Ef Verkamannaflokkurinn væri við stjórn í Bretlandi myndu Bretar yfirgefa sameiginlegan markað Evrópusambandsins vegna þess að aðild að honum er skilyrt aðild að Evrópusambandinu sjálfu, sagði Jeremy Corbyn, formaður flokksins, í viðtali á BBC í gær. The Guardian greinir frá.
Corbyn segir að hann mundi frekar reyna að sækja góðan milliríkjasamning um viðskiptið við Evrópuríki. Þessi útskýring formannsins á Brexit-stefnu Verkamannaflokksins hefur sætt gagnrýni innan flokksins enda virðist Corbyn ekki átta sig á því að nokkur ríki – þar á meðal er Ísland – hafa aðgang að sameiginlega markaði ESB án þess að vera aðilar að Evrópusambandinu.
„Sameiginlegi markaðurinn er háður aðild að ESB. Við höfum alltaf sagt að við viljum tollfrjáls viðskipti við markaði í Evrópu og samstarf með Evrópu í framtíðinni,“ sagði Corbyn í viðtalinu. „Þessir tveir hlutir eru tengdir órjúfanlegum böndum svo spurningin er þá hvers konar viðskiptasamband við viljum hafa til framtíðar.“
Chuka Umunna, þingmaður Verkamannaflokksins, benti á þessar rangfærslur Corbyns í færslu á Twitter í gær.
Umunna segir samningur Bretlands við ESB, sem væri sambærilegur þeim sem Ísland og Noregur hafa, myndi gera það að verkum að Bretland gæti enn verið aðili að sameiginlega markaði ESB. Það mundi stuðla að félagslegu jafnrétti og veita stjórnvöldum frekara fjárhagslegt ráðrúm. Samningur Íslands og Noregs hefur það hins vegar í för með sér að löndin verða að leyfa frjálst flæði fólks, eitthvað sem hefur verið á milli tannana á Bretum.
Samið um Brexit
Bretar semja nú um hvernig sambandi sínu við Evrópusambandið verður háttað eftir að Bretland verður ekki formlega hluti af ESB árið 2019. Vinda þarf ofan af meira en 40 ára starfi Bretlands í Evrópusamvinnunni og semja um samskiptin á ný.
Enn er tekist á um hvaða leið sé best að fara við aðskilnaðinn. Stjórnmálamenn hafa talað um Hard Brexit, þe. skýran aðskilnað, og svo Soft Brexit, þar sem haldið verður í hluta samstarfsins, í þessu tilliti.
Bresku þingkosningarnar í júní voru tvíræðar að þessu leyti enda missti Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, meirihluta sinn á þinginu og leiðir nú minnihlutastjórn. Stjórnmálaskýrendur og stjórnmálamenn hafa fyrir vikið átt erfitt með að átta sig á afstöðu kjósenda um hversu skýr aðskilnaður Bretlands við ESB á að vera.
Ein þeirra leiða sem komið hefur til tals er að Bretland semji við Evrópusambandið um samskonar aðgangi og EES-samningurinn veitir Íslandi, Noregi og Liechtenstein.