Milljónirnar sem streymdu inn á reikninga fyrirtækja í eigu Tamson „Fitty“ Hatuikulipi á árunum 2012 og 2019 voru vegna ráðgjafastarfa fyrir Samherja. Upphæðirnar námu yfir 700 milljónum króna á núvirði og voru greiddar af Mermaria Seafood, namibísku félagi Samherja. „Fitty“ segist svo sjálfur hafa séð um að greiða frænda sínum James Hatuikulipi, stjórnarformanni ríkisútgerðarinnar, fyrir sína aðstoð. Ráðgjafastörf þeirra frænda fólust í því að sannfæra handhafa hrossamakrílskvóta um að semja við Samherja um nýtingu réttindanna.
Þetta er meðal þess sem Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, tengdasonur Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu og frændi James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanns ríkisútgerðarfyrirtækisins Fischor, sagði fyrir dómi í Windhoek, höfuðborg Namibíu. í gær. Hann ásamt fjölda annarra er ákærður fyrir spillingu í tengslum við málið sem hér á landi er ýmist kallað Samherjamálið eða Namibíumálið.
Málið, sem snýst um meinta skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja og tengdra aðila, hófst með umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazzera í nóvember árið 2019 um hvernig viðskiptahættir Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu og Angóla, voru árin á undan er fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í löndunum. Samkvæmt umfjölluninni var það gert með mútugreiðslum til ráðamanna og annarra manna úr þeirra nánasta hring. Upphaflega var sagt að þær hefðu numið 1,4 milljarði króna hið minnsta og hófust með því að reiðufé var afhent í íþróttatöskum en tóku svo á sig faglegri mynd og fóru fram í gegnum millifærslur á reikninga í Dúbaí.
Hatuikulipi var handtekinn það sama ár og hefur verið í fangelsi síðan. Hann leitast nú eftir því að verða sleppt úr haldi gegn tryggingu í ljósi nýrra gagna sem hann segist hafa lagt fyrir dómarann. Vitnisburður hans er rakinn ítarlega í frétt namibíska fjölmiðilsins New Era.
Hatuikulipi segist hafa hitt Jóhannes Stefánsson, þáverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu, á hóteli í Windhoek árið 2011. Jóhannes hafi sagt honum að Samherji vildi hefja útgerð í Namibíu og væri að leita að samstarfsaðilum í landinu. Jóhannes hafi svo lýst fjárhagskröggum sem hann væri í vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu og að hann væri að leita leiða til að bæta mannorð sitt.
Jóhannes hafi svo kynnt hann síðar fyrir tveimur öðrum yfirmönnum hjá Samherja, þeim Ingvari Júlíussyni og Aðalsteini Helgasyni. Hann hafi verið spurður út í möguleika á því að komast yfir fiskveiðiheimildir í Namibíu og beðinn um að kynna yfirmennina fyrir rétthöfum slíkra heimilda í von um samstarf.
Hatuikulipi segist hafa samþykkt að aðstoða þá. Þeirri ákvörðun hafi verið fylgt eftir með viljayfirlýsingu milli hans og Kötlu Fishing, dótturfyrirtækis Samherja, í desember árið 2011.
Í fyrstu segir hann hlutverk sitt hafa verið að hafa uppi á kvótahöfum og sannfæra þá um að ganga til samstarfs við Samherja. Það hafi ekki verið auðvelt verkefni, segir hann, því aðrir útgerðaraðilar hafi verið á reyna slíkt hið sama og „baktalað“ Samherja.
Hatuikulipi segist hafa leitað til frænda síns, James Hatuikulupi, sem þá var stjórnarformaður namibíska ríkisútgerðarfyrirtækisins. Í byrjun árs 2012 hafi hann svo kynnt frænda fyrir yfirmönnum Samherja. Þeir hafi sagst þurfa að semja við að minnsta kosti þrjá handhafa aflaheimilda.
Hatuikulipi segir þá frændur hafa lagt mikið á sig og að endingu náð að sannfæra tvo slíka handhafa um að semja við Samherja um aflaheimildirnar. Í febrúar 2012 hafi fyrsta skip Samherja, mannað namibískri áhöfn, farið til veiða.
Í september árið 2013 hafi kvótahafarnir tveir samið við Samherja til lengri tíma og árið 2014 segist Hatuikulipi hafa tekist að sannfæra þriðja kvótahafann um að semja við Samherja.
Samherji hafi, í gegnum namibíska félagið Mermaria Seafood, greitt ráðgjafafyrirtækjum hans 76 milljónir namibískra dollara, rúmlega 700 milljónir króna á núvirði, fyrir þessi störf hans. Hann hafi svo sjálfur greitt frænda sínum James fyrir sitt framlag. Síðasta greiðslan frá Samherja hafi verið gerð í september árið 2019.
Jóhannes hafi einnig beðið hann um að leita á ný mið. Hafi hann þá leitað til manns sem þekkti vel til sjávarútvegsins í nágrannaríkinu Angóla. Í kjölfar þess hafi Samherji tryggt sér samninga við kvótahafa þar í landi.
Hatuikulipi er ásamt öðrum, m.a. tveimur fyrrverandi ráðherrum Namibíu, ákærður fyrir fjölda meintra brota á lögum um spillingu, m.a. peningaþvætti og skattaundanskot. Ákæruvaldið telur að þeir hafi þegið mútur fyrir að tryggja Samherja aðgang að fiskveiðikvóta í Namibíu.
Rannsóknin á Íslandi
Málið er einnig rannsakað hér á landi. Átta manns hið minnsta hafa haft réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara frá því að fyrsta lota þeirra hófst sumarið 2020. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Aðrir sem kallaðir hafa verið inn til yfirheyrslu og fengið stöðu sakbornings við hana eru Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu,Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Samherjamálinu varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“
Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár.