Kosningaspáin
Allt um kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar sem birt er reglulega í aðdraganda kosninga á Íslandi.
Umfjöllun Kjarnans um kosningaspána
-
28. september 2021Uppgjör: Kannanir almennt nálægt úrslitunum og þessir náðu þingsæti
-
25. september 2021Lokaspá: Líkur frambjóðenda á að komast inn á Alþingi
-
25. september 2021Lokaspá: Meiri líkur en minni á að ríkisstjórnin haldi velli
-
24. september 2021Fjórir miðjuflokkar hafa bætt við sig næstum tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
23. september 2021Flokkur fólksins á mikilli siglingu og mælist nú nánast í kjörfylgi
-
22. september 2021Svona eru líkur frambjóðenda á að komast inn á Alþingi
-
21. september 2021Ríkisstjórnin kolfallin, níu flokkar á þingi og Framsókn með pálmann í höndunum
-
20. september 2021Meiri líkur en minni á því að hægt verði að mynda miðjustjórn sem teygir sig til vinstri
-
20. september 2021Miðjuflokkar í lykilstöðu nokkrum dögum fyrir kosningar en Sjálfstæðisflokkur tapar enn
-
18. september 2021Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Til útskýringar má segja að vægi kannana er gefið eftir því hversu næmur könnunaraðilinn og aðferðir hans eru á raunverulegar hreyfingar í samfélaginu. Kosningar eru auðvitað eini mælikvarðinn á það hversu vel könnunaraðilum tekst upp svo miðað er við söguleg gögn og þau borin saman við kosningaúrslit til að ákvarða áreiðanleika. Þá skiptir máli hversu langt er liðið síðan könnunin var gerð og hversu margir tóku þátt í henni.
Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrst í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2014 og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er nú keyrð í aðdraganda Alþingiskosninga 28. október í annað sinn. Kosningaspáin fékk mikla athygli fyrir síðustu Alþingiskosningar 2016, ekki síst fyrir þingsætaspána þar sem spáð var um hvaða frambjóðendur myndu ná kjöri. Nánar um það hér að neðan.
Í nýjustu kosningaspánni hverju sinni eru nýjustu kannanir könnunaraðila vegnar eftir áreiðanleika. Fylgi einstakra framboða er svo fundið með vegnu meðaltali úr þeim könnunum sem liggja til grundvallar hverri spá fyrir sig. Spálíkanið sem Baldur hefur útbúið byggir að verulegu leyti á aðferðum Nate Silver. Um það má lesa hér. Vægi hverrar könnunar fyrir sig er metið út frá fyrirfram gefnum forsendum, eins og stærð úrtaks, fjölda svarenda, lengd könnunartímabils og áreiðanleika könnunaraðila. Áreiðanleiki könnunaraðila byggir á því hversu nærri kannanirnar hafa komist niðurstöðum kosninga á undanförnum árum.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarks skilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Þingsætaspáin
Þingsætaspáin er ítarlegri greining á gögnum kosningaspárinnar sem mælir líkindi þess að einstaka frambjóðandi nái kjöri í Alþingiskosningum. Niðurstöðurnar byggja á fyrirliggjandi könnunum á fylgi framboða í öllum sex kjördæmum landsins hverju sinni og eru niðurstöðurnar birtar hér á vefnum.
Fyrir kjördæmin
Líkur á því að einstaka frambjóðandi nái kjöri byggja á reiknilíkani stærðfræðinganna Baldurs Héðinssonar og Stefáns Inga Valdimarssonar. Í stuttu máli er aðferðafræðin sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna að fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum. Frávikið frá líklegustu niðurstöðu fyrir flokk er því ekki óháð milli kjördæma. Ef frávikið er neikvætt í einu kjördæmi fyrir ákveðinn flokk aukast líkurnar á að það sé sömuleiðis neikvætt í öðrum kjördæmum.
Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.
Tökum ímyndað framboð X-listans í Norðvesturkjördæmi sem dæmi: Framboðið mælist með 20 prósent fylgi. Í flestum „sýndarkosningunum“ fær X-listinn 2 þingmenn en þó kemur fyrir að fylgið í kjördæminu dreifist þannig að niðurstaðan er aðeins einn þingmaður. Sömuleiðis kemur fyrir að X-listinn fær þrjá þingmenn í kjördæminu og í örfáum tilvikum eru fjórir þingmenn í höfn.
Ef skoðað er í hversu mörgum „sýndarkosningum“ hver frambjóðandi komst inn sem hlutfall af heildarfjölda fást líkurnar á að sá frambjóðandi nái kjöri. Sem dæmi, hafi frambjóðandinn í 2. sæti X-listans í Norðvesturkjördæmi náð kjöri í 90.000 af 100.000 „sýndarkosningum“ þá reiknast líkurnar á því að hann nái kjöri í Alþingiskosningunum 90 prósent.
Skoðanakannanir í aðdraganda Alþingiskosninga 2009 og 2013 voru notaðar til að sannprófa þingsætaspánna, þar sem spáin er borin saman við endanlega úthlutun þingsæta. Þingsætaspáin var jafnframt birt í fyrsta sinn í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.
Fyrir landið í heild
Þegar niðurstöður í öllum kjördæmum liggja fyrir er hægt taka niðurstöðurnar saman fyrir landið í heild og reikna út líkur á því hversu marga þingmenn hver flokkur fær á landsvísu. X-listinn gæti, svo dæminu hér að ofan sé haldið áfram, fengið:
- 8 þingmenn í 4% tilfella
- 9 þingmenn í 25% tilfella
- 10 þingmenn í 42% tilfella
- 11 þingmenn í 25% tilfella
- 12 þingmenn í 4% tilfella
Þetta veitir tækifæri til þess að máta flokka saman reyna að mynda meirihluta þingmanna og skoða líkur á því hvaða flokkar muni ná meirihluta á þingi að afstöðnum kosningum. Ef X-listinn er einn af þeim flokkum sem myndar meirihluta að loknum kosningnum er þingmannaframlag hans til meirihlutans aldrei færri en 8 þingmenn, í 96% tilfella a.m.k. 9 þingmenn, í 71% tilfella a.m.k. 10 þingmenn o.s.frv. Landslíkur X-listans eru því settar fram á forminu:
- = > 8 þingmenn í 100% tilfella
- = > 9 þingmenn í 96% tilfella
- = > 10 þingmenn í 71% tilfella
- = > 11 þingmenn í 29% tilfella
- = > 12 þingmenn í 4% tilfella
- = > 13 þingmenn í 0% tilfella