Stjórn KSÍ hefur samþykkt að haft sé að leiðarljósi það meginviðmið, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir jafnt um dómara, þjálfara, leikmenn, forystumenn, starfsmenn og aðra þá sem eru innan KSÍ.
Þetta kemur fram á vef KSÍ í dag.
Þar segir að á fundi stjórnar KSÍ þann 19. maí síðastliðinn hafi verið rætt um skýrslu starfshóps KSÍ og viðbrögð KSÍ. Einnig hafi verið rætt um skýrslu starfshóps ÍSÍ um verkferla, vinnubrögð og viðmið í íþróttahreyfingunni.
Málið var rætt á fundinum en frekari umræðu var frestað til framhaldsfundar stjórnar 23. maí en á þeim fundi var ályktunin samþykkt og tekur hún strax gildi
„Stjórn KSÍ mun ræða önnur atriði í drögunum áfram og mun jafnframt óska eftir aðkomu laga- og leikreglnanefndar. Stjórn KSÍ leggur mikla áherslu á að vandað sé til verka og að málið sé áfram unnið af ábyrgð, fagmennsku og yfirvegun,“ segir á vef sambandsins.
„Ég sem þjálfari vinn bara undir þessum verkreglum“
Arnar Þór Viðarsson þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu tilkynnti fyrr í dag leikmannahópinn fyrir þrjá leiki gegn Ísrael og Albaníu og vináttulandsleik gegn San Marínó sem fram fara 2. til 13. júní næstkomandi.
Hann segir í samtali við fotbolti.net að það hafi verið léttir að fá ramma frá stjórninni til að fara eftir við ákvörðun um það hverjir væru í liðinu.
„Það hefur ekki verið skemmtilegt að þurfa sigla framhjá ákveðnum hlutum. Aron Einar fellur enn undir þessari ákvörðun stjórnar. Ég sem þjálfari vinn bara undir þessum verkreglum," bætti Arnar við í samtali við fotbolta.net.
Kærir niðurfellingu héraðssaksóknara
Héraðssaksóknari lét mál Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar, þar sem sem þeir voru sakaðir um hópnauðgun árið 2010, niður falla fyrr í mánuðinum en málið var umtalað í fjölmiðlum á sínum tíma.
Konan sem kærði knattspyrnumennina tvo fyrir hópnauðgun síðastliðið haust hefur aftur á móti kært niðurfellingu héraðssaksóknara. Þetta staðfesti Ómar Smárason, yfirmaður samskiptadeildar KSÍ, að loknum fjölmiðlafundi í höfuðstöðvum sambandsins rétt í þessu. Mbl.is greinir frá.
Höfðu upplýsingar um ofbeldi en svöruðu með villandi hætti
Skýrsla nefndar sem Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) skipaði til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengdust leikmönnum í landsliðum Íslands var birt í desember í fyrra. Þar kom meðal annars fram að KSÍ hefði fengið upplýsingar um meinta hópnauðgun tveggja landsliðsmanna fyrir ellefu árum síðan í byrjun júní á síðasta ári. Eftir tilkynningu þar um frá starfsmanni sambandsins, tengdamóður þolandans, var meðal annars rætt við annan gerandann. Samt ákvað KSÍ að hlíta ráðleggingu almannatengslafyrirtækis og svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið með villandi hætti.
Að mati nefndarinnar mátti til sanns vegar færa að yfirlýsingarnar hefðu borið með sér ákveðin merki þöggunar- og nauðgunarmenningar, þar sem því var í reynd hafnað í yfirlýsingunum að mál kvennanna hefðu komið til vitundar KSÍ.
Guðni Bergsson sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfarið að hann hefði borið ábyrgð á viðbrögðum sambandsins, vegna þeirra ofbeldismála sem komu upp í formannstíð hans. Sömu sögu væri að segja um miðlun upplýsinga til fjölmiðla og almennings. „Þar hefði ég getað gert betur.“