Í nýrri skýrslu OECD um horfur í efnahagsmálum er gert ráð fyrir að efnahagssamdráttur í heiminum verði sá mesti, utan stríðstíma, í 100 ár. Í skýrslunni eru settar fram tvær sviðsmyndir sem eru taldar vera jafn líklegar. Önnur gerir ráð fyrir að áfram dragi úr útbreiðslu COVID-19, hin sýnir áhrif mögulegrar seinni bylgju.
Ef til annarrar bylgju kemur mun það hafa í för með sér að aftur þarf að grípa til samkomutakmarkana og útgöngubanna. Í spánni er gert ráð fyrir að efnahagslegur samdráttur á heimsvísu muni þá nema alls 7,6 prósentum á árinu. Í þessari sviðsmynd er ekki gert ráð fyrir kröftugri viðspyrnu á árinu 2021, en reiknað er með vexti upp á 2,8 prósent. Atvinnuleysi innan OECD ríkjanna er talið verða 10 prósent í ár innan þessarar sviðsmyndar og að lítið muni draga úr því fyrir lok árs.
Komi ekki til þess að seinni bylgja gangi yfir er gert ráð fyrir að efnahagslegur samdráttur á heimsvísu muni nema 6 prósentum í ár og að atvinnuleysi innan OECD muni nema 9,2 prósentum.
Án annarrar bylgju er því spáð að mestur samdráttur verði í Bretlandi, alls 11,5 prósent. Þar á eftir koma Frakkland, Ítalía og Spánn en reiknað er með að samdrátturinn í löndunum verði rúmlega 11 prósent. Ísland kemur þar næst á eftir og samdrátturinn er talinn verða 9,9 prósent.
Ef til þess kemur að löndin þurfa að takast á við aðra bylgju af faraldri kórónuveiru riðlast röðun fjögurra efstu landana eilítið. Þá er reiknað með að samdrátturinn verði mestur á Spáni, alls 14,4 prósent.
Gera ráð fyrir níu prósenta atvinnuleysi
Í spá OECD hefur möguleg seinni bylgja tiltölulega lítil viðbótaráhrif á íslenskan efnahag samanborið við önnur lönd. Reiknað er með 11,2 prósenta samdrætti gangi önnur bylgja COVID-19 yfir, sem setur Ísland í áttunda sæti innan OECD yfir mestan samdrátt.
Í báðum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að atvinnuleysi nái hámarki í níu prósentum hér á landi í ár og haldist þar út árið en fari svo minnkandi. Almennt atvinnuleysi mælist nú 7,4 prósent en sé hlutabótaleiðin tekin með í reikninginn mælist atvinnuleysi þrettán prósent.
Spá OECD á milli spár Seðlabankans og spár Viðskiptaráðs
Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir að efnahagssamdrátturinn verði meiri heldur en gert var ráð fyrir í svörtustu sviðsmynd Seðlabankans. Sú sviðsmynd gerði ráð fyrir að samdrátturinn gæti orðið 4,8 prósent. Tekið skal fram að sviðsmyndir Seðlabankans voru kynntar í mars síðastliðnum.
Spá OECD gerir þó ekki ráð fyrir jafn miklum samdrætti og spáð var fyrir um í haglíkani Viðskiptaráðs Íslands sem birtist í lok apríl. Þar var gert ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu árið 2020 verði 12,8 prósent.