Ummælin sem sex þingmenn Alþingis viðhöfðu á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn er óafsakanleg hatursorðræða og eru þeir hvattir til að segja af sér undir eins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þrennum Evrópusamtökum fatlaðs fólks og kvenna sem send var út þann 11. desember síðastliðinn.
„Okkur hjá samtökunum the European Disability Forum (EDF), the European Network on Independent Living (ENIL) og the European Women’s Lobby (EWL) misbýður þær athugasemdir sem íslensku þingmennirnir viðhöfðu. Á einu augnabliki líktu þingmennirnir Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi þingmanneskju og meðlimi ENIL, þekktri baráttukonu fyrir réttindum kvenna og fatlaðs fólk, við sel. Þessar athugasemdir eru hatursorðræða. Þær hlutgera konur og svipta þær manngildi og staðfesta þá staðreynd að konur með fatlanir standa frammi fyrir tvöfaldri mismunun vegna fötlunar sinnar og kyns,“ segir í yfirlýsingunni.
Atvik eru rakin í yfirlýsingunni en þar segir að eftir að málið kom fyrir augu almennings hafi Freyja hlotið afsökunarbeiðni frá hátt settum stjórnmálamanni á Íslandi. Henni hafi sú afsökunarbeiðni þó ekki þótt vera einlæg. Athugasemdirnar hafi verið útskýrðar með tilvísun í baráttu Freyju Haraldsdóttur fyrir réttindum fatlaðs fólks. Þetta sé dæmigerð tilraun til að færa sök gerandans yfir á þolandann og til að grafa undan virkni kvenna í stjórnmálum.
Ber vott um algjöra kvenfyrirlitningu
Haft er eftir Freyju að hún telji að hið versta í þessu sé það að fólk líti ekki svo á að í þessari árás skarist kyn og fötlun – heldur að um sé að ræða háð í garð fatlaðs fólks. En þetta sé margslungnara en svo og beri vott um algjöra kvenfyrirlitningu.
Einnig er vitnað í Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, stjórnarmeðlim í the European Disability Forum og formann Öryrkjabandalags Íslands. „Það er sorglegur vitnisburður um þessa þingmenn að þeir skuli atyrða fatlað fólk. Freyja Haraldsdóttir er ein af virtustu frumkvöðlum okkar og baráttumanneskjum fyrir réttindum fatlaðs fólks og kvenna, og þau hrakyrði sem hún hefur mátt upplifa vekja sorg og sýna hvaða menn þingmennirnir sem um ræðir hafa að geyma,“ sagði Þuríður.
Hún bætti því við að þingmenn hafi umboð þjóðarinnar, þeir séu fyrirmyndir og þeim sé ætlað að iðka umboð sitt af heilindum og virðingu fyrir öllum. Orð þeirra sýni hugsunarhátt sem einfaldlega leiðir af sér hindranir fyrir því að fatlað fólk geti notið sjálfsagðra mannréttinda, og útskýri eiginlega hvers vegna framfarir í þeim efnum gerast of hægt hér á Íslandi.
Ofbeldi gegn konum gegnsýrir enn heimsbyggðina alla
Forseti European Women’s Lobby, Gwendoline Lefebvre, segir í yfirlýsingunni það vera morgunljóst að hundrað árum eftir að konur fengu kosningarétt sé enn langt í land með að konur fái notið jafnréttis á við menn og með að karlmenn hætti að komast upp með ofbeldi sitt gegn konum. „Það sem fr. Haraldsdóttir hefur mátt þola er óviðunandi og færir heim sanninn um það hvernig ofbeldi gegn konum og stúlkum gegnsýrir enn Evrópu og heimsbyggðina alla. EWL fordæmir harðlega allar birtingarmyndir ofbeldis gegn konum á vettvangi einkalífs, á opinberum vettvangi og í netheimum.“
Þau kalla því eftir tafarlausri afsögn þingmannanna frá Alþingi Íslendinga. Það sé hið rétta í stöðunni.
Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.