Minkar smituðu tvo menn af nýju kórónuveirunni í Hollandi nýverið. Um fyrstu staðfestu smit úr minkum í menn er að ræða í heimsfaraldri COVID-19.
Nýja kórónuveiran SARS-CoV-2 hefur fundist í minkum á fjórum af 155 minkabúum sem starfrækt eru í Hollandi. Þetta kom fram í bréfi sem landbúnaðarráðherra landsins, Carola Schouten, sendi til þingsins fyrir viku þar sem greint var frá smitunum tveimur. Í bréfinu kom fram að hættan á smiti úr dýrum í menn utan minkabúanna væri „hverfandi“. Sýktu búin hafa verið einangruð.
Ráðherrann sagði í bréfi sínu að sýkt manneskja hefði upphaflega borið smit inn í þrjú minkabúanna. Verið er að rannsaka hvernig smit barst í það fjórða.
Í frétt Reuters um málið er haft eftir yfirmanni smitsjúkdómastofnunar Hollands (RIVM) að þekkt sé að menn hafi smitað ketti og nokkrar aðrar dýrategundir af COVID-19. En í þessu tilfelli er dýr (minkur) að smita menn og það sé næstum einstakt.
Upp komst í apríl að minkar sem ræktaðir voru á búi í nágrenni Eindhoven hefðu sýkst af nýju kórónuveirunni. Nokkur dýr höfðu veikst og sýnt ýmiskonar einkenni, m.a. í öndunarfærum. Í kjölfarið voru tekin sýni. Þá kom í ljós að minkarnir voru sýktir af veirunni. Í frétt AFP segir að mennirnir tveir, sem voru starfsmenn á búunum, hafi smitast áður en vitað var að minkar gætu borið veiruna. Því hafi þeir ekki verið í viðeigandi hlífðarfatnaði við störf sín.
Níu minkabú eru starfrækt á Íslandi. Ekki hefur verið talin ástæða til að vara sérstaklega við umgengni við minka þar sem enginn grunur hefur verið um smit í minkum eða öðrum dýrum hér á landi, segir í svari Matvælastofnunar við fyrirspurn Kjarnans um hvort til einhverra ráðstafana hafi verið gripið vegna sýkinga á minkabúum í Hollandi.
Þar sem enginn grunur hafi komið upp um Sars-CoV-2 smit í minkum eða öðrum dýrum á Íslandi hefur ekki verið talin ástæða til að taka sýni úr dýrunum.
Á heimasíðu MAST er að finna spurningar og svör um smitvarnir í umgengni við við dýr. Sömu varúðarráðstafanir gilda varðandi minka og önnur dýr.
Segja búin gróðrarstíu fyrir sjúkdóma
Í kjölfar frétta af smitunum á minkabúunum í Hollandi hafa dýraverndunarsamtök hvatt stjórnvöld í landinu til að flýta lokun allra minkabúa eins og þegar er stefnt að en þó ekki fyrr en árið 2024. Dýraverndunarsamtökin PETA segja að minkabú, þar sem finna megi veik, hrædd
og særð dýr, séu gróðrarstía fyrir sjúkdóma og minna á að bæði SARS og nýju kórónuveiruna megi rekja til náinna samskipta manna og villtra dýra á mörkuðum þar sem lifandi og dauð dýr eru seld.Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum, skrifar í svari á Vísindavefnum við spurningu um uppruna SARS CoV-2, nýju kórónuveirunnar að um 75 prósent af nýlegum smitsjúkdómum hafa borist frá dýrum í menn. Þar af eiga 70 prósent uppruna sinn í villtum dýrum. Allir heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar hafa komið frá dýrum. Spænska veikin, svo dæmi sé tekið, átti líklega uppruna sinn úr eldisfuglum. Svínaflensan sem geisaði árið 2009 kom líklega einnig úr fuglum en með svín sem líklegan millihýsil.