„Vegna ábendinga sem fram hafa komið um stuttan fyrirvara á kynningarfundinum er fundinum frestað. Vindorkufyrirtækið Zephyr Iceland og verkfræðistofan EFLA munu auglýsa nýjan fundartíma með góðum fyrirvara."
Þannig hljóðar tilkynning frá forsvarsmönnum Zephyr sem ætluðu sér í kvöld, mánudaginn 9. janúar, að halda kynningarfund um áformað vindorkuver sitt á Brekkukambi í Hvalfjarðarsveit. Fundurinn átti að fara fram í Heiðarskóla og voru „íbúar og hagsmunaaðilar hvattir til að mæta og kynna sér framkvæmdina.“
Framkvæmdin fyrirhugaða, 50 MW vindorkuver í landi bæjarins Brekku, hefur verið harðlega gagnrýnd af nærsamfélaginu. Líkt og Kjarninn hefur fjallað um óttast íbúar í nágranni versins hávaða, að vistkerfum og þar með fuglalífi verði stefnt í hættu, og sjónmengun. Um hana er vart hægt að deila, reistar yrðu 8-12 vindmyllur efst á Brekkukambi, hæsta fjalli Hvalfjarðarstrandarinnar, og myndu þær blasa við úr öllum áttum.
Zephyr Iceland lagði fram matsáætlun fyrir vindorkuverið í fyrra og gerðu margir umsagnaraðilar, m.a. stofnanir, fjölmargar athugasemdir við framkvæmdina, ekki síst staðarvalið. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands sagðist m.a. telja það „mikla áskorun“ að ná sátt um byggingu vindorkuvers í svo lítilli fjarlægð frá bæjum og frístundabyggðum. Og Umhverfisstofnun taldi að frekar ætti að staðsetja vindmyllur, sem í þessu tilviki yrðu um 250 metrar á hæð, á núverandi orkuvinnslusvæðum. Að mati Náttúrufræðistofnunar er mjög vandasamt að skipuleggja svo stórt inngrip í landslag á svæði sem er þekkt fyrir fjölbreytt og fallegt landslag líkt og raunin er um Hvalfjarðarsveit.
Zephyr Iceland segir í tilkynningu sinni að frestun fundarins sé tilkomin vegna ábendinga um að til hans hefði verið boðað með stuttum fyrirvara. En ábendingarnar eru þó alls ekki bundnar við það.
Hin nýstofnuðu samtök, Mótvindur – Ísland, sendu Zephyr og Eflu, verkfræðistofunni sem vinnur að umhverfismati vindorkuversins, opið erindi eftir að fundurinn var auglýstur.
„Það vekur furðu að nærsamfélagið er boðað á fund með orkufyrirtækinu og keyptum ráðgjöfum þess um uppbyggingu orkuvers og umhverfisáhrif á sama tíma og stjórnvöld í landinu eru að skoða og móta stefnu í vindorkumálum á landsvísu og ekkert liggur fyrir um að leyfilegt verði að reisa slík orkuver um allt land,“ sagði í erindinu. Er þar vísað til starfshóps sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði síðasta sumar sem hefur það hlutverk að gera tillögur að stefnu stjórnvalda er kemur að nýtingu vindsins. Hópurinn á að skila tillögum sínum um næstu mánaðamót.
„Það hlýtur að teljast ótímabært nema að hagsmunaaðilarnir telji sig fyrirfram komna með virkjanaleyfi og þá um leið að vinna starfshóps og Alþingis í kjölfarið sé í raun formsatriði,“ sagði í erindi Mótvinds.
Í því voru að auki gerðar athugasemdir við fundarboðið, m.a. að til fundarins væri boðað með skömmum fyrirvara, í skammdegi og ófærð, í skólahúsi í Hvalfjarðarsveit.
„Nú er það svo að landeigendur, eigendur fasteigna og fyrirtækjaeigendur, á því stóra svæði sem raforkuver ykkar hefði gríðarleg áhrif á, eru margir staddir víðsfjarri fundarstaðnum og þyrftu mun lengri aðdraganda og undirbúning fyrir slíkan fund ef hann ætti að vera gagnlegur fyrir alla aðila.“
Forsvarsmenn Mótvinds-Ísland bentu einnig á að „hefðu menn raunverulegan áhuga á fjöldamætingu á slíkan fund væri hann að sjálfsögðu boðaður á nútímalega vísu með fjarfundarbúnaði svo að sem allra flestir gætu tekið þátt“.
Þá yrði slíkur fjarfundur „að sjálfsögðu“ að vera gagnvirkur þannig að nærsamfélagið „væri ekki boðað á umhverfisnámskeið hjá fyrirtækjum ykkar heldur í gagnkvæmt samtal þar sem allar raddir myndu heyrast“.
Hvatti Mótvindur forsvarsmenn hins áformaða vindorkuvers til að boða til fundarins með þessum fyrrgreinda hætti en taldi þó eðlilegast að bíða með kynningarfundinn þar til niðurstöður stjórnvalda um nýtingu vinds hér á landi liggja fyrir.
Undir erindi Mótvinds-Ísland skrifuðu:
Thelma Harðardóttir
Arnfinnur Jónasson
Steinunn Sigurbjörnsdóttir
Denni Karlsson
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Andrés Skúlason