Lögreglan heldur ekki sérstaklega utan um mál þar sem afskipti lögreglu má mögulega rekja til kynþáttamörkunar (e. racial profiling), það er þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunum gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum.
Upplýsingar um slík mál, þar sem kynþáttamiðuð löggæsla eða kynþáttamörkun hafi mögulega komið við sögu, er þó hægt að nálgast með leit í kerfi lögreglu þar sem öll verkefni lögreglu eru skráð, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra.
Það væri meðal annars hægt að gera með því að leita að málum þar sem lögregla hefur afskipti af einstaklingi sem reynist svo ekki vera sá einstaklingur sem leitað er að, líkt og gerðist í apríl þegar lögregla hafði í tvígang afskipti af ungum dreng vegna leitar að tvítugum fanga sem strauk úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Ekki hægt að ráðast í þá vinnu að leita í allri málaskrá lögreglu
Í svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans hvort haldið sé utan um mál þar sem kynþáttamörkun komi við sögu segir að svo sé ekki. Eins og fyrr segir eru öll mál skráð í kerfi lögreglu en upplýsingar um hörundslit þeirra sem lögregla hefur afskipti af eru ekki markvisst skráðar. Hægt er að setja slíkar upplýsingar í almennt textasvæði „sé talin þörf á því í þeim tilvikum þar sem verið er að lýsa eftir fólki og það skiptir máli að lýsing á grunuðum liggi fyrir,“ að því er segir í svari embættis ríkislögreglustjóra. Það er því hægt að taka saman upplýsingar þar sem grunur leikur á kynþáttamörkun en í svari embættisins segir að ekki sé „hægt að fara í slíka vinnu“.
Athygli vakti þegar 16 ára drengur var stöðvaður af lögreglu í tvígang, dag eftir dag, vegna ábendinga frá almenningi um að hann væri strokufangi sem slapp úr haldi lögreglunnar um miðjan apríl. Drengurinn er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi.
Lögregla hafði fyrst afskipti af drengnum í strætó og daginn eftir í bakaríi. Móðir drengsins var með honum í seinna skiptið og sagði hún í samtali við Kjarnann að atvikið hefði verið niðurlægjandi og að ekki væri um neitt annað að ræða en fordóma.
Drengurinn var sjálfur með ósk sem hann vildi koma á framfæri eftir að lögregla hafði í tvígang afskipti af honum. „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lögreglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“
Ríkislögreglustjóri ætlar að eiga samtal við samfélagið um fordóma
Móðirin fundaði með Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra í kjölfarið og í yfirlýsingu sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér eftir fundinn sagði að í samtalinu hefðu komið fram mikilvægar áherslur sem ríkislögreglustjóri ætli að bregðast við, meðal annars með því að eiga samtal við samfélagið um fordóma.
Sigríður Björk sat fyrir svörum á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í maí vegna atviksins. Þar fullyrti hún að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða í tilfelli drengins. „Við erum að fylgja eftir ábendingum frá almenningi. Þannig að í þessu tilviki á ekki við að það sé kynþáttmiðuð löggæsla. Þetta er einfaldlega þannig að við erum að leita að hættulegum manni, það koma ábendingar og við þurfum að fylgja þeim eftir. Við getum ekki valið úr að fylgja þeim ekki eftir vegna eðlis verkefnisins,“ sagði Sigríður Björk meðal annars á fundinum.
Samkvæmt skilgreiningu ríkislögreglustjóra er um kynþáttamiðaða löggæslu eða kynþáttamarkaða löggæslu að ræða þegar grunur lögreglu um afbrotahegðun einstaklings byggir eingöngu á húðlit og/eða kynþætti. Í svari við fyrirspurn Kjarnans ítrekar embættið að svo hafi ekki verið í tilviki drengsins þar sem lögregla hafi verið að fylgja eftir vísbendingum almennra borgara sem töldu drenginn líkjast manninum sem lýst var eftir.
Til skoðunar að endurskoða flokkun mála hjá nefnd um eftirlit með lögreglu
Líkt og fyrr segir heldur lögregla ekki utan um fjölda mála þar sem um er að ræða kynþáttamörkun. Embættið vísar hins vegar á nefnd um eftirlit með lögreglu en henni berast upplýsingar frá öllum lögregluembættum um kvartanir og kærur á hendur starfsfólki lögreglu.
Í svari frá nefndinni við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að nefndin hafi ekki flokkað mál sérstaklega eftir kynþáttamiðaðri löggæslu og muni ekki eftir því að kvörtun hafi borist á síðustu árum sem falli undir kynþáttamiðaða löggæslu. Hins vegar hafi nokkrum sinnum verið kvartað undan kynþáttafordómum lögreglumanna. Til skoðunar er að endurskoða flokkun nefndarinnar á málum hennar.
Um 100 lögreglumenn lokið námskeiði um fjölbreytileika
Sigríður Björk sagði á fundi allsherjarnefndar- og menntamálanefndar að lögreglan verði að vera vakandi fyrir kynþáttamiðaðri löggæslu.
Í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans um hvernig fræðslu sé háttað um kynþáttamörkun og kynþáttamiðaða löggæslu kemur fram að í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri sé í boði námskeið um fjölbreytileika og löggæslu sem er opið verðandi og starfandi lögreglumönnum.
Þá hefur framhald af þessu námskeiði verið í boði fyrir starfsfólk lögreglunnar hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Rúmlega hundrað lögreglumenn hafa sótt slíkt námskeið á síðustu fimm árum. Auk þess hefur dr. Eyrún Eyþórsdóttir þróað námsþátt um fjölbreytileika og löggæslu í námi sem er ætlað millistjórnendum í löggæslu.
„Í samræmi við löggæsluáætlun hefur verið lögð áhersla á að þróa síþjálfun lögreglu (árleg skylduþjálfun) yfir í víðari svið en hefur verið hingað til, þar á meðal þjónustu við fjölbreytt samfélag og menningarnæmi,“ segir í svari embættis ríkislögreglustjóra.