Kyrie Eleison er vídeó- og hljóð innsetning eftir Heimi Frey Hlöðversson, unnin úr jökulís úr fimm mismunandi skriðjöklum í Vatnajökli. Tilgangur verksins er að vekja fólk til umhugsunar um hnattræna hlýnun með því að einblína á bráðnun jöklana í sinni smæstu mynd. Sýningin opnar í Ásmundarsal þann 6. febrúar. Verkið er tengt opnunaratriði vetrarhátíðar sem Heimir er líka að vinna að en það er óður til jökla heimsins. Þar birtir hann jöklana í sinni stærstu mynd.
Heimir Freyr er hefur unnið við kvikmyndagerð og margmiðlun s.l. 15 ár þar af 9 ár hjá margmiðlunarfyrirtækinu Gagarín Í starfi sínu hefur hann komið að fjölmörgum sýningum tengdum náttúru og loftslagsmálum þar má nefna Lava safnið, Perlan, Breheimsenteret jöklasafn í Noregi, fuglasafnið í Mývatnsveit Klimahuset í Noregi o.fl.. Hann safnar nú fyrir verkefninu á Karolina fund. Kjarninn ræddi við hann um það.
Hvernig kviknaði hugmyndin?
„Bráðnun Jökla hefur verið mér hugleikin í nokkuð mörg ár. Bráðnunin er eitt augljósasta dæmi um áhrif loftslagsbreytinga á jörðinni en jöklarnir hopa á ógnarhraða. Ég er búinn að vera vinna með þetta þema í mörg ár bæði sjálfur og komið að hugmyndavinnu og framleitt efni fyrir fjölmargar sýningar tengdar loftslagsmálum og náttúru.
Hvert er þema verkefnisins?
„Fyrir um tíu árum var ég að mynda á nokkrum skriðjöklum í Vatnajökli. Mig langaði að fara aftur og sjá með eigin augum breytinguna sem hefur orðið á jöklunum og vinna verk úr því. Það var óhuggulegt að sjá þessar hrikalegu breytingar sem hafa orðið. Sem dæmi hopar Skaftafellsjökull um 50- 100 m ári og ég var sorgmæddur þegar ég bar saman myndir af Virkisjökli frá árinu 2009.
Ég ákvað að mig langaði að gera eitthvað tengt bráðnun skriðjöklana. Ég náði mér í sýnishorn frá hverjum skriðjökli og flutti með mér á vinnustofuna mína. Á vinnustofunni eyddi ég nokkrum dögum í að taka nærmyndir af jöklinum bráðna. Það er einstaklega fallegt að horfa á nærmyndir af ís en á sama tíma sorglegt þegar maður hugsar til þess hvað jöklarnir eru að hverfa hratt.“
Sýninguna er Heimir að kosta að mestu leyti sjálfur þess vegna tók hann á það ráð að notfæra sér hópfjármögnunarleið til að fjármagna verkið. Vatnið sem kemur við bráðnun jökla sýnanna verður sett á flösku og er partur af sýningunni. Með því að styðja við verkefnið getur fólk eignast smá jökulvatn í flösku sem gæti orðið verðmætt einn daginn. Einnig hægt að kaupa veggspjöld með fallegum nærmyndum af jöklunum bráðna.