Sjávarútvegsfélagið Samherji setti fyrr á árinu fram kröfu um að fá tæpar 17 milljónir danskra króna, jafnvirði rúmlega 340 milljóna íslenskra króna, úr þrotabúi færeyska félagsins Tindhólms. Það er félag sem dótturfélag Samherja á Kýpur stofnaði í Færeyjum fyrir um áratug síðan.
Þetta eru peningarnir sem Samherji lét færeyskum yfirvöldum í té eftir að sagt var frá því að Tindhólmur hefði verið með sjómenn sem voru að fiska við strendur Namibíu á launaskrá og skráða sem farmenn á flutningaskipum undir færeyskum fána.
Færeyska Kringvarpið sagði frá því um helgina að á skiptafundi í þrotabúi Tindhólms á föstudag hefði ekki verið tekin afstaða til þessarar kröfu frá Samherja. Ástæðan væri sú að lögreglan hefði ekki enn rannsakað málið, en greint var frá því í vor að TAKS, færeyski skatturinn, hefði tilkynnt málið til lögreglu.
Málið kom upp í marsmánuði þegar fyrri hluti heimildarmyndar um umsvif Samherja í Færeyjum var sýnd er í færeyska sjónvarpinu. Hún var unnin í samstarfi við Kveik og Wikileaks.
Í heimildarmyndinni kom fram að Íslendingur úr áhöfn togara í eigu Samherja, sem gerður var út í Namibíu, fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu og hefði auk þess verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja, en útgerðum býðst 100 prósent endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa.
Þannig er talið að málum hafi verið háttað með fleiri sjómenn sem unnu fyrir Samherja í Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap vegna slíkra skattgreiðslna.
Sagt var frá því í byrjun maí að Samherji hefði greitt jafnvirði 340 milljóna íslenskra króna til færeyskra yfirvalda vegna málsins.
Í frétt Kringvarpsins kemur fram að það liggi ekki fyrir hvort Samherji fái kröfuna samþykkta og milljónirnar til baka úr þrotabúi Tindhólms, sem reyndar hefur verið sagt eignalítið. Fram kemur í frétt Kringvarpsins að á skiptafundinum hafi aðrar kröfur félaga Samherjasamstæðunnar í þrotabú Tindhólms verið samþykktar, að andvirði um 12 milljóna danskra króna alls. Til stendur að ljúka slitameðferðinni þann 8. október.
Samherji sagði „mistök“ hafa verið gerð
Í yfirlýsingu og afsökunarbeiðni sem birtist á vef Samherja 22. júní sagði að í ljós hefði komið að „mistök“ hefðu verið gerð í rekstri Samherja, sem tengst hefðu alþjóðlegri skipaskrá sem haldin væri í Færeyjum.
„Ekki liggur enn fyrir af neinni nákvæmni hver þau mistök eru en Samherji hefur greitt tryggingarfjárhæð sem verður til staðar þegar niðurstaða er fengin. Við viljum leiðrétta þau mistök sem þarna voru gerð og biðjast velvirðingar á þeim. Vonandi fæst nánari niðurstaða í þessi mál fljótt og greiðlega,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins.