Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vill selja það sem eftir mun standa af eignarhlut Íslandsbanka við fyrsta tækifæri á næsta kjörtímabili. Til stendur að selja allt að 35 prósent af hlut ríkisins í bankanum í júní og samhliða mun Íslandsbanki vera skráður á hlutabréfamarkað.
Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Bjarna ríkið sé skuldbundið samkvæmt skilmálum hlutafjárútboðsins að selja ekki fleiri hluti í hálft ár eftir fyrstu sölu. „Ef ég fengi einhverju um það ráðið þá myndum við klára þennan áfanga og við myndum nota fyrsta tækifæri á nýju kjörtímabili til að halda áfram að losa okkur við eignarhluti í bankanum.“ Það verði verkefni næsta kjörtímabils.
Bjarni segist líka vilja selja 35 til 50 prósent hlut í Landsbankanum, sem ríkið á líka. Sá hlutur sem ríkið myndi halda væri til þess fallið að tryggja að á Íslandi yrði áfram höfuðstöðvar banka.
Var í stjórnarsáttmála
Sú ríkisstjórn sem mynduð var undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur í nóvemberlok 2017 hefur haft það markmið, staðfest í stjórnarsáttmála, að leita leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum.
Til að vinna að þessu markmið var skipaður hópur til að skrifa Hvítbók um fjármálakerfið. Hann skilaði skýrslu sinni í desember 2018. Tvær helstu niðurstöður hennar eru að fjármálakerfið sé samfélagslega mikilvægt og að traust sé undirstaða þess að það virki sem skyldi. Það sé síðan hlutverk ríkisins að tryggja umgjörð sem stuðli að verðskulduðu trausti.
Á grunni þessarar niðurstöðu hófu stjórnvöld nánast samstundis að reyna að selja eignarhluti í ríkisbönkunum tveimur.
Í september 2019 lagði Bankasýsla ríkisins til að fjórðungshlutur í Íslandsbanka yrði seldur.
Íslenskir kaupendur sennilegastir
Um miðjan mars 2020 afturkallaði Bankasýsla ríkisins tillögu um að hefja söluferlið. Sala banka væri ekki raunhæf vegna efnahagslegra aðstæðna á Íslandi og alþjóðavettvangi vegna kórónuveirufaraldursins.
Málið var skyndilega endurvakið 17. desember síðastliðinn, degi áður en að Alþingi fór í jólafrí. Það gerðist þannig að Bankasýsla ríkisins – stjórn hennar og forstjóri – sendu tillögu til Bjarna Benediktssonar um að selja hlut í Íslandsbanka í gegnum skráningu á íslenskan markað.
Fjórum dögum síðar sendi Bjarni, ásamt ráðuneytisstjóra sínum, bréf til Bankasýslunnar og samþykkti tillöguna. Samhliða var send greinargerð til Alþingis og nefndarmönnum í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd gefin mánuður til að skila inn umsögn um málið. Hún átti að berast 20. janúar, eða tveimur dögum eftir að fyrsti þingfundur eftir jólafrí fór fram.
Greinargerðin opinberaði það að ekki átti lengur að freista þess að finna erlenda aðila til að kaupa í Íslandsbanka. Það þætti ekki líklegt til árangurs. Svokallað samhliða söluferli var því aflagt og ákveðið að skrá Íslandsbanka einungis á markað á Íslandi, ekki tvískrá líka erlendis eins og upp var lagt með til að byrja með.
Kaupendur af þessu kerfislega mikilvæga fyrirtæki, sem átti við síðasta uppgjör eigið fé upp á 185 milljarða króna, eiga því að vera íslenskir fjárfestar. Og hann verður skráður í íslenska kauphöll einvörðungu.
Hið formlega ferli
Þær tvær nefndir Alþingis sem þurftu að skila umsögn um greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna bankasölunnar, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, seint í janúar.
Meirihluti í báðum nefndum var skipaður einvörðungu stjórnarþingmönnum og þeir komust að samhljóma niðurstöðu. Selja ætti 25 til 35 prósent hlut í bankanum ef rétt verð fengist fyrir og hámarka ætti hlut hvers kaupanda við 2,5 til 3,0 prósent. Skoða ætti að greiða út arð úr Íslandsbanka áður en hlutur í bankanum yrði seldur en eigið fé hans umfram 17 prósent kröfu Fjármálaeftirlitsins var tæplega 58 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Ekki liggur alveg skýrt fyrir hversu mikið af því er útgreiðanlegt sem stendur og það þarf að meta. Stjórnarandstöðuflokkarnir voru ósammála nálgun ríkisstjórnarinnar og sá eini þeirra sem var skýrt á þeirri skoðun að selja ætti hlut í Íslandsbanka nú var Viðreisn, en fulltrúi flokksins í nefndunum vildi að einhverju leyti aðra aðferðarfræði við söluna.
Í kjölfarið hófst hið formlega söluferli sem mun ljúka í júní með hlutafjárútboði og skráningu á markað.