Handknattleiksdeild ÍR á í fjárhagserfiðleikum og ákvað nýr þjálfari liðsins, Kristinn Björgúlfsson að breyta til og fara nýjar leiðir til að búa til að afla peninga inn í félagið.
Karolina fund varð fyrir valinu og þar geta stuðningsmenn ÍR, sem og allir aðrir stutt félagið með mismunandi háum styrkjum. Styrkirnir eru mjög frumlegir. Allt frá einföldum styrk upp á tæpar 6000 krónur, Árskort á heimaleiki liðsins, sitt eigið sæti í stúkunni. Margur áhorfandinn telur sig einnig alltaf vita betur en þjálfarinn og gefst fólki því einnig tækifæri á að verða þjálfari liðsins í Olísdeild, fyrir rétta upphæð.
Hvernig kviknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmyndin að verkefninu kviknaði eftir fund þar sem við vorum að leita leiða til að afla fjár inn í rekstur félagsins. Við í ÍR tókum það skref að fara út með að við værum í vanda stödd og þar með var ljóst að við þyrftum á nýjum leiðum að halda.“
Hvert er þema verkefnisins?
„Fjárhagsvandi okkar er þemað. Við ákváðum að láta vita af honum, hætta þeim feluleik sem félagið hefur verið í og biðlum til fólks að styrkja okkur.
Á móti viljum við reyna að gera eitthvað fyrir það góða fólk sem styrkir okkur með t.d að láta árskort á heimaleiki af hendi á móti. Ef fólk styrkir okkur um 16.500 þá fær það árskort að launum. Styrkurinn þarf ekki að vera svo hár, það er hægt að leggja til í kringum 6000 krónur eða 35€ og fyrir það þökkum við kærlega fyrir.
Ef einhver kaupir sér aðgang að liðinu og vill fá tækifæri til að spila í deild þeirra bestu í handboltanum yrði það vissulega frábært. Það eru jú margir sérfræðingarnir í stúkunni á leikjum og þykjast alltaf geta gert betur en þeir sem eru inn á. Hér er tækifærið fyrir þá. Ég er viss um að þetta verður mjög gaman ef að einhver kaupir sér sæti í liðinu.“
Ertu ekki hræddur um neikvæða umfjöllun yfir því sem þið bjóðið upp á?
„Nóg er af fólki sem er alltaf neikvætt hvort sem er. Veit allt betur og þykist geta gert allt betur en við erum að reyna að gera. Nú er komið af því að það fólk hætti þessu röfli og þessu sífellda kvarti og leggi eitthvað af mörkum. Sendið okkur póst og bjóðið fram aðstoð.
Við erum í þessu af því okkur þykir handbolti skemmtilegur, þeir sem vinna með okkur finnst handbolti skemmtilegur. Allir sem koma á leikina finnst handbolti skemmtilegur. Um það snýst málið. Það er enginn í þessu af því að þeim þykir handbolti leiðinlegur.
Við erum að reyna okkar besta, hér förum við nýjar leiðir til að afla fjár, og okkur finnst þetta skemmtilegt. Er ekki skemmtilegra að kaupa sér eigið sæti í stúkunni en að safna dósum? Í þeirri stöðu sem við erum í í dag, höfum við ekki pláss fyrir neikvætt og leiðinlegt fólk.“