Flestir ætla enn að kjósa Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í komandi kosningum miðað við kosningaspána. 25,6 prósent kjósenda segjast ætla að kjósa flokk Katrínar Jakobsdóttur þegar tæpar tvær vikur eru til Alþingiskosninga 28. október.
Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn er enn 22,5 prósent eins og í síðustu kosningaspá. Afar ólíklegt er að fylgissveiflur vegna vendinganna síðdegis á mánudag, þegar lögbann var sett á fréttaflutning Stundarinnar um Bjarna Benediktsson, hafi haft áhrif á fylgi flokkana
Nýjasta kosningaspáin var gerð þriðjudaginn 17. október og henni til grundvallar eru fimm skoðanakannanir á fylgi stjórnmálaflokka. Nýjasta könnunin var gerð mánudaginn 16. október og þess vegna er hæpið að fylgissveiflur sem kunna að verða vegna lögbannsins á fréttaflutning Stundarinnar komi fram í kosningaspánni nú. Hér er hægt að lesa um framkvæmd kosningaspárinnar.
Kosningaspáin er unnin af Baldri Héðinssyni stærðfræðingi í samvinnu við Kjarnann. Baldur heldur úti vefnum kosningaspa.is þar sem lesa má nánar um kosningaspána og rýna í eldri úrslit.
Sóknin hafin
Áhugavert er að rýna í þróun fylgis þeirra flokka sem hafa undanfarið verið með lítið fylgi í kosningaspánni. Viðreisn skipti Benedikt Jóhannessyni út úr formannssætinu fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur miðvikudaginn 11. október. Nýjasta kosningaspáin sýnir hugsanlega áhrif þeirra forystubreytinga og nú mælist Viðreisn með 4,1 prósent stuðning eftir að hafa skipst á sætum við Bjarta framtíð í um þrjú prósent fylgi.
Björt framtíð skefur enn botninn í kosningaspánni og er nú með þrjú prósent stuðning. Þegar kosningaspáin fyrir landið allt er skoðuð má gera ráð fyrir að hvert framboð þurfi minnst fimm prósent stuðning til þess að geta gert ráð fyrir að ná manni inn á þing. Fyrirvarinn sem setja verður er að fylgi flokka er ekki jafn mikið í hverju kjördæmi fyrir sig. Flokkur gæti þess vegna notið meiri stuðnings í einu kjördæmi og fengið mann kjörinn þar en engan í öðrum kjördæmum.
Fylgi flokks fólksins hefur hríðfallið á undanförnum tíu dögum og er nú 5,8 prósent. Hæst fór flokkur Ingu Sæland í 9,9 prósent í lok september.
Er Framsókn ekki stærri en þetta?
Framsóknarflokkurinn hefur enn ekki náð sér á strik eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, klauf sig úr flokknum í lok síðasta mánaðar og stofnaði Miðflokkinn. Framsóknarflokkurinn er nú með 6,6 prósent fylgi en Miðflokkurinn er með 9,2 prósent í kosningaspánni.
Framsóknarflokkurinn hlaut 11,49 prósent atkvæða í síðustu Alþingiskosningum í lok október í fyrra. Það var minnsta atkvæðahlutfall sem flokkurinn hefur fengið í Alþingiskosningum síðan flokkurinn var stofnaður 1916. Þá hafði Framsóknarflokkurinn minnkað í hverjum kosningum frá 1995.
Framsókn hefur hins vegar fengið færri þingsæti en þau átta sem þau fengu í fyrra, því árið 2007 fékk flokkurinn 11,7 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Slíkt misræmi ræðst af fjölda framboða og dreifingu atkvæða hverju sinni.
Sigmundur Davíð leiddi Framsóknarflokkinn í fyrsta sinn í kosningum 2009 þegar flokkurinn fékk 14,8 prósent atkvæða. Í kosningunum 2013 fékk Framsókn svo 24,4 prósent atkvæða og jafnstærstan þingmannafjölda á Alþingi, með Sjálfstæðisflokknum.
Samanlagt eru Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn með 15,8 prósent fylgi í nýjustu kosningaspánni.
Vinstri stjórn er enn líklegri
Kosningaspáin reiknar líkur á því hversu stóran þingflokk hvert framboð má gera ráð fyrir að fá að kosningum loknum. Þegar líkur framboðanna eru lagðar saman má skoða hvaða meirihluta verður hægt að mynda að loknum kosningum og líkindin á bak við hverja samsetningu.
Líkindin fást með því að gera 100.000 sýndarkosningar þar sem nýjasta kosningaspáin er líklegasta niðurstaða kosninganna. Skekkjumörk og sögulegt misræmi fylgis flokka milli kjördæma er notað sem breytur.
Hægt var að mynda meirihluta – 32 þingmenn eða fleiri – úr þingmönnum Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í niðurstöðum 34 prósent sýndarkosninganna. Við getum því sagt að 34 prósent líkur séu á að slíkur meirihluti geti orðið að veruleika, miðað við nýjustu kosningaspána.
Líkurnar eru enn meiri á að hægt verði að mynda meirihluta ef við bætum Pírötum við þá flokka sem nefndir voru í dæminu hér að ofan.
Alla líkindatöfluna má skoða í kosningamiðstöð Kjarnans.
Séu dæmi um hægristjórn skoðuð sést að líkurnar eru minni. Meirihluti Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Miðflokksins var hægt að mynda í 22 prósent tilfella sýndarkosninganna. EF Framsóknarflokkurinn er tekinn úr þessu dæmi eru líkurnar aðeins fjögur prósent.
Í engum tilvikum var hægt að mynda ríkisstjórn úr þeim flokkum sem nú sitja við völd, Sjálfstæðisflokknum, Bjartri framtíð og Viðreisn.
Um nýjustu kosningaspána
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni – gerð 17. október 2017 – eru listaðar hér að neðan. Ástæða þess að nýjasta könnunin, könnun fréttastofu 365 er vegin minna en kannanirnar sem koma á undan, er að könnun Félagsvísindastofnunar og könnun Gallup eru gerðar yfir lengra tímabil og þar er fjöldi þátttakenda er meiri.
Vægi kannana er ákveðið út frá fyrirfram ákveðnum forsendum svo hægt sé að leggja mat á gildi niðurstaðna. Nánar má lesa um framkvæmd kosningaspárinnar hér á vefnum.
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 16. okt (21,7%)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 9. – 12. október (22,3%)
- Þjóðarpúls Gallup 29. september – 12 október. (24,5%)
- Skoðanakönnun MMR 6. – 11. október (17,6%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 10. okt (13,9%)