Það voru framin hryðjuverk í Belgíu á þriðjudag og ég hef ekkert að segja um þau.
Ég skrifaði um hryðjuverk síðasta sumar, ég tæpti á hryðjuverkum í nóvember og mig langar bara alls ekki að skrifa meira um hryðjuverk. Hryðjuverk eru ekki skemmtileg.
Mig langar smá að skrifa pistil þar sem ég líki forsetaframbjóðendastóðinu við Ruslapokakallana – munið þið eftir þeim? Trash Bag Bunch hétu þeir á ensku. Maður keypti lítinn, ljótan, grænan poka sem maður leysti upp í vatni og út úr honum birtist einhver vansköpuð fígúra af handahófi sem mann langaði alls ekkert að eignast en maður sótti samt í pokana af því að manni fannst prósessinn svo skemmtilegur og safnaði köllunum af skyldurækni. Þetta var víst einhver umhverfisverndaryfirlýsing líka, af því að pokarnir voru svo lífrænir. Ég veit ekkert hvert þessi pæling hefði farið – þetta er í alvörunni allt sem ég er kominn með – og við munum aldrei fá að vita það.
Af því að það voru framin hryðjuverk í Belgíu á þriðjudaginn og það er ekki hægt að láta eins og það hafi ekki gerst.
0,2%
Samt er mér dálítið innanbrjósts eins og það hafi ósköp lítið gerst, og það er þess vegna sem mér finnst ég ekki hafa neitt að segja. Ég þarf að játa fyrir sjálfum mér (og nú öðrum) að í fyrsta skipti síðan ég komst til vits og ára finnst mér hryðjuverkaárás í Evrópu vera allt að því hversdagslegur viðburður. Ég lá ekki yfir aukafréttatímum, uppfærði ekki fréttasíður með 30 sekúndna millibili – ég fór hratt yfir það í huganum hvort ég ætti nána vini eða aðstandendur í Brussel en komst fljótt að því að svo væri ekki.
Og ég virtist ekki vera einn. Af öllum Facebook-vinum mínum voru 0,2% með belgísku fánalitina yfir prófílmyndinni sinni í gær (þetta er alvöru tala – ég gáði). Forsætisráðherra var ekki fenginn í fréttaviðtal til að tala um hvort árásirnar kölluðu á ráðstafanir hér heima – hann lét duga að senda samúðarkveðjur og birta fréttatilkynningu á vef ráðuneytisins. Forsætisráðherrann er vissulega almennt illínáanlegur þessi dægrin en þetta er samt dálítið önnur staða en var eftir árásirnar í Frakklandi í nóvember.
Hvað veldur? Snýst þetta bara um fjölda? Það dóu samt rúmlega 30 manns –þrjátíu manns! – og ekki útséð enn með mannfallið. Finnst okkur árás á Brussel ekki vera jafnmikil árás á heimsmynd okkar og árás París? Vantar einhvers konar ígildi Eiffel-turns í Brussel til að setja á dreifimyndir á Facebook? Ég sá að einhverjir voru búnir að búa til fokkjúputta til ISIS úr frönskum kartöflum – ætli það sé ekki ein leið. Eða er bara áhrifameira og dramatískara að vita af og fylgjast með fólki sem flýr í ofboði út um tíu metra háa glugga undan óðum byssumönnum en að frétta af sprengjum sem springa sisvona með stórum hvelli og rykmekki og skilja eftir sig blóðpolla? Finnst okkur það vera meiri og verri og sársukafyllri aftaka að vera drepinn með byssu en sprengju? Eða erum við bara orðin svona vön þessu?
Ég veit það ekki alveg, og veit ekki hvað ég get haft um þetta allt að segja. Ég gat sagt sitthvað um hryðjuverkin í London – þau stóðu mér nær. En ég veit ekkert um Brussel. Aðrir vita ýmislegt um Brussel, voru mitt í hringiðunni, og margir þeirra eru hvort eð er búnir að segja svo margt á undan mér og flestir betur en ég gæti gert.
Frá Brussel til Kabúl
Ég hef tvisvar komið til Brussel, í örstuttar heimsóknir með um viku millibili. Ég tók meira að segja neðanjarðarlest og innritaði mig í flug. Ég upplifði mig ekki í nokkurri hættu. Þetta var á leið til og frá Afganistan í júlí 2011. Ég fór þangað í blaðamannaferð á vegum bandarískra yfirvalda og, satt best að segja, leið mér ekki eins og mikil hætta steðjaði að mér í Kabúl heldur, jafnvel þótt liðsmaður afganskra öryggissveita hafi verið búinn að miða á mig Kalashnikov-riffli sirka klukkustund eftir að ég lenti. Hann reyndist ósáttur við að búlgarskur kollegi minn væri að taka myndir af innanríkisráðuneytinu út um bílgluggann okkar. Eftir klukkustundar bið í læstum bílnum tókst að leysa það mál.
En í Afganistan voru sjálfsmorðssprengjuárásir því sem næst daglegt brauð. Á meðan á heimsókn okkar stóð gekk maður inn á skrifstofur borgarstjórans í höfuðborg Kandahar-héraðs og sprengdi sig í loft upp. Sama dag heimsóttum við fréttastofu sjónvarpsstöðvarinnar Tolo TV, þar sem lífið gekk nokkurn veginn sinn vanagang. Fréttastjórinn gaf sér tíma í að taka á móti okkur, kynna okkur fyrir starfsfólki og segja okkur undan og ofan af starfseminni. Það var ekki að sjá að morðið á borgarstjóra næststærstu borgar landsins hefði sett þar mikið úr skorðum.
Það hafði reyndar annað verið uppi á teningnum nokkrum vikum fyrr, þegar sjálfsmorðssprengjuárás var gerð á Inter-Continental-hótelinu í Kabúl – þá varð uppi fótur og fit, enda hótelið yfirleitt fullt af vestrænum gestum, og það þykir fréttnæmara þegar þeir deyja. Líka í Afganistan. Í þetta skiptið dó þó bara einn þeirra – á móti tuttugu heimamönnum.
Við erum örugg
Að heimsókninni lokinni sneri ég aftur til Brussel, keypti mér leðurjakka og steig öruggur um borð í flugvél áleiðis til Íslands.
Við skulum hafa það hugfast að við erum enn örugg hérna í loftbólunni okkar, líka þegar við ferðumst um Evrópu. Við búum ekki á stríðshrjáðu svæði þótt alls konar öfl sem vilja nærast á því að við séum hrædd séu sífellt að reyna að telja okkur trú um það. Við búum ekki í Sýrlandi. Við eigum ekki að leyfa neinum að skjóta þeirri hugmynd í kollinn á okkur að ódæðisverk og ofbeldisfullir árekstrar séu óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að búa í nýjum og frjálsari heimi – það sé við þessu að búast þegar fólk með önnur trúarbrögð, annan hörundslit, aðrar lífsskoðanir blandast samfélögum okkar. Vegna þess að það er ekkert þannig – það er rangt. Við erum hvergi öruggari en einmitt hér og hryðjuverk setja fréttastofur enn á hliðina.
Og ég hef kannski ekkert að segja um þessi hryðjuverk, en ég er samt að skrifa um þau þúsund orða pistil.