Sögusagnir hafa nær allt frá upphafi faraldurs COVID-19 verið á sveimi um að nýja kórónuveiran hafi verið búin til á rannsóknarstofu. Samsæriskenningarnar ganga út á það að kínversk yfirvöld hafi staðið að baki því að búa hana til og dreifa – jafnvel til þess eins að koma í veg fyrir endurkjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna.
COVID-19 er nýr sjúkdómur og honum veldur ný veira, SARS-CoV-2. Það er ekki undra að ein fyrsta spurningin sem fólk spyrji sé: Hvaðan kom hún?
Til að fá svör við þessu leitaði Kjarninn til erfðafræðingsins Arnars Pálssonar, prófessors í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands. Hann er einn þeirra fræðimanna sem svara spurningum almennings á Vísindavefnum. Síðustu vikur hefur spurningum er varða COVID-19 rignt inn og Arnar m.a. verið iðinn við að svara spurningum um stökkbreytingar veirunnar.
Á Vísindavefnum er það Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum, sem ritar svar við spurningunni: Hvað með þær sögusagnir að kórónuveiran eigi sér uppruna á rannsóknarstofu?
Jón skrifar að það sé ekki að ástæðulausu að fólk velti þessu fyrir sér. Mörg dæmi séu um sýkla sem hafa borist í starfsfólk á rannsóknarstofum og ýmist valdið stökum veikindum eða jafnvel litlum faröldrum.
„Ef þetta ætti við SARS-CoV-2 væru aðstæður hins vegar talsvert öðruvísi,“ skrifar Jón. „SARS-CoV-2 er ný veira sem veldur nýjum sjúkdómi og er talsvert frábrugðin þeim kórónuveirum sem geta valdið sjúkdómi í mönnum. Þetta myndi því þýða að hún hefði verið manngerð. Sem betur fer er hægt að fullyrða, án nokkurs vafa, að SARS-CoV-2 kom ekki upprunalega frá rannsóknarstofu.“
Klippt og límt-aðferðin
Kórónuveirur er fjölskylda veira sem greinast helst í spendýrum og fuglum. Vitað er að þær finnast einnig víðar ef þeirra er leitað sérstaklega. Talið er að þær kórónuveirur sem hingað til hafa sýkt menn hafi upprunalega komið frá dýrum.
Nánustu „skyldmenni“ SARS-CoV-2 séu veirurnar SARS-CoV og MERS-CoV. Þær komu báðar úr leðurblökum en bárust í menn úr millihýslum (sú fyrrnefnda úr einni tegund kattardýra og sú síðarnefnda úr drómedara). Mjög líklegt er að SARS-CoV-2 hafi einnig komið upprunalega úr leðurblökum, þótt óvíst sé hvort millihýsill hafi þar komið við sögu.
Arnar segir í samtali við Kjarnann að fræðilega séð sé hægt að setja saman veiru úr öðrum þekktum veirum. Þá er í raun notuð aðferð sem hægt er að lýsa sem „copy-paste“ í einföldu máli. Pörtum úr ólíkum veirum er splæst saman til að búa til nýja. En slíkt myndi alltaf sjást í greiningu á veirunni, hlutar af erfðamenginu væru þá sambærilegir við hluta úr erfðamengi þekktra veira. „En til að komast að því þarf vitneskja um þekktu veirurnar að vera tiltæk í opnum gagnagrunnum,“ bendir Arnar á.
Hvað varðar nýju kórónuveiruna þykir ljóst að hún beri þess engin einkenni að vera samsett úr öðrum veirum. „Öll gen í erfðamengi hennar eru frábrugðin röðum sem þekktar eru í öðrum skyldum veirum.“
En hvaðan kom hún þá?
Fjöldi rannsókna hafa skoðað erfðaefni SARS-CoV-2 í þaula og borið saman við aðrar kórónuveirur, bæði úr mönnum og öðrum dýrum, skrifar Jón Magnús í svari sínu á Vísindavefnum. Fjöldi stökkbreytinga í mismunandi stofnum veirunnar staðfesta að SARS-CoV-2 er ný veira sem hefur nýlega borist til manna.
Um 75 prósent af nýlegum smitsjúkdómum hafa borist frá dýrum í menn. Þar af eiga 70 prósent uppruna sinn í villtum dýrum. Allir heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar hafa komið frá dýrum. Spænska veikin, svo dæmi sé tekið, átti líklega uppruna sinn úr eldisfuglum. Svínaflensan sem geisaði árið 2009 kom líklega einnig úr fuglum en með svín sem líklegan millihýsil, skrifar Jón Magnús í einu svari sínu á Vísindavefnum.
Áætlað er að nýir smitsjúkdómar felli hundruð þúsunda manna á hverju ári.
Arnar bendir á að á síðustu tveimur áratugum hafi tvær kórónuveirur stokkið yfir í menn, SARS-CoV og MERS-CoV. Líklega gerðist það vegna dráps og neyslu á villtum dýrum. Gögnin sýna skýrt að nýja veiran hefur aðra erfðasamsetningu en bæði SARS og MERS og það staðfestir að um nýja sýkingu er að ræða. „Í þessu samhengi er full ástæða til að minna á að sú árátta fólks að drepa og éta villt dýr er kveikjan að COVID-19 farsóttinni,“ segir Arnar en bendir á að neysla kjöts af húsdýrum hafi ekki sömu hættu í för með sér, enda sóttvarnir yfirleitt góðar í landbúnaði. „Ef fólk hefði hlustað á málflutning veirufræðinga og náttúruverndarsinna sem hafa bent á hættuna af slíkri iðju, væri mannkynið ekki í þessari stöðu.“