Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýnir niðurstöðu siðanefndar að leyfa Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að njóta vafans um hvort þau hafi verið að gera lítið úr Freyju Haraldsdóttur vegna fötlunar hennar á fundi þeirra á Klaustur bar. Þórhildur Sunna skrifar um málið á stöðufærslu á Facebook síðu sinni.
Á upptökum af samtali þingmanna Miðflokksins á barnum Klaustur þann 20.nóvember 2018 má heyra þá gera grín að Freyju, sem þjáist af sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún, kallaði hana „Freyju eyju“ og „Eyju“ og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, gerði grín af því að tveir hinna mannanna við borðið hefðu sérstakan áhuga á Freyju og nafngreindri þingkonu Samfylkingarinnar. Einhver úr hópnum hermdi í kjölfarið eftir sel.
Auglýsing
Freyja segir ummælin fötlunarfyrirlitningu og kvenfyrirlitningu
Í kjölfarið gagnrýndi Freyja ummæli þingmannanna harðlega og sagði meðal annars að um kerfisbundið hatur valdhafa væri að ræða. „Að líkja mér við dýr og uppnefna mig (og vegg) Freyju Eyju í kjölfar aðgengisbreytinga er augljóslega eins fötlunartengt og það getur orðið. Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að pólitískar skoðanir mínar, sem byggja á feminískum gildum, hugmyndafræði mannréttinda og upprætingu ableisma, fara í taugarnar á sumum körlum, ER fötlunarfyrirlitning og kvenfyrirlitning. Það er líka hlutgerving. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur. Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna,“ skrifaði Freyja í aðsendri grein í Kjarnanum í desember síðastliðnum.
Siðanefnd ákvað að láta Önnu Kolbrúnu njóta vafans og niðurstaða nefndarinnar er að ummæli hennar fari ekki gegn siðareglum Alþingis. „Í ljósi afmörkunar forsætisnefndar og hversu takmarkaðar upplýsingar liggja til grundvallar þessum ummælum telur siðanefnd rétt að Anna Kolbrún Árnadóttir njóti vafans að þessu leyti. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða siðanefndar að ummæli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur frá 20. nóvember 2018 fari ekki gegn c- og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siðareglna alþingismanna, eins og þau eru afmörkuð.“
Sorglegt að siðanefnd viðurkenni ekki að brotið hafi verið gegn henni
Þórhildur Sunna rifjar upp ummæli Klausturmanna um Freyju. Hún segir jafnframt sorglegt að siðanefnd hafi ekki getað sýnt Freyju þann virðingarvott að viðurkenna að minnsta kosti að brotið hafi verið gegn henni.
„Kannski skýrist þessi óskiljanlega niðurstöða gagnvart Freyju á þeirri furðulegu afstöðu siðanefndar að sannleiksgildi ummæla hafi ekkert vægi í mati nefndarinnar. Sannleikur, samhengi og ásetningur virðast allavega atriði sem siðanefnd á erfitt með að vega og meta,“ skrifar Þórhildur Sunna.
Siðanefnd Alþingismanna fannst rétt að leyfa Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og Sigmundi Davíð að “njóta vafans” um hvort þau...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Thursday, August 1, 2019