Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi Ísteka ehf. fyrir starfsstöð á Eirhöfða 13 og 15 í Reykjavík. Ísteka framleiðir hormónalyf sem notuð eru í búfjárrækt úr blóði sem tekið er úr fylfullum hryssum.
Starfsleyfistillagan var auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar 28. febrúar til 28. mars síðastliðinn. Starfsemin sem um ræðir er nátengd starfsemi Ísteka að Grensásvegi 8, segir í frétt á vef stofnunarinnar, og felur hið nýja leyfi ekki í sér útvíkkun á þeirri starfsemi. Tekið er sérstaklega fram í leyfinu að starfsemin að Eirhöfða skuli rúmast innan þeirra heimilda er koma fram í nýlega útgefnu starfsleyfi fyrirtækisins að Grensásvegi. Samkvæmt því er Ísteka heimilt að framleiða lyf úr allt að 600 tonnum af blóði hryssa á hverju ári. Úr þessu blóðmagni eru framleidd 20 kíló af lyfjaefni.
Í fyrra var fyrirtækinu heimilt að framleiða helmingi minna magn, eða tíu kíló á lyfjaefni á ári, lyfi sem er fyrst og fremst notað að auka frjósemi svína og fleiri húsdýra í landbúnaði, líkt og Kjarninn fjallaði ítarlega um er Ísteka gerði grein fyrir fyrirhugaðri framleiðsluaukningu í tilkynningu til Skipulagsstofnunar.
Starfsleyfið nær ekki til öflunar blóðs, segir í frétt Umhverfisstofnunar, heldur felur það í sér skilyrði um stjórnun á losun mengunarefna og vöktun. Matvælastofnun er með eftirlit með lögum um dýravelferð.
„Talið var nauðsynlegt að aðgreina starfsemina og gefa út tvö starfsleyfi í stað eins vegna ákvæða aðalskipulags Reykjavíkurborgar,“ segir í frétt Umhverfisstofnunar um ástæður þess að tvö starfsleyfi hafa nú verið gefin út á starfsemi Ísteka.
Leyfisskyld starfsemi er að því er fram kemur í fréttinni „víkjandi“ á Eirhöfða þegar litið er til lengri tíma og er ekki hægt að veita leyfi þar nema að hámarki til sex ára samkvæmt áliti borgarinnar eða til ársins 2028. Engar umsagnir bárust á auglýsingatíma.
Starfsleyfi Ísteka ehf. á Grensásvegi gildir hins vegar til ársins 2038. Þegar það var auglýst í lok síðasta árs bárust umsagnir og athugasemdir frá 237 aðilum. Endurnýjað starfsleyfi fyrir Grensásveg var gefið út í janúar.
Fyrirtækið Ísteka hefur sætt harðri gagnrýni síðustu mánuði eftir að uppljóstrað var um skelfilega meðferð á hryssum sem notaðar eru til blóðtökunnar í þætti sem þýsk dýraverndunarsamtök birtu í nóvember. Matvælastofnun gerði eigin rannsókn á málinu, sem snerti fleiri en einn bæ, og var því að henni lokinni vísað til lögreglu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem blóðmerahald hér á landi er gagnrýnt. Kjarninn greindi frá því í febrúar að á fimm ára tímabili hafi blóðtöku fylfullra hryssa verið hætt á átta bæjum vegna vanfóðrunar og slæms aðbúnaðar dýranna. Að auki hafa þrír blóðmerabændur á sama tímabili ákveðið að hætta blóðtöku vegna vægari athugasemda Matvælastofnunar.
Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu.