Það virðist „tilviljanakennt og hendingu háð“ hvort að Palestínumenn sem leituðu verndar hér á landi fyrir meira en ári hafi fengið efnismeðferð í sínum málum eða ekki, segir Magnús Norðdahl, lögmaður nokkurra þeirra, um niðurstöður kærunefndar útlendingamála. Að fá efnismeðferð skiptir sköpum því þá horfa stjórnvöld til aðstæðna í heimalandi fólks en ekki aðeins í því landi sem það hefur fengið vernd sem í tilfellum Palestínumannanna er Grikkland. Þrátt fyrir að stjórnvöld hér á landi álíti Grikkland „öruggt ríki“ hafa bæði mannréttindasamtök og flóttamenn sem þar hafa dvalið lýst slæmum aðbúnaði. Það gerðu Palestínumenn m.a. í samtali við Kjarnann í vor.
Suleiman Al Masri er í hópi þeirra Palestínumanna sem ekki fá efnislega málsmeðferð þrátt fyrir að hafa dvalið hér í heilt ár. Hann telur sig og nokkra aðra sem sviptir voru ólöglega þjónustu Útlendingastofnunar í vor og enduðu á götunni hafi fengið aðra og verri meðferð en aðrir. Þeir hafi verið teknir út fyrir sviga þrátt fyrir að mál þeirra séu sambærileg málum annarra sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá kærunefndinni. „Hvernig getur þetta verið löglegt? Hvernig getur þetta verið mannúðlegt?“
Neituðu að fara í COVID-19 próf
Í fyrra sóttu 122 Palestínumenn um alþjóðlega vernd hér á landi. Þeir höfðu flúið ástandið í heimalandi sínu en þar sem þeir höfðu haft viðkomu í Grikklandi og fengið þar vernd átti að vísa þeim úr landi. Í einhverjum tilvikum var það gert en í öðrum hafði faraldurinn og ferðatakmarkanir áhrif sem og sú ákvörðun hælisleitenda að neita að fara í COVID-próf sem var skilyrði fyrir ferðalaginu.
Nú er svo komið að ár er liðið frá komu margra þeirra og þá eiga þeir rétt á því að mál þeirra séu tekin til efnislegrar meðferðar, að því gefnu að sú dvöl sé lögleg, þ.e. að viðkomandi hafi ekki farið í felur eða tafið mál sitt vísvitandi. Þessi ákvörðun liggur hjá kærunefnd útlendingamála.
„En svo hefur það verið þannig að sumir þessara manna sem hafa dvalið hér í ár hafa fengið efnismeðferð samkvæmt niðurstöðu kærunefndar en aðrir ekki,“ segir Magnús. „Þar finnst manni ekki að gætt sé fullrar sanngirni.“
Hafa rétt á að hafna líkamsrannsókn
Magnús bendir á að fólk eigi rétt á því að hafna líkamsrannsókn líkt og COVID-próf er og það hafi margir Palestínumannanna gert. Kærunefndin tók hins vegar þann pólinn í hæðina, að því er virðist gegnumgangandi, að þeir sem gáfu út þá yfirlýsingu að þeir ætluðu ekki í nein COVID-próf hafi fengið efnismeðferð en ekki þeir sem hafi á einhverjum tímapunkti átt pantaðan tíma í COVID-próf en ekki mætt í það. Kærunefnd lítur þannig á að í þeim tilvikum hafi menn verið að tefja sín mál og á þeim grunni er umsókn þeirra um vernd ekki tekin til efnismeðferðar.
„En á þessu er enginn munur,“ segir Magnús. „Eða hver er eðlislægur munur á því að hafna því alfarið að fara í COVID-próf og mæta ekki í tíma? Ég get ekki séð hann.“
Magnús segist telja að þarna sé um að ræða „misvísandi framkvæmd og að ekki sé gætt að jafnræðisreglu“. Af þeim sökum hefur verið ákveðið að fara með mál manna sem synjað hefur verið um efnismeðferð á þessum rökum fyrir dóm og verður fyrsta málið þingfest í vikunni.
