Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem samþykkt var í vikunni þess efnis að komið verði á fót ráðgjafarstofu innflytjenda. Ráðgjafarstofan er ætluð öllum innflytjendum, flóttamönnum og hælisleitendum. Hlutverk stofnunarinnar verði að bjóða innflytjendum upp á aðgengilega ráðgjöf um þjónustu, réttindi og skyldur.
Í þingsályktunartillögunni kemur fram að óvíst sé hversu mikill kostnaður hljótist af stofnun ráðgjafarstofunnar. Vonast sé til að samstarf náist við sveitarfélögin um rekstur. Mögulega þurfi að gera lagabreytingar vegna skörunar á verkefnum stofnana sem komi að ráðgjafarstofunni.
Í þingsályktunartillögunni er Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis, nefnt sem fordæmi fyrir stofnun sem hefur alla þjónustu undir sama þaki og samstarf sé á milli bæjarfélags og ríkis.
Miðflokksmenn greiddu gegn tillögunni
Alls greiddu 49 þingmenn með tillögunni, sex þingmenn voru fjarverandi og greiddu sjö þingmenn gegn henni. Allir þingmennirnir sem greiddu gegn tillögunni eru þingmenn Miðflokksins, þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um málefni innflytjenda. Innflytjendur eru til að mynda um 20 prósent starfandi fólks á Íslandi og um tólf prósent íbúa landsins. Hlutfallslega eru flestir innflytjendur í Reykjanesbæ, eða um 23 prósent. Atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er afar há og hlutfallslega hærri en Íslendinga.