Skipstjóri togarans Júlíusar Geirmundssonar hefur verið ákærður fyrir brot á sjómannalögum vegna kórónuveiruhópsýkingar sem varð þar um borð í október. Frá þessu er greint á vef RÚV en það er lögreglan á Vestfjörðum sem gefur út ákæruna.
Í þeirri grein sjómannalaga sem skipstjórinn er ákærður fyrir að brjóta gegn segir að veikist skipverji eða slasist skuli skipstjóri sjá um að hann fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi. Ef ástæða er talin að ætla að einhver um borð sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafi af fyrir aðra skuli skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land, ef ekki reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.
Skipið lét hins vegar landhelgisgæsluna ekki vita af hugsanlegu hópsmiti, auk þess sem ekki var farið strax í land eftir að upp komst um veikindin.
Samkvæmt Arnari Gunnari Hilmarssyni háseta á togaranum voru menn einnig skikkaðir til að vinna veikir á meðan á túrnum stóð.
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf, sem gerir út Júlíus Geirmundsson, sendi svo frá sér yfirlýsingu seint í kjölfar þess að málið rataði í fjölmiðla þar sem beðist var afsökunar á því að ekki hafa verið í sambandi við Landhelgisgæsluna eins og leiðbeiningar gerðu ráð fyrir.