Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels tilkynnti á blaðamannafundi í gær að allir ísraelskir ríkisborgarar, 16 ára og eldri, gætu fengið bólusetningu fyrir lok mars, samkvæmt samningi sem hann hefði náð við forstjóra lyfjarisans Pfizer.
Samkvæmt frétt miðilsins Times of Israel snýst samningurinn um að Ísrael verði „fyrirmyndarland“ Pfizer, sem myndi fá tölfræðigögn um virkni bóluefnisins í landinu.
Svipaðar hugmyndir hafa verið viðraðar af Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Kára Stefánssyni forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og greint var frá því fyrir jól að þeir hygðust funda saman með forsvarsmönnum Pfizer núna í upphafi nýs árs.
Sóttvarnalæknir hefur sagt að hugmynd að því að Ísland gæti orðið „rannsóknarsetur fyrir fasa IV rannsókn þar sem að stærsti hluti þjóðarinnar yrði bólusettur á stuttum tíma“ hafi verið „viðruð í tölvupósti sóttvarnalæknis til fulltrúa Pfizer“ þann 15. desember.
Sautján símtöl
Netanjahú sagði frá því á blaðamannafundi að hann hefði komist að samkomulagi við Pfizer með hvorki fleiri né færri en sautján símtölum við Albert Bourla, forstjóra lyfjarisans.
„Við getum gert þetta af því að heilbrigðiskerfi okkar er á meðal þeirra þróuðustu í heimi,“ hefur Times of Israel eftir forsætisráðherranum.
Hann fullyrti að allir Ísraelar yfir 16 ára aldri ættu að geta fengið bólusetningu fyrir lok marsmánaðar. Ef ekkert óvænt kæmi upp á gætu Ísraelar haldið upp á páskahátíð gyðinga þann 27. mars með stórfjölskyldunni.
Palestínumenn skildir eftir
Íbúar í Ísrael eru tæplega 9 milljón talsins, en til viðbótar búa fleiri en 5 milljónir manna á hernumdum svæðum Palestínumanna, Vesturbakkanum, Austur-Jerúsalem og Gaza-ströndinni.
Ísraelar hafa ekki í hyggju að bólusetja Palestínumenn með bóluefninu sem kemur frá Pfizer. Það hefur verið harðlega gagnrýnt og bent hefur verið á að Ísraelar verði samkvæmt alþjóðalögum að sjá fólkinu á hernumdu svæðunum fyrir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Því hafa stjórnvöld í Ísrael neitað og sagt heimastjórn Palestínumanna bera ábyrgð á bólusetningum.
Heimastjórnin treystir samkvæmt frétt miðilsins Mondoweiss á að fá bóluefni í gegnum bóluefnasamstarf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Það mun taka lengri tíma.
Pfizer var búið að falast eftir gögnum frá Ísrael
Eins og Kjarninn sagði frá nýlega hefur Ísrael farið hratt af stað í bólusetningunni, hraðar en nokkuð annað ríki heims.
Fyrir viku síðan var búið að bólusetja milljón manns og í gær var búið að bólusetja tæplega 1,6 milljón manna, eða tæp 18 prósent Ísraela, samkvæmt frétt Bloomberg. Hlutfallslega er það miklu mun meira en í nokkru öðru landi.
Í frétt Times of Israel segir að greint hafi verið frá því í öðrum miðlum að Pfizer hafi falast eftir því að fá gögn frá Ísrael um virkni bólusetninganna, en Ísrael hafi neitað lyfjarisanum um aðgang að gögnum um bólusetningarnar – þar til í gær.
Í staðinn fyrir að láta gögn af hendi og gera Pfizer kleift að fylgjast með og rannsaka fær Ísrael meira af bóluefni frá Pfizer og fyrr en áætlað var.
Athugasemd ritstjórnar: Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum sem varða bólusetningar Palestínumanna á hernumdum svæðum Vesturbakkans, Austur-Jerúsalem og Gaza.