Matvælastofnun er þessa dagana með það til skoðunar hvort, og þá hvernig, opinberir aðilar geti „enn fastar“ framfylgt ákvæðum laga um velferð dýra hvað hvalveiðar varðar, að óbreyttri löggjöf.
Þetta segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun í skriflegu svari til Kjarnans, en á mánudaginn var haldinn fundur innan Matvælastofnunar um það hver viðbrögð stofnunarinnar yrðu við atvikum sem upp hafa komið í hvalveiðum Hvals hf. það sem af er sumri.
Ekki gangi að skjóta stærri dýr með riffli
Eins og Kjarninn hefur sagt frá hafa skot hvalveiðimanna geigað í að minnsta kosti þrígang það sem af er hvalveiðitímabilinu og dauðastríð hvalanna lengst.
Matvælastofnun fylgist með velferð hvala við hvalveiða út frá skotum í felldum dýrum og skoðar hvar skutull hefur hæft dýrið og hvort skutlar séu fleiri en einn í dýri, en eftirlitsdýralæknir skoðar hvern einasta hval sem kemur að landi.
Í svari Sigurborgar til Kjarnans segir að ekki séu þó til neinar samantektir hjá Matvælastofnun um þessi mál.
Hún útskýrir að ef skot geigi í stórhveli þannig að sprengiskutullinn sem notaður er til verksins drepi ekki dýrið samstundis, verði að skjóta hvalinn aftur og þá með öðrum sprengiskutli.
„Skot með byssu/öflugum riffli í heila til aflífunar gengur aðeins hjá smærri hvölum, en gengur ekki við aflífuna stórhvela við veiðar,“ segir í svari Sigurborgar.
Hafa ekki reglubundið eftirlitshlutverk – en eiga að fylgjast með velferð dýra
Samkvæmt lögum er Matvælastofnun ekki ætlað að hafa reglubundið eftirlit með veiðum villtra dýra, en stofnuninni er þó almennt ætlað að framfylgja lögum um velferð dýra, þar á meðal því sem fram kemur í 27. grein laganna.
Þar segir meðal annars að ávallt skuli „staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma“ og að veiðimönnum sé skylt „að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.“
Þá segir einnig í lagagreininni að við veiðar sé „óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum“.
Sem áður segir er Matvælastofnun með til skoðunar hvort opinberir aðilar hafi „möguleika á að framfylgja enn fastar ákvæðum 27. gr. þ.e. að óbreyttri löggjöf“ og þá hvernig hægt yrði að gera það.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði við Kjarnann fyrr í mánuðinum, spurð um skot sem þá var vitað að hefðu geigað, að það væri skýrt í hennar huga að „ef atvinnugreinar, sem byggja á dýrahaldi eða veiðum, geta ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra – eiga þær sér enga framtíð í nútímasamfélagi“.