Frásögn Arnars Gunnars Hilmarssonar, háseta á frystiskipinu Júlíusi Geirmundssyni er „alveg í takt“ við upplifun annarra háseta skipsins af veiðiferðinni þar sem upp komu veikindi sem reyndust vegna COVID-19. Yfirvélstjóri togarans sagði í viðtali við Vísi í gær að hann kannaðist ekki við lýsingar um að skipverjar hefðu verið skikkaðir til að vinna veikir, að fjölmiðlabann hefði verið sett á og að margir hefðu veikst. „Þetta var ekkert svona,“ sagði yfirvélstjórinn Þór Ólafur Helgason við Vísi. „Þetta eru ekki þrælabúðir. Það er enginn skikkaður í vinnu veikur. Ég varð ekki var við alla þessa fárveiku nema einn eða tvo og þeir voru inni og rekinn inn þessi sem var veikastur.“
Þá sagði hann það „bull“ að einhver hefði verið sendur fárveikur út að vinna. COVID-19 væri „grafalvarlegur sjúkdómur“ en að menn yrðu að segja „satt og rétt frá. Ekki búa til einhverjar svona æsifréttir og koma með eitthvað eins og þetta hafi verið svakalegur heragi,“ sagði yfirvélstjórinn að auki.
Spurður út í þessi ummæli yfirvélstjórans segist Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, sem hefur mál hásetanna til meðferðar, ekki vita hvað honum gangi til. „Við funduðum með hásetunum og það sem Arnar sagði er alveg í takt við það sem allir í hópnum sögðu okkur.“
Bergvin segir þetta því ekki aðeins upplifun Arnars heldur allra hinna hásetanna.
Hásetarnir hafa að sögn Bergvins tekið hina „óvægnu og oft á tíðum ósmekklegu umræðu“ á samfélagsmiðlum um málið nærri sér. „Þeir eru þegar búnir að eiga mjög erfiða tíma, túrinn og eftir að þeir komu í land. Þetta er ekki til að bæta ástandið hjá þeim.“
Verkalýðsfélag Vestfirðinga birti í morgun tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem fram kom að staðreyndir málsins einar og sér væru alvarlegar, „en það að kasta fram óábyrgum athugasemdum og fara í persónuárásir gera málinu ekki gagn á neinn hátt og eru frekar til þess fallnar að leiða umræðuna frá staðreyndunum og skapa úlfúð í okkar samfélagi.“ Þess vegna óskar Verkalýðsfélag Vestfirðinga eftir því að við allir tjái sig með ábyrgum hætti og sýni háttvísi.
„Við erum þarna að vísa í almenn komment um málið,“ segir Bergvin við Kjarnann í morgun. „Við erum ekki að hnýta í neinn ákveðinn en við viljum halda þessu á málefnalegum grunni. Það er eina leiðin til að vinna svona mál en ekki með upphrópunum.“
Í morgun hófst fundur forsvarsmanna Verkalýðsfélags Vestfirðinga og annarra félaga sem skipverjarnir á Júlíusi Geirmundssyni tilheyra. Fulltrúar félaga skipstjóra, stýrimanna og vélstjóra eru m.a. á þeim fundi. „Við erum að ráða ráðum okkar,“ segir Bergvin um framhald málsins.
Málið sé litið mjög alvarlegum augum hjá félaginu og verði unnið áfram með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.