Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að hafna beiðni Valitor um að dómkveða nýja matsmenn í máli SPP, sem er rekstrarfélag WikiLeaks, og DataCell ehf. gegn greiðslukortafyrirtækinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni SPP og DataCell.
Í tilkynningunni segir staðfestingu Landsréttar marka upphaf lokasókn félaganna tveggja gegn Valitor þar sem gerð er krafa um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar lokunar Valitor á greiðslugátt fyrir alþjóðleg framlög til WikiLeaks árið 2011. Annað félagið, SPP, er að mestu leyti í eigu Julian Assange, stofnanda WikiLeaks.
Hæstiréttur dæmdi lokun Valitor á greiðslugátt SPP og Datacell ólögmæta árið 2013, en dómkvaddir matsmenn mátu tjón Wikileaks á 3,2 milljarða íslenskra króna. Tilkynningin metur svo að heildargreiðsla Valitor að dráttarvöxtum og málskostnaði meðtöldum nemi um 6,7 milljörðum króna.
Árið 2016 fór svo Valitor fram á yfirmat, en ákvað að leggja það ekki fram í dómi. Þess í stað óskaði Valitor eftir nýju mati en því var hafnað í Héraðsdómi. Landsréttur staðfesti svo úrskurð Héraðsdóms á þriðjudaginn.
Samkvæmt talsmönnum SPP og DataCell er því endanlega búið að ramma inn umfang tjónsins með nýjum dómi Landsréttar, þar sem enginn augljós galli er á matsgerðinni sem leitt geti til þess að dómari fari að víkja henni til hliðar. Úrskurðinn má lesa hér.
Kjarninn hefur áður fjallað um mál SPP og DataCell gegn Valitor, en fyrrnefndu félögin kröfðust kyrrsetningar á eignum Valitors. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafnaði þeirri kröfu síðastliðinn mars og staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur ákvörðunina í júní.