Oddviti og sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar fengu afhent í gær mótmælaskjal gegn vindorkuveri á Brekkukambi, undirritað af 1.709 íbúum, sumarhúsaeigendum og öðrum velunnurum sveitar og náttúru. Arnfinnur Jónasson, einn þeirra sem staðið hefur að undirskriftasöfnuninni síðustu vikur, afhenti undirskriftirnar og bentu oddviti og sveitarstjóri við það tækifæri á að umsögn nefndar umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðar hefði verið einróma samþykkt á fundi sveitarstjórnar nú í vikunni.
Í umsögninni, sem er mjög ítarleg, eru fjölmargar athugasemdir gerðar við matsáætlun fyrirtækisins Zephyr Iceland ehf. um vindorkuver sem áformað er í landi Brekku, uppi á hæsta fjalli Hvalfjarðarstrandarinnar. Verið myndi telja 8-12 risastórar vindmyllur sem mögulega yrðu 250 metrar eða hærri, skammt frá bæjum og sumarhúsabyggðum en vegna þess í hversu mikilli hæð stefnt er á að byggja orkuverið og hversu háar myllurnar yrðu myndi það sjást mjög víða að; úr nærliggjandi dölum, frá Þingvöllum og Langjökli, svo nokkur dæmi séu tekin.
Sveitarstjórnin vill mun nákvæmari gögn af ýmsum toga um fyrirætlanirnar, telur fjölmargt vanta upp á, t.d. hvað varðar rannsóknir á fuglalífi og veðurfari og mögulega ásýnd orkuversins frá mörgum sjónarhornum.
Tugir athugasemda bárust Skipulagsstofnun við matsáætlunina í sumar frá fólki sem býr á svæðinu, ýmist á bújörðum, ferðaþjónustubæjum eða í frístundahúsum hluta úr ári. Þær eru allar á einn veg: Slá ætti áformin út af borðinu.
Zephyr Iceland hefur ekki verið í neinum beinum samskiptum við sveitarstjórn vegna málsins og sagði sveitarstjóri í samtali við Kjarnann nýverið að áformin stönguðust á við gildandi aðalskipulag, að nýtt aðalskipulag, sem er í vinnslu, gerði ekki ráð fyrir orkuveri á þessum stað og benti ennfremur á að ríkisstjórnin yrði að setja ramma um virkjun vindsins áður en að ákvarðanir yrðu teknar um framhaldið. Sú vinna er í gangi, starfshópur hefur verið skipaður, og á hann að skila tillögum til stjórnvalda í febrúar á næsta ári.
Í matsáætlun greinir framkvæmdaaðili frá því hvernig hann ætli sér að haga mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í umsögn sveitarfélaga við matsáætlun skulu koma fram athugasemdir um hvernig framkvæmdaaðili hyggst vinna að umhverfismatinu, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun og úrvinnslu gagna. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum sveitarfélagið telur að gera þurfi frekari skil eða hafa þurfi sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar.
Í umsögn sveitarfélagsins er farið rækilega ofan í mörg atriði og ljóst að ætlast er til mun ítarlegri greininga og gagna í næsta skrefi umhverfismats en matsáætlun Zephyr gerir ráð fyrir.
Hvalfjarðarsveit áréttar í fyrsta lagi stefnu sveitarfélagsins í aðalskipulagi, þar sem ekki er gert ráð fyrir vindorkuverinu og bendir svo á að í nýju aðalskipulagi sem gilda á til ársins 2032 segi m.a.: Utan þéttbýlis verður almennt haldið í dreifbýlisyfirbragð byggðar, s.s. eins og að byggingar verði ekki áberandi í landi vegna stærðar eða hæðar. Ennfremur komi fram að virkjanir skulu að öllu jöfnu vera á skilgreindu iðnaðarsvæði. Í viðauka eru auk þess sýnd friðlýst svæði þar sem vindmyllur skulu ekki vera staðsettar og svæði sem þarf að skoða sérstaklega, þ.e.a.s. mikilvæg fuglasvæði og óbyggð víðerni. „Ekki er gert ráð fyrir iðnaðarsvæði á Brekkukambi,“ segir sveitarfélagið. „Svæðið er auk þess í nágrenni við skipulagða frístundabyggð, landbúnaðarsvæði, hverfisverndarsvæði og svæði á B-hluta náttúruminjaskrár. Það er því ljóst að hugmyndirnar sem kynntar eru í matsáætluninni myndu kalla á breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.“
Gögn af Mosfellsheiði ekki nóg
Sveitarstjórnin gerir svo margháttaðar athugasemdir við hvernig Zephyr hyggist standa að umhverfismatinu. Í matsáætlun kemur fram að frumathuganir á veðurfari á Mosfellsheiði gefi „góðar vísbendingar“ um aðstæður á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði á Brekkukambi og því haldið fram, líkt og sveitarstjórnin bendir á umsögn sinni, að góðar líkur séu á því að svipaðar vindaðstæður séu á hálendinu innan Brekku. „Hvalfjarðarsveit telur afar mikilvægt að safna raungögnum á umræddu framkvæmdasvæði, ekki sé fullnægjandi að styðjast við gögn annars staðar frá. Bent er á veðurstöð í landi Þyrils, en þar getur orðið gríðarlega hvasst og vindhraði þar oft með því mesta á landinu. Ekki kemur fram í gögnum hvort slíkar aðstæður séu ákjósanlegar þegar velja skal stað fyrir vindmyllur.“
Einnig kemur fram í matsáætlun að nú þegar liggi vegslóðar að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Óskar Hvaljarðarsveit eftir upplýsingum um hvort samþykkis landeigenda hefur verið aflað. Varðandi verndarsvæði, vistkerfi, votlendi og vistgerðir sem hafa mjög hátt verndargildi, er ekki ásættanlegt að mati Hvalfjarðarsveitar að vísa til þess að nú þegar liggi vegslóðar um votlendið. „Framkvæmdirnar sem fyrirhugaðar eru í matsáætluninni, eru af þeirri stærðargráðu að huga þarf vel að verndun viðkvæmra og mikilvægra vistgerða, vistkerfa og ekki síður dýralífs, eins og fugla, en Hvalfjörður er afar mikilvægt búsvæði fyrir fugla.“
Þá er minnt á að Ísland sé aðili að Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu. Til viðbótar nefnir sveitarstjórnin í umsögn sinni að í stefnumótunar- og leiðbeiningarriti Landverndar um virkjun vindorku á Íslandi sé lagst gegn því að vindorkuver verði reist innan svæða á náttúruminjaskrá.
