóru útgerðir meðal annars fram á að ríkið tæki þátt í að greiða laun sjómanna, með því að gefa eftir skatt af fæðispeningum og dagpeningum vegna ferða- og dvalarkostnaðar.
Nú ætla þær síðan í mál við ríkið og setja fram, hver fyrir sig, milljarða króna kröfur fyrir að hafa ekki fengið strax gefins meira af makrílkvótanum. Hópur fyrirtækja sem flest eru undir fullum yfirráðum örfárra einstaklinga sem eru að taka yfir íslenskt samfélag með húð og hári.
Ætla kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, sem eiga að vinna með hagsmuni hennar að leiðarljósi, bara að láta þetta gerast? Að leyfa freku köllunum að sópa til sín því sem þeir vilja? Að verða ríkari og valdameiri en öll tilefni standa til á meðan á því stendur?“
Mest lesni leiðari ársins á Kjarnanum fjallar um eigendur útvegsfyrirtækja.
Lesið leiðarann í heild sinni hér.