Efnismeðferð er ávísun á vernd
Sá hópur sem fengið hefur viðurkenningu á því að mál hans skuli tekin til efnislegrar meðferðar verður hins vegar boðaður í viðtöl hjá Útlendingastofnun. „Þá er farið yfir aðstæður og stöðu viðkomandi í heimalandi,“ útskýrir Magnús. „Fólk frá Palestínu sem fær efnismeðferð á Íslandi fær hér alþjóðlega vernd. Það er fátt sem getur komið í veg fyrir það. Mér er ekki kunnugt um að nokkrum Palestínumanni sem fengið hefur efnismeðferð hafi verið synjað um hæli.“
Magnús segir þessa ólíku niðurstöðu sem mennirnir hafi fengið hjá kærunefndinni vera mjög erfiða fyrir þá. Þeir hafi beðið hér saman mánuðum saman eftir að botn fengist í þeirra mál og því kynnst mjög vel. „Þeir hafa nálgast þessi mál með sama hætti en svo er einn sem fær efnismeðferð en sá sem situr við hliðina á honum og er jafnvel vinur hans fær þveröfuga niðurstöðu.“
Telur framkvæmdina ekki standast lög
Það getur tekið fleiri mánuði að reka mál fyrir héraðsdómi. Mennirnir sem fengu synjun hjá kærunefndinni hafa ekki fengið það sem kallast frestun réttaráhrifa sem þýðir að þeir hafa ekki heimild til löglegrar dvalar hér á landi á meðan mál þeirra er rekið. „Það að dómsmál sé í gangi er engin trygging fyrir því að brottvísun verði ekki framkvæmd,“ segir Magnús. „En ég tel að þessi framkvæmd hjá kærunefnd sé þess eðlis að hún standist ekki lög og að þessi mál munu vinnast fyrir dómi. Það er mín trú og mín von.“
Beðinn um að skrifa undir pappíra
Suleiman Al Masri segir þá ákvörðun kærunefndar að hafna því að mál hans verði tekið til efnismeðfeðrar óskiljanlega því hann hafi ekkert gert af sér og ekkert gert öðruvísi en aðrir samlandar hans sem einnig höfðu sótt hér um vernd. Hann segir lögreglumann hafa beðið sig að skrifa undir pappíra viku áður en dvöl hans í landinu náði ári um að hann féllist á að fara í COVID-próf og í bólusetningu og að vera vísað úr landi. Hann hafi neitað að gera það líkt og aðrir í hans stöðu höfðu áður gert. Hins vegar hafi hann svo fengið neikvæða niðurstöðu hjá kærunefnd á meðan margir aðrir í sambærilegum málum hafi fengið jákvæða.
Suleiman er sannfærður um að hann og nokkrir aðrir, sem er nær sami hópur og var synjað um þjónustu Útlendingastofnunar í maí og Kjarninn fjallaði um, hafi fengið verri meðferð og ósanngjarnari en aðrir. Stofnunin var gerð afturreka með þá ákvörðun sína af kærunefndinni nokkum vikum síðar.
„Þú getur ekki ímyndað þér sársaukann og óréttlætið sem ég upplifi þegar ég fæ neitun á meðan aðrir sem komu hingað á sama tíma og ég, hafa búið á sama stað og ég, og neituðu einnig að skrifa undir pappírana um brottvísun og COVID-próf, fá málið sitt tekið til meðferðar,“ segir hann við Kjarnann. „Þeir geta byrjað að undirbúa líf sitt á Íslandi og ég samgleðst þeim sannarlega. En vonin hefur aftur verið tekin frá mér.“
Enginn túlkur, enginn lögmaður
Hann segist ekki hafa skilið eyðublaðið sem lögreglumaðurinn bað hann um að skrifa undir til fulls. Enginn túlkur hafi verið meðferðis og honum hafi ekki verið gefið færi á að hafa samband við lögfræðing sinn til að fá ráð og leiðbeiningar. Honum hafi heldur ekki verið gerð grein fyrir afleiðingum þess að skrifa ekki undir skjalið. „Þeir komu, spurðu þriggja spurninga, sögðu mér að skrifa undir eða ekki og fóru svo.“
Þannig hafi hann ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess að neita að skrifa undir sem hafi orðið þær, þegar upp er staðið, að mál hans verði ekki tekið til efnislegrar meðferðar líkt og kærunefndin hefur nú komist að, heldur hafi hann tafið mál sitt. Eyðublaðið sem hann neitaði að skrifa undir er sagt því til staðfestingar.
Suleiman undrast að yfirvöld hafi farið fram á þetta viku áður en hann hafði dvalið hér í ár. Þau hafi haft til þess marga mánuði. Auk þess sé niðurstaðan önnur í hans máli en margra annarra sem neituðu einnig að skrifa undir. „Hvernig getur þetta verið löglegt? Hvernig getur þetta verið mannúðlegt?“
Vafasöm framkvæmd
Magnús telur þessa framkvæmd lögreglu „afskaplega vafasama“ miðað við þær lýsingar sem hann hefur fengið hjá umbjóðendum sínum. Hún sé gerð með þeim hætti að fólk í sumum tilvikum skilji ekki hvað verið sé að biðja það um að skrifa undir eða hver þýðing skjalsins sé. Þá láti lögregla lögmenn fólksins ekki vita að fyrra bragði.
„Ef það væri öruggt fyrir mig að búa á Grikklandi eða á Gaza hefði ég ekki komið hingað til að láta koma svona fram við mig og ganga í gegnum þennan sársauka og sorg,“ segir Suleiman. En þannig er það ekki. Þar hefði hann engin tækifæri til að bæta líf sitt. Þess vegna valdi hann að koma til Íslands.
Algjörlega uppgefinn
„Það eina sem ég vil gera er að fá að lifa venjulegu lífi. Geta opnað bankareikning, tekið bílpróf, farið í nám og vinnu. Ég vil enga ölmusu. Ég vil bara stöðugleika, öryggi og virðingu. Allt mitt líf hef ég staðið andspænis óréttlæti, kúgun, stríði, dauða, áhyggjum og depurð. Samt var ég alltaf með von og ætlaði mér að reyna að bæta líf mitt.
Ég veit ekki hvað verður um mig núna.
Af hverju koma yfirvöld svona fram við okkur? Og velja alltaf aðeins nokkra til að beina spjótum sínum að? Fyrst var okkur hent út á götu og við sviptir þjónustu og núna þetta. Ég er uppgefinn á líkama og sál. Algjörlega uppgefinn.“