Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji greindi frá því í tilkynningu á vef sínum á þriðjudagskvöld að búið væri að aflétta kyrrsetningu togarans Heinaste, sem legið hafði við bryggju í Walvis Bay í Namibíu að kröfu namibískra yfirvalda í rúmt ár. Einnig sagði fyrirtækið frá því að búið væri að ganga frá sölu á skipinu til namibíska útgerðarfyrirtækisins Tunacor Fisheries.
Það sem ekki fylgdi fréttatilkynningu Samherja um málið var það að söluandvirði skipsins verður enn kyrrsett á bankareikningi í Namibíu, sem namibíska ríkið hefur hald í. RÚV greindi frá þessu á fimmtudag, en þeir fjármunir sem fást fyrir skipið verða kyrrsettir til tryggingar mögulegum upptökukröfum vegna sakamáls sem sem rekið er í Namibíu vegna Samherjaskjalanna. Kaupverðið nemur 2,3 milljörðum íslenskra króna.
Einnig fylgdi það ekki sögunni frá Samherja að deilur eru uppi um sölu skipsins til Tunacor Fisheries. Þær eru innan Heinaste Investment Namibia, eignarhaldsfélags um togarann sem félag tengt Samherja á meirihluta í. Namibískir aðilar eiga minnihluta í því félagi og hafa lögmenn á þeirra vegum verið að reyna að koma í veg söluna, án árangurs, að því er virðist.
Togarinn að drabbast niður við bryggjuna
Fregnirnar af afléttingu kyrrsetningar Heinaste vöktu upp einhverjar spurningar í Namibíu, samkvæmt frétt blaðsins Namibian frá því á fimmtudag, ekki síst þar sem að Martha Imalwa ríkissaksóknari landsins gefið út að hún reikni með að félög tengd Samherja og stjórnendur þeirra muni sæta ákærum í Namibíu vegna málsins.
Í fréttinni kom þó ekki fram að kyrrsetja ætti peningana sem fengjust fyrir þessa verðmætustu eign Samherja í Namibíu.
Ríkissaksóknarinn útskýrði í samtali við vefritið Republikein að það hefði ekki verið hennar ákvörðun að aflétta kyrrsetningu Heinaste, heldur lögreglunnar, sem var með skipið kyrrsett á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi.
Á ríkissaksóknaranum er þó að skilja að það hafi verið ágætis lending að aflétta kyrrsetningunni, þar sem það hafi bæði verið kostnaðarsamt fyrir namibíska ríkið að halda verksmiðjutogaranum við bryggju í Walvis Bay og einnig hafi þetta verðmæta atvinnutæki verið að drabbast niður við hafnarkantinn í stað þess að nýtast við að sækja fisk á namibísk fiskimið.
Tvær kyrrsetningar
Það vakti mikla athygli hér á landi þegar fregnir bárust af því 20. nóvember í fyrra að Heinaste hefði verið kyrrsettur. Kyrrsetningin virtist vera á mjög óljósum grundvelli, vegna ólögmætra veiða á hrygningarsvæði við strendur Namibíu sem átti að vera lokað fyrir veiðum. Sakarefnið virtist þannig ekkert tengt Samherjaskjölunum, sem þá höfðu viku fyrr verið til umfjöllunar bæði hér á landi og í Namibíu.
Íslenskur skipstjóri Heinaste var handtekinn og sætti farbanni í Namibíu þar til búið var að dæma hann til þess að greiða andvirði 7,9 milljóna íslenskra króna í reiðufé í sekt fyrir þessar ólögmætu veiðar. Þetta var 5. febrúar og þegar sektin var greidd var skipstjórinn frjáls ferða sinna og kyrrsetningu Heinaste aflétt.
Eða svo virtist vera.
Þann 7. febrúar sagði Kjarninn frá því að Heinaste hefði verið kyrrsettur á ný og nú á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi, ekki brota á fiskveiðilöggjöfinni eins og í fyrra skiptið. Ljóst varð að áætlanir sem Samherji hafði kynnt í fréttatilkynningu degi fyrr, um að gera ætti Heinaste út með því að leigja hann namibískum aðilum, væru í uppnámi. Samherji sagði þessa seinni kyrrsetningu með öllu ólögmæta.
Hin skipin sigldu á brott
Dagana áður en Heinaste var kyrrsettur í síðara skiptið höfðu namibískir fjölmiðlar greint frá því að spillingarlögreglan í Namibíu (ACC) hefði ráðlagt stjórnvöldum að leyfa skipum Samherja ekki að sigla frá landinu nema lögregla yrði látin vita. Þrátt fyrir það fóru tvö af þremur skipum Samherja á brott úr namibískri lögsögu og hafa ekki snúið aftur.
Namibísk yfirvöld töldu rökstuddan grun um að áform væru uppi um að færa Heinaste einnig úr namibískri lögsögu, en togarar sem áður hétu Saga og Geysir höfðu farið úr landinu í upphafi febrúarmánaðar og voru sagðar fréttir um að skipverjar hefðu fengið boð um að sækja eigur sína í togarana með skömmum fyrirvara.
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja, fjallaði um Sögu og Geysi í tilkynningu á vef Samherja 6. febrúar. Þá sagði hann að Saga væri á leið í slipp vegna tímabærs viðhalds og að Geysir væri við veiðar við strendur Máritaníu þar sem ekkert af dótturfyrirtækjum Samherja hefði fengið kvóta fyrir skipið í Namibíu.
Kjarninn sagði svo frá því í lok júlí að bæði skipin væru komin með ný nöfn og beindi spurningum til Samherja um það hvort breytingar hefðu orðið á eignarhaldi togaranna tveggja.
Þeim spurningum var ekki svarað, þrátt fyrir fyrri orð forstjóra Samherja um að allar ákvarðanir sem tengdust því að Samherji væri að hætta rekstri í Namibíu yrðu teknar í samráði við þar til bær stjórnvöld og að greint yrði opinberlega frá framvindu málsins jafnóðum.