Sveitarstjórnin gagnrýnir ennfremur að Zephyr ætli sér ekki að gera ratsjármælingar á fuglalífi þar sem svæðið sem reisa á vindorkuverið á sé ekki flokkað sem mikilvægt fuglasvæði. Engu að síður er fjallað um þá staðreynd í matsáætluninni að Hvalfjörðurinn sjálfur sé vissulega mikilvægt fuglasvæði.
„Þetta stangast á, fuglar eru færanlegir og því er nauðsynlegt m.a. vegna nálægðar við mikilvægt fuglasvæði að þessar ratsjármælingar fari fram,“ segir í umsögn sveitarfélagsins.
Sjónrænu áhrif versins eru svo sérstaklega tekin fyrir í umsögninni. Bent er á að fyrirhugað framkvæmdasvæði á Brekkukambi standi í 647 metra hæð og að vindmyllurnar geti orðið allt að 274 metrar. Því telur sveitarfélagið „afar brýnt“ að þessum þáttum séu gerð góð skil við umhverfismatið. Mikilvægt sé að lögð séu til grundvallar góð gögn sem auðveldi fólki að átta sig á umfangi framkvæmdarinnar út frá þessum sjónrænu þáttum, en ljóst er að sjónrænna áhrifa mun gæta langt út fyrir framkvæmdasvæðið.
Varðandi samráð og samtal við almenning, staðkunnuga og hagsmunaaðila vegna áætlaðra myndatökustaða, leggur sveitarfélagið ríka áherslu á slíkt samráð. „Fljótt á litið virðist þurfa að fjölga myndatökustöðum vegna sýnileikagreiningar, þar sem sýnileiki vindmyllanna er mjög mikill vegna hæðar þeirra og hversu hátt fyrirhugað framkvæmdasvæði liggur.“
Í matsáætlun komi fram að taka eigi myndir til að varpa ljósi á sýnileikann frá sumarhúsabyggð í næsta nágrenni en sveitarstjórnin vill ganga mun lengra og bendir á önnur skipulögð frístundasvæði í sveitarfélaginu þar sem áhrifa vindmyllugarðsins gætir, svo sem í Svínadal og jafnvel víðar. „Áhrif á þessi svæði þarf einnig að meta.“ Að sama skapi þurfi að meta áhrif skuggaflökts á stærra svæði en fram komi í matsáætluninni.
Í kafla um hljóðvist er talað um að framkvæmdasvæðið sé óbyggt. „Það er vissulega rétt,“ bendir sveitafélagið á í umsögn sinni, „en áhrifanna mun gæta í byggð, enda föst búseta og frístundabyggðir í mikilli nálægð við fyrirhugað framkvæmdasvæði, eða í um 2 km fjarlægð. Hvalfjarðarsveit óskar eftir nánari upplýsingum um hljóðvist á þessu stigi máls og rökum fyrir því að einungis skuli rannsaka hljóðvist á 1-2 vikna tímabili.“
Þá telur sveitarfélagið rétt að fasteignaeigendur í nágrenni við framkvæmdasvæðið verði skilgreindir sem hagsmunaaðilar, þótt þeir séu ekki með lögheimili í sveitarfélaginu. Eigi þetta við um sumarhúsaeigendur og mögulega aðra fasteignaeigendur, rekstraraðila og fyrirtæki þar sem áhrifa vindorkuversins myndi gæta.
Skipulagsstofnun mun, er allar umsagnir liggja fyrir, gefa álit sitt á matsáætlun Zephyr Iceland um vindorkuver á toppi Brekkukambs, að fengnum viðbrögðum fyrirtækisins við athugasemdum.