54% íbúa á Kjalarnesi eru innflytjendur og er það hlutfall langhæst allra byggðarkjarna á landinu. Ef litið er á sveitarfélög er hlutfall innflytjenda mest í Mýrdalshreppi, en 28% íbúa þar eru innflytjendur. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu um dreifingu innflytjenda eftir póstnúmerum.
Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Athygli vekur að dreifing þeirra er mjög breytileg eftir sveitarfélögum. Í Skorradalshreppi eru engir skráðir innflytjendur á meðan þeir eru 17.497 í Reykjavík. Hlutfall innflytjenda er hins vegar hæst í Mýrdalshreppi. Þar eru þeir 157 af 561 íbúa, eða 28%.
Mynd hér að ofan sýnir tíu sveitarfélög með hæsta hlutfall innflytjenda af íbúafjölda auk Reykjavíkur, en dreifingin hefur breyst töluvert frá því í fyrra. Innflytjendum fjölgaði mest í Reykjavík, eða um 1.526 manns. Í Reykjanesbæ fjölgaði innflytjendum næst mest, eða um rúman þriðjung og eru nú orðnir 3.159. Ekkert sveitarfélag mátti þola umtalsverða lækkun á þessu hlutfalli, en mest var hún í Tálknafjarðarhreppi þar sem innflytjendum fækkaði um 19 manns.
Langhæsta hlutfallið á Kjalarnesi
Innan Reykjavíkur er einnig mikill munur milli hverfa, en langhæsta hlutfall innflytjenda er á Kjalarnesi. Þar eru þeir 245 af 463, eða 53% íbúa. Ekki er ljóst hvað útskýrir misræmið, en hælisleitendur sem gista á Arnarholti á vegum Útlendingastofnunnar eru ekki teknir með í útreikningum þar sem þeir hafa ekki lögheimili hér á landi.
Efra-Breiðholt hefur þó að geyma stærsta fjölda innflytjenda í Reykjavík, en þar eru þeir 2.628 talsins og 29% íbúa hverfisins. Lægsta hlutfall innflytjenda er þó í Staðahverfi og Vestur-Grafarholti, þar sem þeir eru 3% hverfisbúanna. Sömu sögu er að segja um hverfi Reykjavíkur og hin sveitarfélögin, ekkert þeirra mátti þola neina marktæka fækkun innflytjenda. Mest var fækkunin í Austurbæ, en þar fækkaði þeim um 4.
Eins og kom fram í frétt Kjarnans í gær hafa aldrei verið fleiri innflytjendur á Íslandi, en þeir eru orðnir 10,6% af mannfjöldanum. Búist er við því að hlutfall þeirra muni halda áfram að vaxa og að þeir verði fjórðungur þjóðarinnar eftir hálfa öld.