5. Samherji reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna
Í maí birti Kjarninn röð fréttaskýringa sem byggðu á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið. Þessi vegferð var rekin áfram af hópi sem kallaði sig „skæruliðadeild Samherja“.
Ein fréttaskýringin fjallaði um það þegar Samherji reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
4. 40 ár frá Engihjallaveðrinu 16. febrúar 1981
Í febrúar voru fjörutíu ár eru liðin frá fárviðri sem olli því að „þakplötur fóru eins og skæðadrífa yfir Kópavoginn“ og „nokkur hús í Austurbænum voru yfirgefin þar sem þakið var að mestu horfið og rúður brotnar,“ eins og sagði í fréttum á þessum tíma. Engihjallaveðrið svokallaða olli einnig skemmdum á hundruðum bíla. Tjónið var gríðarlegt og víða sátu húseigendur eftir með sárt ennið og óbætt tjón.
Einar Sveinbjörnsson fjallaði ítarlega um þetta ofsaveður í fréttaskýringu af þessu tilefni.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
3. 10 staðreyndir um deilur ASÍ og Play
Allt frá stofnun hefur flugfélagið PLAY stefnt að því að halda launakostnaði í lágmarki. Fjárfestakynning sem stofnendur PLAY birtu í lok árs 2019 innihélt áætlanir um að greiða starfsmönnum fyrirtækisins allt að 37 prósent lægri laun en vori í boði hjá lággjaldaflugfélaginu WOW air. Félagið hélt því þó fram að allar reglur á íslenskum vinnumarkaði yrðu virtar, en að samið yrði við annað félag en Félag íslenskra flugmanna (FÍA) og Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ). Það félag heitir Íslenska flugstéttarfélagið (ÍF), sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur kallað gult stéttarfélag.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
2. Vildu nothæfan lista, afgreiða Ásgeir og safna upplýsingum um stjórn samtaka
Kjarninn greindi frá því í einni fréttaskýringaröðinni um „Skæruliðadeild Samherja“ að skýr vilji hafi verið til staðar innan Samherja til að skipta sér að því hverjir myndu leiða lista Sjálfstæðisflokks í heimakjördæmi fyrirtækisins, í ljós þess að fyrrverandi stjórnarformaður Samherja, Kristján Þór Júlíusson, var að ljúka áralangri veru í því sæti. Í umfjölluninni kom fram að starfsmenn Samherja voru með áætlanir um víðtæka gagnasöfnun um stjórn félagasamtaka sem berjast gegn spillingu og greint var frá því hvernig Samherji hugðist bregðast við gagnrýni frá sitjandi seðlabankastjóra á stríðsrekstur fyrirtækisins gegn nafngreindu fólki.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
1. Skæruliðadeild Samherja sem vill stinga, snúa og strá svo salti í sárið
Fyrsta fréttaskýringin í röð slíkra um „Skæruliðadeild Samherja“ reyndist mest lesna fréttaskýring ársins á Kjarnanum. Hún birtist 21. maí og í henni var rakið hverjir áttu hlut að máli, hvernig samskipti þeirra við helstu stjórnendur Samherjasamstæðunnar fóru fram og hver tilgangurinn með athæfinu var.
Þar sást hversu mikið var í lagt til að safna upplýsingum um blaðamenn, reyna að gera þá ótrúverðuga og jafnvel vanhæfa til að fjalla áfram um Samherja.
Ástæða þess að þetta stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins stóð í þessari vegferð var sú að ofangreint fólk hafði annað hvort flett ofan af því sem Samherji hafði gert eða gagnrýnt framferði fyrirtækisins á opinberum vettvangi.
Þetta ferli stóð yfir frá því að umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera um Samherja og atferli fyrirtækisins í Namibíu birtist og þangað til að fréttaskýringaröð Kjarnans fór í loftið. Samherji gaf í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem stóð að ljóst væri að stjórnendur félagsins hefðu gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“. Um mánuði síðar, í júní, birtust svo heilsíðuauglýsingar frá Samherja með fyrirsögninni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“.