Neðri deild breska þingsins samþykkti frumvarp Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að 50. grein Lisabon-sáttmálans yrði virkjuð og þannig farið fram á úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Atkvæðagreiðslan fór fram í þinginu í gærkvöldi en síðasta sumar hafði ríkisstjórn David Cameron, forvera May í embætti, efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Bretar vilji vera áfram í ESB.
Alls voru það 498 þingmenn sem kusu með frumvarpi forsætisráðherrans en 114 þingmenn kusu á móti. Áköf umræða hefur farið fram í þinginu undanfarna tvo daga síðan frumvarpið var lagt fram. Bresk stjórnvöld þurfa þess vegna ekki að breyta áætlunum sínum um að fara fram á úrsögn fyrir lok mars á þessu ári.
Ekki stóð til að gefa breska þinginu atkvæðisrétt um Brexit enda hafði þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram og bresk stjórnvöld litu svo á að ekki þyrfti einnig að óska eftir stuðningi þingsins. Hæstiréttur í Bretlandi komst svo að þeirri niðurstöðu undir lok janúar að þingið yrði að veita stjórnvöldum umboð til þess að fara fram á úrsögn úr ESB.
Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðasta sumar voru stjórnmálaflokkarnir klofnir í afstöðu sinni til já/nei spurningarinnar sem leggja átti fyrir Breta. Eftir að niðurstaðan lá fyrir sagði David Cameron af sér sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins enda hafði hann verið eindreginn talsmaður þess að Bretar ættu áfram að taka þátt í Evrópusambandinu.
Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í þinginu fylgdu þingmenn flokkslínum að mestu, með fáeinum undantekningum. Í breskum fjölmiðlum er helst fjallað um klofning Verkamannaflokksins en Jeremy Corbyn, formaður flokksins, hafði óskað eftir því að allir þingmenn flokksins myndu kjósa með frumvarpinu. Fimmtungur þingmanna flokksins (47 af 229 þingmönnum) hundsaði þau boð og greiddi atkvæði gegn úrsögn. Aðeins einn íhaldsþingmaður kaus gegn frumvarpinu (af 329 þingmönnum), sjö frjálslyndir demókratar (af níu þingmönnum) og 50 þingmenn þjóðarflokks Skota (af 54 þingmönnum).